Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) gagnrýna harðlega vinnubrögð atvinnuvegaráðherra við gerð frumvarps um tvöföldun veiðigjalda, sérstaklega þá knappan tíma til athugasemda og skort á gögnum.
„Það má heita sérstakt ef fólk er að tala fyrir gagnsæi og að byggja traust og skapa sátt, að koma fram með frumvarp sem enginn mátti vita af í aðdragandanum. Það er kynnt og sett inn í samráðsgátt skömmu síðar, en því fylgja engin gögn eða áhrifamat,“ segir Heiðrún Lind Marteinsdóttir framkvæmdastjóri SFS í samtali við Morgunblaðið.
SFS sendu í gær bréf til Hönnu Katrínar Friðriksson atvinnuvegaráðherra, þar sem hörð gagnrýni á vinnubrögðin við frumvarpið var áréttuð og fundið að mótbárum ráðherrans við þeim.
„Þegar við spyrjum um gögnin fáum við aðeins PDF-skjöl með einhverjum tölum, en þær byggja á útreikningum sem við fáum ekki að sjá eða leggja mat á. Svo að þá báðum við um að fá útreikningana í Excel-skjali, en af hverju er það ekki hægt?“ spyr Heiðrún Lind og þykir það ekki traustvekjandi.
„Það skýtur líka skökku við að okkur hafa ekki verið veitt svör þegar við óskum eftir gögnum, en svo sjáum við það í tilkynningu ráðherra á föstudag að einhver gögn séu undanþegin upplýsingalögum. En þá ber ráðherra bara að upplýsa okkur um það, af hverju þau eru ekki birt og hvaða kæruleiðir eru færar. Ekkert af þessu er gert.“
Vilja ófrið um sjávarútveginn
Bergþór Ólason þingflokksformaður Miðflokksins tekur undir þessa gagnrýni.
„Stjórn sem ekki getur farið að eigin samþykktu verklagsreglum hvað framlagningu mála varðar er því miður ekki líkleg til að taka tillit til skynsamlegra athugasemda á þessu stigi máls,“ segir Bergþór en bætir við að ekki verði séð að ríkisstjórnin vilji annað en ófrið um sjávarútveginn.
„Það voru auðvitað stórfréttir þegar forsætisráðherra upplýsti í þinginu í [gær] að fyrirliggjandi áform um 100% hækkun veiðigjalda væru bara fyrsta skrefið í þessum efnum. Ekki var annað á ráðherra að skilja en að áform væru uppi um heildarhækkun upp í 30 milljarða á ári, úr 10 núna, upp í 20 með fyrirliggjandi frumvarpi og svo um aðra 10, upp í 30 milljarða á ári í „góðu samráði“ við hagaðila á næstu árum.“
Nánari umfjöllun má finna í Morgunblaðinu í dag. Einnig má nálgast hana án endurgjalds í Mogganum, nýju appi Morgunblaðsins og mbl.is.