Vilhelm Þorsteinsson EA kom í morgun með fyrsta makrílfarminn sem landað er í Neskaupstað í sumar. Farmurinn var 1.040 tonn, þar af um 15% síld. Löndun hófst umsvifalaust og í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar var allt reiðubúið. Fyrsti farmurinn skilar sér rúmri viku fyrr í ár en í fyrra.
„Mér líst alveg þokkalega á þetta,“ sagði Guðmundur Þ. Jónsson skipstjóri, þegar heimasíða Síldarvinnslunnar sló á þráðinn. „Makríllinn er stór og fallegur, um 470 gramma fiskur. Við erum í veiðisamstarfi með Margréti EA og Síldarvinnsluskipunum Berki, Beiti og Barða.“ Hann segir veiðisvæðið, sem er rétt við norsku línuna í Smugunni, nú fyllast af íslenskum skipum og að traffíkin fari ört vaxandi. „Aflinn í fyrsta hring var um 890 tonn en Barði og Margrét voru að partrolla. Við tókum síðan eitt 140 tonna hol til viðbótar þessum hring.“
Allir í startholunum í fiskiðjuverinu
Í fiskiðjuverinu tók Geir Sigurpáll Hlöðversson, rekstrarstjóri, vel á móti fyrsta farmi sumarsins. „Fiskurinn lítur býsna vel út. Þetta er hinn fallegasti Smugufiskur,“ sagði hann.
Vilhelm Þorsteinsson EA kemur með sinn fyrsta farm á makrílvertíðinni.
Ljósmynd/Síldarvinnslan/Sigurjón Jónuson
Makríllinn er heilfrystur og hausaður í vinnslunni en Geir segir að þótt það taki vissulega svolítinn tíma að ná taktinum þegar vertíðin er nýbyrjuð, þá sé allt að verða komið á fullt. „Þetta byrjar bara ágætlega og það er virkilega gaman að vertíðin skuli vera hafin,“ bætir hann við. Nú vonist menn til að veiðin verði stöðug og að makríll finnist einnig innan íslenskrar lögsögu fljótlega.
Á síðasta ári var fyrsta makrílfarminum landað 2. júlí þegar Beitir NK kom með tæp 500 tonn sem fengust innan lögsögunnar. Vilhelm Þorsteinsson EA kom þá strax á hæla Beitis með 850 tonn úr Smugunni.