Ísfélag hf. og Skinney-Þinganes hf. hafa gengið frá samkomulagi um kaup nýs sameiginlegs félags á uppsjávarskipinu Jónu Eðvalds SF-200.
Kaupandi Jónu Eðvalds er Horney ehf. Samkvæmt fyrirtækjaskrá var félagið stofnað í desember á síðasta ári. Mun skipið í framhaldinu fá nafnið Júpíter VE.
Fram kemur í fundargerð bæjarráðs Hornafjarðar frá fundi þess í gær að kaupverðið sé 400 milljónir króna, en skipið er selt án aflaheimilda og án veiðarfæra.
Fiskifréttir hafa eftir Stefáni Friðrikssyni, forstjóra Ísfélagsins, að til standi að félögin skiptist á að nota skipið. „Þetta er hagræðing má segja; í staðinn fyrir að vera með tvö skip þá erum við með eitt skip saman. Það er ágætt að eiga varaskip ef menn lenda í stórum kvótum eða ef upp koma einhverjar óvæntar aðstæður,“ segir hann í umfjölluninni.
Jóna Eðvalds SF verður Júpíter VE.
mbl.is/Sigurður Bogi
Skipinu var lagt i haust og áhöfnin færð yfir á Ásgrím Halldórsson SF-250. Nýr Ásgrímur Halldórsson SF-250 hefur þó verið í smíðum hjá Karstenses skipasmíðastöðinni í Póllandi, en þó nokkur töf hefur verið á afhendingu nýs skips sem átti að vera klárt í apríl á síðasta ári.
Áætlanir gera nú ráð fyrir að skipið fari frá Póllandi á starfsstöð skipasmíðastöðvarinnar í Danmörku í maí næstkomandi og það verði afhent Skinney-Þinganesi í nóvember.
Á síðasta ári seldi Skinney-Þinganes einnig Þóri SF. Var kaupandinn Síldarvinnslan og togarinn endurskírður Birtingur NK. Samherji hefur hins vegar verið með Birting á leigu.
Uppfært 14:48 – Fréttin hefur verið uppfærð með orðum sem Stefán Friðriksson lét falla í samtali við Fiskisfréttir.