Breytingar hjá bæjarútgerðinni

Óskar Torfason ásamt nýjum framkvæmdastjóra, Mikael Steingrímssyni.
Óskar Torfason ásamt nýjum framkvæmdastjóra, Mikael Steingrímssyni. Ljósmynd/Aðsend

Á Drangsnesi hefur fiskvinnslan Drangur verið starfrækt sleitulaust í aldarfjórðung. Óskar Torfason hefur staðið í brúnni sem framkvæmdastjóri frá fyrsta degi en hefur þó starfað enn lengur í húsi fiskvinnslunnar, eða í 45 ár. Nú hefur Óskar þó stigið til hliðar og mun fylgjast með nýrri kynslóð taka við Drangi og bæjarútgerðinni Skúla. Þegar blaðamaður sló á þráðinn til Óskars voru tveir dagar liðnir frá starfslokum og nægur tími til að líta yfir farinn veg.

Samhent samfélag

„Þetta er náttúrlega sögulegt þegar maður horfir til baka,“ segir Óskar. „Þannig er það að um aldamótin vorum við hluti af Hólmadrangi, sem var á Hólmavík með rækjuvinnslu og smá fiskvinnslu. Svo kemur ÚA [Útgerðarfélag Akureyringa] inn í þetta og tekur yfir Hólmadrang. Þeir skildu nú vel við okkur en þeir vildu ekki halda áfram rekstri hér.

Þá var farið í að stofna fiskvinnsluna Drang og þá kom inn í þetta kaupfélagið [Kaupfélag Steingrímsfjarðar] sem hafði átt Hólmadrang og svo sveitarfélagið. Svo tók þátt í þessu stór hópur einstaklinga og útgerðarmanna sem höfðu verið hérna á Drangsnesi. Hluthafarnir voru þrjátíu og einn þarna strax og hlutaféð tuttugu og fjórar milljónir, sem var svolítill peningur þá. Þá keyptum við lyftara og tæki og húsið af ÚA og svo héldum við áfram að paufast í þessu.”

Óskar segir að fólk hafi ekki verið mjög bjartsýnt en samfélagið á Ströndum sé þétt, íbúar samhentir og allir verið staðráðnir í að láta þetta ganga upp. Það hafi gengið eftir eins og sjá megi nú, 25 árum síðar.

Héldu kvótanum í heimabyggð

Ýmsar sviptingar settu þó strik í reikninginn, en Óskar segir að starfsemin hafi alla tíð þurft að laga sig að náttúrunni. „Já, hún hefur alveg stjórnað þessu,“ segir Óskar. „Við vorum lengi í rækju og síðan fór hún. Skömmu síðar kom ýsan og við fórum að veiða hana og vinna. Ef við förum jafnvel enn þá lengra aftur, þá var enginn þorskur hér heldur 1965-1968. Þá bara hrundi allt, um það leyti sem ég fæddist. En þá tók sem sagt rækjan við og menn fóru að vinna þetta með frumstæðum aðferðum til að byrja með. Það var einhver þróttur í fólkinu til að reyna að bjarga sér. Við höfum alltaf fundið leið.“

Til að byrja með hverfðist starfsemi Drangs aðeins um fiskvinnslu og hafði fyrirtækið ekki beinan aðgang að veiðiheimildum. Til að tryggja vinnsluna til framtíðar var útgerðarfélagið Skúli stofnað 2002 og fékk fyrsti báturinn nafn félagsins. Um sannkallaða bæjarútgerð var að ræða, en að henni komu sveitarfélagið, Drangur og kaupfélagið með stuðningi frá Byggðastofnun. Sveitarfélagið á enn þann dag í dag tæp 50% í útgerðinni og fiskvinnslan Drangur 8%. Meirihluti eignarhaldsins er því í heimabyggð, en fyrirtækið einsetti sér að missa ekki kvótann úr sveitarfélaginu.

„Við reyndum smám saman að bæta við veiðiheimildum,“ segir Óskar. „Svo á næstu árum var bætt í og við vorum að kaupa til okkar bát og svo bæta við kvótann öllu sem féll til hér á svæðinu. Það var haft sem markmið að allur kvóti sem væri hér til sölu færi ekkert. Við reyndum að hanga á honum.“

Fiskvinnslan Drangur er fyrir miðri mynd og hægra megin við …
Fiskvinnslan Drangur er fyrir miðri mynd og hægra megin við hana er höfnin. Ljósmynd/Drangur

Uggandi yfir frumvörpum

Óskar segir reksturinn ganga vel. Drangur flytur saltfisk til Spánar og frosinn fisk á breskan markað. Grásleppan er þó líklega ein af stærstu afurðum Drangs, en hrognin seljast vítt og breitt um Evrópu og frá 2010 hefur hveljan verið seld til Kína. Óskar segist þó uggandi yfir þeim breytingum sem glitti í á Alþingi. Þrjú frumvörp sem liggi þar fyrir gætu haft töluverð áhrif á viðkvæman rekstur í litlu samfélagi.

„Við veiðum á línukvótann okkar til þess að geta haft vinnu allt árið í fiskvinnslunni ásamt grásleppunni og það er dýrt útgerðarform hjá okkur,“ segir Óskar. „Útgerðarfélagið Skúli var að borga 13 milljónir í fyrra í veiðigjöld og með sömu reikniaðferðum og voru notaðar þá fer verðið í sautján milljónir núna. Okkur munar alveg helling um það. Þessi auðlind sem við erum að nýta er okkur mjög mikilvæg til að halda uppi byggð á svona afskekktum stað.“

Óskar segir að sviptingar í fyrirkomulagi strandveiða hafi minni áhrif á fyrirtækið, en þær valdi honum engu að síður áhyggjum. Einhvers staðar þurfi að sækja kvótann til að tryggja strandveiðimönnum 48 daga veiðar og hann hafi áhyggjur af því að veiðiheimildir verði teknar af línuívilnuninni eða byggðakvótanum.

