„Það að fylgja aflareglum Hafrannsóknastofnunar til að tryggja sjálfbærar og vottaðar veiðar er algjört lykilatriði,“ segir Kristinn Hjálmarsson framkvæmdastjóri ISF, spurður út í frumvarp atvinnuvegaráðherra um breytingar til bráðabirgða á lögum um strandveiðar, en ISF sér um að afla vottana á veiðarfæri og fiskistofna sem nýttir eru við Ísland.
Þorsteinn Sigurðsson forstjóri Hafrannsóknastofnunar sagði í samtali við blaðið í gær að hann teldi líklegt að breytingar frumvarpsins myndu ýta undir ósjálfbærar veiðar.
Kristinn segir Ísland alltaf hafa verið til fyrirmyndar hvað varðar sjálfbærnivottanir á sjávarafurðum. „Það er óásættanlegt að sjá að það eigi að víkja frá þessari stefnu,“ segir hann í samtali við Morgunblaðið.
„Íslenskar fiskveiðar hafa alltaf byggst á vísindalegri ráðgjöf, sérstaklega síðasta áratuginn,“ segir Kristinn. Það hafi skipt gríðarlega miklu máli fyrir sjálfbærniímynd íslenskra fiskveiða og greitt leiðina að því að fá sjálfbærnivottun fyrir sjávarafurðir sem hér eru veiddar.
„Við höfum misst vottanir af ýmsum ástæðum og gert nauðsynlegar umbætur. Þegar við missum vottanir, þá töpum við mörkuðum. Margir markaðir vilja ekki kaupa vörur sem ekki koma úr sjálfbærum og vottuðum veiðum. Ef við missum ekki markaðina, þá lækkar verðið,“ segir Kristinn.
„Þetta frumvarp virðist fela í sér að víkja frá vísindalegri ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar. Er þetta einungis undantekning eða er þetta nýtt fordæmi? Hvað annað verður þá gert á þennan hátt? Að gefa afslátt af vísindunum þegar við höfum lagt svo mikið á okkur til að byggja íslenskan sjávarútveg á vísindum, ekki stjórnmálum, er óásættanlegt.
Allir alvöru sjómenn umgangast auðlindina af virðingu, öll alvöru útgerðarfélög umgangast auðlindina af virðingu og öll alvöru stjórnvöld eiga að gera það líka – eins og sjávarútvegsráðherrar síðustu áratugina hafa gert. Þeir færðu ákvörðun um heildarkvóta frá sjálfum sér, frá stjórnmálamönnum til vísindamanna. Þannig skapaðist sjálfbærnigrundvöllur fyrir nytjastofna við Ísland, því fram að því var stunduð ofveiði við Ísland í boði stjórnmálamanna,“ segir Kristinn að lokum.
Fáðu þér áskrift til að lesa áfram
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu,
rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki
á mbl.is.