„Það þarf bara að sníða aðeins vankantana af þessu, gefa kvótann út fyrr og svona. Þetta tekur nokkur ár að slípast til.“ Þetta segir Guðmundur Haukur Þorleifsson, grásleppusjómaður á Sauðárkróki. Þar tekur hann undir með Stefáni Guðmundssyni, grásleppusjómanni á Húsavík, sem ræddi við Morgunblaðið í gær. Stefán var ekkert að skafa af því þegar leitað var álits hans á frumvarpi meirihluta atvinnuveganefndar um breytingar á á lögum um stjórn fiskveiða. Með breytingunum yrði aflamarkskerfi fyrir grásleppuveiðar sem tekið var upp á síðasta ári afnumið. Hann kallar frumvarpið „hámark vitleysunnar“ og bendir á að meirihluti grásleppusjómanna sé fylgjandi því að grásleppuveiðar fari inn í aflamarksstjórnun.
Guðmundur er einn þeirra sjómanna sem líta nýtt fyrirkomulag jákvæðum augum, en hann telur að það leiði af sér fyrirsjáanleika sem dagakerfið bjóði ekki upp á. Aflamarkskerfið muni með tíð og tíma bæta þá stöðu til muna. „Mér fannst mjög gott að ráða alveg mínum hraða á veiðunum. Geta dregið upp þegar spáði illa og svona. Ég var með færri net í sjó því ég vissi alveg upp á hár hvað ég mátti veiða,“ segir Guðmundur. Þá bendir hann á að fyrirkomulagið hafi komið sér vel á nýliðinni vertíð þegar skall á með norðanbrælu sem varði í tíu daga. Grásleppusjómenn höfðu þá þann möguleika að draga net sín í land en með fyrra fyrirkomulagi hefði það kostað þá verðmæta daga úr dagakerfinu.
Guðmundur segir að það hafi vissulega komið illa við flesta grásleppusjómenn að fá minna úthlutað en þeir bjuggust við. Þá var ekki búið að gefa út heildarkvóta þegar vertíðin fór af stað. Aðeins var gefinn út byrjunarkvóti og leið allnokkur tími þar til Hafrannsóknastofnun gaf út lokaniðurstöður sínar um hámarksafla, svo að margur sjómaðurinn hímdi heima á meðan. Þegar upp var staðið nam heildaraflinn aðeins 2.760 tonnum, sem er 32% minni afli en á síðasta fiskveiðiári.
„Þeir munu ákveða sig sem ætla að hætta eða halda áfram,“ segir Guðmundur. „Þá sér maður betur hvernig þessu reiðir af. Auðvitað lagar kvótinn ekki allt en þeir sem verða eftir munu hafa meiri vinnu. Það þarf að gefa þessari kvótasetningu séns.“