„Grásleppan hefur hins vegar verið aðalankeri okkar í rekstrinum og ég var ekki endilega fylgjandi því að setja hana í kvóta en það hefur þó marga kosti. Það er meiri fyrirsjáanleiki og menn geta stýrt því hvenær þeir sigla, geta dregið inn í brælum, verið með færri net í sjó og nýtt netin betur.“

Mikael Steingrímsson, eftirmaður Óskars, hefur svipaða sögu að segja þegar til hans er leitað. Hann segir það hafa verið stóra ákvörðun að setja grásleppu í kvóta en nú hafi útgerðir og vinnslur gert ráðstafanir í rekstri sínum til að mæta nýju umhverfi og vont sé að ætla strax að hrófla við því aftur. Hann útskýrir þó kankvís fyrir blaðamanni sem ryður úr sér spurningum að á degi tvö í framkvæmdastjórastöðunni sé hugur hans mest bundinn við að setja sig inn í reksturinn og fullvissa sig um að vélin gangi smurt fyrir sig.

Heiður að taka við hjartanu

Tækifærið kom óvænt upp í hendurnar á Mikael. „Ég var bara í fæðingarorlofi þegar bent var á mig. Þegar vitað var að Óskar væri að hætta fóru þau að leita að einhverjum sem væri kunnugur sjávarútveginum.“ Mikael er hagfræðingur að mennt og lærði sitthvað um sjávarútveginn í náminu. Að loknum háskóla stundaði hann rannsóknir á nýsköpun innan geirans og rýndi meðal annars í virðiskeðju innan sjávarútvegsins og þróun hennar síðustu áratugi. Hann var því spenntur fyrir tækifærinu þegar það bauðst.

Mikael á ættir að rekja til Stranda þó að hann hafi aldrei búið þar sjálfur. „Við komum úr Vesturbænum og fluttum þaðan hingað, en okkur líður mjög vel hérna. Manni finnst eins og svona tækifæri séu ekki alltaf í boði,“ segir hann. „En maður er mjög bjartsýnn. Að hafa svona mikinn áhuga á þessu og vera búinn að lesa, læra, skrifa, kanna og vinna aðeins í þessu og fá loksins að taka þátt í raunhagkerfinu.“ Mikael segist þó finna til mikillar ábyrgðar. „Hér á Drangsnesi búa örugglega um sextíu og fimm manns og fyrir bæði félögin vinna svona tuttugu manns. Það er mikil ábyrgð og mjög mikill heiður að taka hérna við hjartanu í samfélaginu.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 19.6.25 505,87 kr/kg
Þorskur, slægður 19.6.25 541,20 kr/kg
Ýsa, óslægð 19.6.25 476,56 kr/kg
Ýsa, slægð 19.6.25 478,86 kr/kg
Ufsi, óslægður 19.6.25 205,55 kr/kg
Ufsi, slægður 19.6.25 277,68 kr/kg
Undirmálsufsi, óslægður 26.5.25 99,00 kr/kg
Djúpkarfi 16.6.25 30,00 kr/kg
Gullkarfi 19.6.25 240,56 kr/kg
Litli karfi 18.6.25 10,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

19.6.25 Arndís HU 42 Handfæri
Þorskur 455 kg
Steinbítur 21 kg
Ýsa 16 kg
Ufsi 2 kg
Samtals 494 kg
19.6.25 Máni ÁR 70 Handfæri
Þorskur 734 kg
Ufsi 552 kg
Samtals 1.286 kg
19.6.25 Gíslína ST 33 Handfæri
Þorskur 779 kg
Samtals 779 kg
19.6.25 Guðrún Petrína HU 107 Handfæri
Þorskur 837 kg
Samtals 837 kg
19.6.25 Nökkvi ÁR 101 Handfæri
Ufsi 1.048 kg
Þorskur 797 kg
Samtals 1.845 kg

Skoða allar landanir »

Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 19.6.25 505,87 kr/kg
Þorskur, slægður 19.6.25 541,20 kr/kg
Ýsa, óslægð 19.6.25 476,56 kr/kg
Ýsa, slægð 19.6.25 478,86 kr/kg
Ufsi, óslægður 19.6.25 205,55 kr/kg
Ufsi, slægður 19.6.25 277,68 kr/kg
Undirmálsufsi, óslægður 26.5.25 99,00 kr/kg
Djúpkarfi 16.6.25 30,00 kr/kg
Gullkarfi 19.6.25 240,56 kr/kg
Litli karfi 18.6.25 10,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

19.6.25 Arndís HU 42 Handfæri
Þorskur 455 kg
Steinbítur 21 kg
Ýsa 16 kg
Ufsi 2 kg
Samtals 494 kg
19.6.25 Máni ÁR 70 Handfæri
Þorskur 734 kg
Ufsi 552 kg
Samtals 1.286 kg
19.6.25 Gíslína ST 33 Handfæri
Þorskur 779 kg
Samtals 779 kg
19.6.25 Guðrún Petrína HU 107 Handfæri
Þorskur 837 kg
Samtals 837 kg
19.6.25 Nökkvi ÁR 101 Handfæri
Ufsi 1.048 kg
Þorskur 797 kg
Samtals 1.845 kg

Skoða allar landanir »