Guðmundur Helgi Þórarinsson, formaður VM – félags vélstjóra og málmtæknimanna, segir löngu tímabært að viðmið um aflaverðmæti til grundvallar veiðigjalds verði uppfært og að þjóðinni sé þannig „tryggt sanngjarnt afnotagjald fyrir aðgang að sameiginlegri auðlind“.
Hann telur þó enga leið fyrir stéttarfélög sjómanna að taka afstöðu til frumvarps Hönnu Katrínar Friðrikssonar atvinnuvegaráðherra um stórfellda hækkun veiðigjalda og fullyrðingar ríkisstjórnarinnar og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) um frumvarpið. Til þess þarf að birta öll þau gögn sem varða málið.
Þetta segir Guðmundur Helgi í pistli sem birtur hefur verið á vef VM.
„Það er í mínum huga lykilatriði að stjórnvöld, fulltrúar útgerða og fulltrúar sjómanna komi saman og komist að samkomulagi um tölulegar staðreyndir málsins; að menn geti orðið sammála um þann veruleika sem við stöndum frammi fyrir. Öll gögn þurfa þá að liggja á borðinu. Afleiðingarnar af óbreyttu ástandi verður áframhaldandi vantraust og tortryggni,“ skrifar hann.
Guðmundur Helgi rifjar upp að VM hafi um árabil vakið athygli á því að félagið telji skiptingu arðsins sem til verður við nýtingu fiskveiðiauðlindarinnar sé ekki skipt með sanngjörnum hætti.
„Hún hefur verið útgerðinni í hag aðrir hafa sjómenn, eins og þjóðin öll, hefur setið eftir með sárt ennið. Þó að það sé öllum ljóst að gífurlegur hagnaður hefur skapast í sjávarútvegi, sérstaklega þar sem útgerðir ráða bæði veiðum og vinnslu, þá hefur reynst erfitt að fá stjórnvöld til að eiga raunverulegt samtal um málefnið.“
Vekur hann athygli á því að VM telur „árum saman [hafa] viðgengist að íslenskir sjómenn fá um 40% lægra verð fyrir uppsjávarafla til bræðslu en norskir. Og þegar norsk skip landa uppsjávartegundum hjá íslenskum vinnslum fá þau allt að 43% hærra verð en þau íslensku.“
Frumvarp Hönnu Katrínar gerir ráð fyrir að álagning veiðigjalds fyrir norsk-íslenska síld, kolmunna og makríl verði reiknað út á grundvelli uppboðsverðs á norskum fiskmörkuðum. Miðað við verð á þessum norsku mörkuðum og álagningu gjalds á þessar uppsjávartegundir síðustu ára myndi þetta leiða til margföldun veiðigjalda á þessar tegundir.
SFS hefur hins vegar gagnrýnt þessa aðferðafræði og bent á að þessi verðmyndun í Noregi á sér stað við allt aðrar aðstæður en ríkja í sjávarútvegi hér á landi.
Guðmundur Helgi fagnar hins vegar þessum breytingum og bindur vonir við að það kunni að varpa ljósi á það óréttlæti sem VM telur íslenska sjómenn hafa þurft að þola.
„Ef það er gert af heilindum og gagnsæi – þá er það fagnaðarefni. Sú breyting getur, ef rétt er að staðið, komið til móts við þann veruleika sem sjómenn hafa bent á: að verðmyndunin hafi verið úr takti við raunverulegt verðmæti aflans. Tilfinning okkar er að útgerðin spili leikinn: Ég á þetta – ég má þetta.“
Vekur hann athygli á því að í skýrslu Fjármála- og efnahagsráðuneytisins 2016 hafi komið fram að innflutningsverð íslenskra sjávarafurða erlendis var skráð um 8,3% hærra en söluverðmæti sama afla á Íslandi.
„Þetta hefur meðal annars viðgengist vegna þess að Verðlagsstofa skiptaverðs hefur ekki fengið fullnægjandi aðgang að útflutningsskýrslum sjávarafurða. Á meðan þær upplýsingar liggja ekki fyrir verður aldrei hægt að tala um sanngirni. Þá verður aldrei nein sátt.“
Þá telur hann alla nema útgerðirnar tapa á óbreyttu ástandi. „Hafnirnar verða af tekjum, sjómenn verða áfram hlunnfarnir og sveitarfélög fara á mis við útsvar. Síðast en ekki síst verður ríkissjóður af milljörðum, eins og ríkisstjórnin hefur bent á.“
„Í grunninn snýst þetta um réttláta skiptingu verðmæta sem þjóðin á. Sjómenn, sem veiða aflann, eiga rétt á að fá sanngjarna hlutdeild í þeim verðmætum sem þeir skapa – og þjóðin réttlátt auðlindagjald. Það verður ekki gert með leynd, heldur með gagnsæi í verðmyndun og skýrum reikniaðferðum,“ segir Guðmundur Helgi í pistli sínum.