Rétt upp úr klukkan 5 í nótt kallaði stjórnstöð Landhelgisgæslunnar út áhöfnina á björgunarskipinu Björgu á Rifi á mesta forgangi vegna fiskibáts með tvo um borð sem hafði misst stýrið og rak nálægt landi.
Í tilkynningu frá Slysavarnarfélaginu Landsbjörg segir að fiskibáturinn hafi verið staddur rétt undan Svörtuloftum og rak í norður meðfram landi, aðeins um hálfa sjómílu frá landi.
Laust fyrir klukkan 7 kom björgunarskipið með fiskibátinn í togi til hafnar á Rifi.
Ljósmynd/Landsbjörg
Stundarfjórðungi eftir að áhöfnin var kölluð út, klukkan 5.20, var Björg lögð úr höfn og hélt áleiðis á vettvang. Björgunarskipið var komið að fiskibátnum rúmum 20 mínútum síðar og hófust strax aðgerðir við að koma tógi á milli skipanna.
Það gekk vel fyrir sig og skömmu fyrir klukkan 6 í morgun var komin taug á milli. Það var svo rétt um klukkan 7.24 sem björgunarskipið kom til hafnar á Rifi með fiskibátinn í togi.
Þyrlusveitin afturkölluð
Í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni segir að stjórnstöð Landhelgisgæslunnar hafi borist neyðarkall fá fiskibáti sem var staddur um hálfa sjómílu undan Svörtuloftum á Snæfellsnesi um klukkan fimm í morgun.
Tveir voru um borð í bátnum og tjáðu þeir varðstjórum stjórnstöðvar að báturinn væri stjórnvana og ræki með sjávarfallastraumi norður með landinu. Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar var þegar í stað kölluð út ásamt sjóbjörgunarsveitum Slysavarnafélagsins Landsbjargar á Snæfellsnesi.
„Áhöfnin á björgunarskipinu Björgu frá Rifi var fyrst á vettvang og klukkan 5:45 var fiskibáturinn kominn í tog hjá áhöfn björgunarskipsins. Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar var þá afturkölluð og björgunarskipið hélt með fiskibátinn á Rif. Landhelgisgæslan hefur tilkynnt Rannsóknarnefnd samgönguslysa um atvikið,“ segir enn fremur í tilkynningunni.