Íslenski fiskiskipaflotinn landaði 61.298 tonnum af þorski á fyrstu þremur mánuðum fiskveiðiársins 2024/2025 sem hófst 1. september. Þar af var afli aflamarksskipa 50.854 tonn og krókaaflamarksbáta 10.443 tonn.
Meðal aflamarksskipa er það Kaldbakur EA-1 sem hefur landað mestum þorski á fyrstu þremur mánuðum fiskveiðiársins og er þorskaflinn heil 2.050 tonn. Kaldbakur er því fyrsta fiskiskipið til að ná tvö þúsund tonnum á þessu fiskveiðiári samkvæmt aflaskráningu á vef Fiskistofu.
Sólberg ÓF-1 hefur landað næstmestum þorskafla og var hann 1.868 tonn á þessum þrem mánuðum. Á eftir fylgir Björgúlfur EA-312 með 1.855 tonn.
Kristján HF-100 er aflahæsti krókaaflamarksbáturinn í þorski með rétt rúm 497 tonn. Hafrafell SU-65 er með næstmesta þorskaflann á tímabilinu og bar að landi 479,2 tonn. Þétt á eftir fylgir Auður Vésteins SU-88 með tæp 478,7 tonn.
Kristján HF-100 hefur landað rúmlega 497 tonnum af þorski á fyrstu þrem mánuðum fiskveiðiársins 2024/2025.
Ljósmynd/Kambur hf.
Sólberg aflamest í ýsu
Þá landaði fiskiskipaflotinn 22.888 tonnum af ýsu á fyrstu þrem mánuðum fiskveiðiársins. Þar af lönduðu aflamarksskipin 17.989 tonn og krókaaflamarksbátarnir 4.899 tonn.
Fríða Dagmar ÍS-103 er aflahæsti krókaaflamarksbáturinn í ýsu og hefur á tímabilinu landað 279 tonnum. Næst mestum ýsuafla hefur Einar Guðnason ÍS-303 landað og nemur aflinn 266 tonnum. Á eftir fylgir Tryggvi Eðvarðs SH-2 með 252 tonn.
Sólbergið sem var með næstmestan þorskafla er með mestan ýsuafla og hefur togarinn landað tæplega 1.148 tonnum af ýsu. Á eftir fylgir Baldvin Njálsson GK-400 með 1.049 tonn og svo Blængur NK-125 með rúmlega 591 tonn.