Hafísinn á hafsvæðinu milli Íslands og Grænlands hefur færst hratt, mun sunnar en Veðurstofa Íslands greindi frá í gær, og varð línuskipið Rifsnes SH-44 umkringt hafís í gær á landleið um 130 til 140 mílur frá Rifi á Snæfellsnesi.
Rifsnesið hafði verið á línuveiðum á Dohrnbanka sem eru fiskimið vestur af Íslandi og segir Vigfús Markússon sem var stýrimaður í þessum túr að ísinn hafi ekki truflað veiðar.
„Við áttum eftir þrjá fjóra rekka, þetta slapp til, það var komið í körin og vorum hvort sem er að fara í land.“
Hafísinn var áberandi.
Ljósmynd/Vigfús Markússon
Vigfús segir hafísinn hafa verið á hraðri suðurleið.
„Það var alveg míluferð á honum. Svo þegar breytir um vindátt getur þetta rekið frá. Hann er búinn að liggja svo mikið í norðanáttinni og norðaustan. Hann var helvíti kaldur sjórinn þarna.“
Hafískort dregið eftir mynd AVHRR-gervitunglsins sem tekin var í gær og birt á vef Veðurstofu Íslands sýndi hafísinn töluvert norðar en þar sem Rifsnesið rakst á hann. Sagði Veðurstofan að hafísinn væri um 20 sjómílur norður af Kögri.
Hafísinn samkvæmt AVHRR-gervitunglsins frá 25. nóvember 2024 kl. 13:20.
Kort/Veðurstofa Íslands
Góð veiði
Í þessum túr var verið að eltast við þorsk og var fínasta veður á miðunum að sögn Vigfúsar. „Það var mjög góð veiði á svæðinu bæði hjá okkur og togurunum. Aflinn var 330 kör, tæp 120 tonn. Mikill lifur í þessum fiski. Það er svo góður fiskur þarna, svo þéttur og góður. “
Vigfús segir línurnar hafa verið lagðar í 12 rekka stubbum og að dregnir hafa verið um 24 rekkar á sólarhring.
Ljósmynd/Vigfús Markússon
Ljósmynd/Vigfús Markússon
Uppfært 10:55. Vigfús var sagður skipstjóri á Rifsnesi, en í þessum tiltekna túr gengdi hann hlutverki stýrimanns. Fréttin hefur verið leiðrétt með tilliti til þess.