Tonnatalan tikkar niður á heimasíðu Fiskistofu þar sem strandveiðiaflinn er skráður. Þegar þetta er skrifað eru 1.009 tonn eftir af þorskveiðiheimildunum eða 10,9% heildaraflans. Miðað við núgildandi lög ber Fiskistofu skylda til að stöðva veiðarnar þegar aflinn nær 10.000 tonnum en frumvarp atvinnuvegaráðherra um strandveiðar sem nú er í meðförum þingsins mun breyta því fyrirkomulagi verði frumvarpið að lögum. Samkvæmt frumvarpinu yrði heimild Fiskistofu til að stöðva veiðarnar afnumin í því skyni að tryggja strandveiðimönnum 48 daga veiðitímabil.
Nú er strandveiðitímabilið aðeins rétt rúmlega hálfnað en óðum styttist í að 10.000 tonna markinu sé náð og því þarf Fiskistofa að öllu óbreyttu að stöðva veiðarnar nema aflaheimildum verði bætt við. Ráðherra hefur áður sagst gera ráð fyrir að frumvarpið verði að lögum áður en þingmenn fara í sumarfrí en ekki er ljóst hvort af því verði áður en til stöðvunar strandveiða kemur. Allt stefnir í að bil myndist frá stöðvun veiða að samþykkt frumvarps ef af því verður og vöngum er velt yfir því hvort og hvernig til standi að brúa það bil.
Hjá Fiskistofu er fylgst með stöðu frumvarpsins en svo lengi sem það hefur ekki verið samþykkt verður engin breyting á þeirra verkferlum. „Hámarkið er 10.000 tonn og ef því er náð og Fiskistofu ber að stöðva veiðarnar þá stöðvar Fiskistofa veiðarnar,“ segir Óttar Erlingsson, deildarstjóri veiðiheimilda og gagna hjá Fiskistofu. Þegar hann er spurður hvort hann telji að veiðiheimildum verði bætt við og hvert þær heimildir verði sóttar bendir hann á að því verði atvinnuvegaráðuneytið að svara. „Við höfum í raun og veru ekki neinu hlutverki að gegna við að ákveða hvernig veiðiheimildum er skipt. Það er eingöngu ráðuneytisins að ákveða slíkt, þannig að þau verða að svara fyrir allar slíkar spurningar.“
Morgunblaðið sendi fyrirspurn um málið á atvinnuvegaráðuneytið en svör hafa ekki borist.
Fáðu þér áskrift til að lesa áfram
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu,
rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki
á mbl.is.