Matvælastofnun hefur unnið tillögu að tveimur rekstrarleyfum vegna sjókvíaeldis Kaldvíkur hf. í Seyðisfirði, en Skipulagsstofnun þó nokkrar athugasemdir við fyrirhugað eldi í áliti sínu og segir andstöðu íbúa fordæmalausa.
Leyfin heimila allt að 10.000 tonna hámarkslífmassa af laxi. Þar af má að hámarki vera 6.500 tonn af frjóum laxi, að þvi er fram kemur í tilkynningu á vef Matvælastofnunar. Þar segir að tillagan byggir á matsskýrslu frá árinu 2020 um 10.000 tonna laxeldi í Seyðisfirði.
„Um er að ræða ný rekstrarleyfi sem heimila annars vegar eldi á 6.500 tonn af frjóum laxi og hins vegar 3.500 tonn af ófrjóum laxi í Seyðisfirði. Burðarþolsmat Hafrannsóknastofnunar fyrir Seyðisfjörð gerir ráð fyrir að hægt sé að vera með allt að 10.000 tonna lífmassa í eldi í firðinum. Áhættumat erfðablöndunar Hafrannsóknastofnunar gerir hins vegar eingöngu ráð fyrir að hægt sé að vera með 6.500 tonn af frjóum laxi í firðinum,“ segir í tilkynningunni.
Framkvæmdin fór í gegn um mat á umhverfisáhrifum í samræmi við ákvæði laga.
Í áliti Skipulagsstofnunar vegna fyrirhugaðs eldis segir að „áhrif eldis á 6.500 tonnum af frjóum laxi, líkt og núgildandi áhættumat heimilar, eru talin óveruleg á þá laxastofna sem áhættumatið tekur til en gera má ráð fyrir neikvæðum áhrifum á litla laxastofna í ám sem áhættumatið tekur ekki til. Þegar horft er til þess að áhrif slíkrar erfðablöndunar geta verið óafturkræf, með tilheyrandi neikvæðum áhrifum á erfðafræðilega fjölbreytni, telur Skipulagsstofnun að eldi á frjóum laxi geti haft nokkuð eða talsvert neikvæð áhrif á villta laxastofna.“
Þá telur stofnunin einnig áhyggjuefni að eldi í Seyðisfirði hafi verið umdeilt meðal íbúa.
„Að mati Skipulagsstofnunar eru áhrif á samfélag óvissu háð, en geta orðið talsvert eða verulega neikvæð ef ekki næst sátt um framkvæmdina í nærsamfélaginu. Byggir sú afstaða m.a. á fjölda athugasemda við frummatsskýrslu Fiskeldis Austfjarða og undirskriftalista íbúa gegn fiskeldisáformum í Seyðisfirði. Fá ef nokkur fordæmi eru fyrir viðlíka andstöðu heimamanna við sjókvíaeldi,“ segir í álitinu.
Jafnframt segir stofnunin sjónræn áhrif af eldinu verða talsvert neikvæð en afturkræf. Einnig kann eldið að hafa neikvæð áhrif á upplifun ferðamanna og álit Seyðisfjarðar sem ekki endilega verði afturkræft þó eldið leggist af.
„Áhrif á ferðaþjónustu geta orðið talsvert neikvæð en eldissvæði koma til með að liggja í mikilli nálægð siglingaleið Norrænu og ferðamannaskipa.“
Bendir Skipulagsstofnun á að „landfræðilegar aðstæður og skipaumferð setja staðsetningu sjókvía í Seyðisfirði þröngar skorður.“ Þess vegna telst mikilvægt að tryggt verði að fiskeldi hafi ekki áhrif á öryggi sjófarenda og lagt til aðstrandsvæðaskipulag liggi fyrir áður en svæðum fjarðarins er ráðstafað til sjókvíaeldis.
„Jafnframt telur Skipulagsstofnun að eldið komi til með að hafa neikvæð samlegðaráhrif með öðru eldi á Austfjörðum á erfðablöndun, botndýralíf, eðlisþætti sjávar, ásýnd og hættu á að laxalús berist í villta laxfiska,“ segir í álitinu.