iTub hefur lengi gert sig gildandi í leigu á kerum fyrir flutning á hvítfiski en kerin eru framleidd af Sæplasti, móðurfélagi iTub. Fyrir tveimur árum beindi fyrirtækið hins vegar sjónum að hinum ört vaxandi laxeldismarkaði. Hafist var handa við þróun á nýrri vöru fyrir magnflutninga á eldislaxi og nú er fyrirtækið byrjað að kynna svokölluð tvíburaker sem koma vel út í notkunarprófunum.
Þegar iTub gerði sínar fyrstu kannanir á markaðnum kom í ljós að tiltölulega fáir höfðu þá þegar hafið notkun á margnota kerum fyrir eldislax. „Það voru eiginlega bara Skotarnir sem voru byrjaðir á þessu,“ segir Bragi Smith, viðskipta- og þróunarstjóri iTub. „Þeir voru byrjaðir að flytja fisk frá Skotlandi inn á markaðinn í Bretlandi með kerum.“
Hann segir að skosku eldisfyrirtækin hafi þróað nýjar flutningsumbúðir vegna vaxandi eftirspurnar hjá smásöluaðilum. Aukinn þrýstingur frá neytendum hafi leitt til þess að fyrirtæki á borð við Marks & Spencer hafi farið að endurskoða sjálfbærnistefnu sína. „Þeir fóru að skoða módelið innan frá,“ segir Bragi, „og eitt af því sem þeir byrjuðu á að skoða var einnota umbúðir. Þá höfðu þeir samband við Skotana sem framleiða allan laxinn fyrir þá og óskuðu eftir því að laxinn kæmi í margnota umbúðum.“
Að sögn Braga er næstum allur lax sem fer frá Skotlandi inn á breska markaðinn nú fluttur í margnota kerum. Eftir breytingarnar hafi Skotarnir komist að raun um að magnflutningur með kerum sé ekki aðeins jákvæður fyrir umhverfið heldur einnig fyrir pyngjuna. „Það virðist hafa komið þeim á óvart hvað þetta var mikill fjárhagslegur sparnaður,“ segir Bragi. „Hann er allt að 50% meiri miðað við flutning í einnota umbúðum, segja þeir.“
Rannsóknir sem iTub hafa framkvæmt í sínu eigin þróunarferli sýna jafnframt svart á hvítu að sparnaður í plastnotkun sé gífurlegur en lífsferilsgreining sem framkvæmd var í samstarfi við Háskóla Íslands hafi sýnt fram á allt að 80% mun á kolefnisspori endurnýtanlegu keranna og einnota umbúða. Það segir hann að falli mjög vel að hringrásarmarkmiðum fyrirtækisins en eftirspurn eftir hagkvæmum og skilvirkum hringrásarkerfum sé sífellt að aukast.
„Um tvær milljónir tonna af laxi eru fluttar innan Evrópu á ári,“ segir Bragi. „Líftími tvíburakeranna er allt að 15 ár. Til að flytja tvær milljónir tonna á ári í fimmtán ár, eða 30 milljónir tonna, þarftu eina milljón tonna af plasti ef þú ætlar að flytja það eingöngu með frauðkössum. Hins vegar þarftu bara 20 þúsund tonn ef þú flytur það í kerum. Þannig að það þarf 98% minna af plasti til að flytja þetta sama magn í endurnýtanlegum umbúðum.“
Bragi tekur þó fram að kerin muni ekki leysa frauðplast af hólmi. „Þetta virkar mjög vel saman. Frauðplastið hentar til dæmis mjög vel í flutningi með flugi því það er svo létt efni. Kerin okkar eru hönnuð með magnflutning í huga, frá framleiðanda til vinnslu, þar sem fiskurinn er að langmestu leyti fluttur heill, slægður.“ Þá nefnir hann að hagkvæmt sé fyrir vinnsluna að geta pakkað í bæði ker og frauðkassa samtímis því með því sé hægt að hámarksnýta pökkunarhraðann. „Þá er hægt að pakka meiri fiski á styttri tíma. Hraði skiptir gífurlegu máli í stórum vinnslum því það er kannski verið að pakka allt að 200 fiskum á mínútu.“
Reynsla skosku framleiðendanna sýndi með öðrum orðum fram á að magnflutningur á laxi með fjölnota umbúðum hentaði markaðnum prýðilega. iTub var vel í stakk búið til að hefja sína eigin þróunarvegferð fyrir laxeldismarkaðinn enda býr fyrirtækið að margra ára reynslu í flutningi á hvítfiski.
„Við höfum verið í vexti síðan 2010 og unnið með útgerðum bæði á Íslandi, Noregi og um alla Evrópu. Við erum með einhver sextíu þúsund ker í flutningum á hvítfiski,“ segir Bragi. Því sé spennandi að róa á ný mið með þá reynslu í farteskinu en hann segir að markaðurinn bjóði upp á mörg tækifæri. „Þetta er alveg þriggja milljóna tonna markaður á ári. Tvær milljónir í Evrópu og ein í Síle,“ bendir Bragi á. „Þannig að við sáum Skotana flytja þetta frá Skotlandi inn á breska markaðinn og við veltum fyrir okkur hvort það væri ekki eins hægt að flytja fisk í margnota umbúðum frá Íslandi til Evrópu.“
Fljótlega eftir að iTub fór að kynna sér málið sá það að Arctic Fish gæti verið hentugur samstarfsaðili. Þá hafði fyrirtækið opnað Drimlu, nýtt og tæknivætt sláturhús í Bolungarvík. „Sláturhúsið er gert að svipaðri fyrirmynd og í Skotlandi. Þeir eru sem sagt bæði með frauðlínu, eða pökkunarlínu, en þeir eru líka með línu þar sem hægt er að pakka í ker.“ Arctic Fish hafði þó aðeins verið að nýta ker til að senda fisk innanlands og því þurfti að finna áhugasaman kaupanda erlendis sem væri tilbúinn til að taka þátt í prófunum.
„Við enduðum á að fara í samstarf með Adri & Zoon, sem er stór laxakaupandi í Hollandi, en þeir leggja mikla áherslu á að fiskurinn komi til þeirra í fullum gæðum,“ segir Bragi. „Þeir voru líka mikið að spá í þessar ESB-reglugerðir sem eru að koma nýjar inn þar sem lögð er mikil áhersla á að draga úr úrgangi, auka hringrás og endurnotkun. Adri & Zoon vildu verða leiðandi í því að geta sýnt fram á að þeir væru að spara í flutningi inn á markaðinn og að fara í endurnýtanlegar umbúðir.“ Samstarfið á milli iTub, Arctic Fish og Adri & Zoon hefur nú staðið yfir í heilt ár og gefur góða von fyrir áframhaldandi þróun, að sögn Braga.
Markaðurinn er stór og iTub gerir víðreist í kynningu sinni á nýju tvíburakerunum en fyrirtækið verður meðal annars með viðveru á Lagarlífsráðstefnunni. Í ár hefur það einnig kynnt kerin á sjávarútvegssýningu í Boston og þá fékk það góðar viðtökur á eldissýningunni AquaNor sem haldin var í Noregi í sumar. Þar var viðstaddur fulltrúi frá skrifstofu Sæplasts í Síle, Mario Diaz Ruiz, en hann hefur kynnt markaðnum í Suður-Ameríku tvíburakerin.
„Þeir flytja mikið magn af heilum laxi frá framleiðanda inn í vinnslur, frá Síle og inn í Brasilíu,“ segir Bragi og nefnir að um sé að ræða svipaða flutninga og frá Íslandi til Hollands, sem þegar hafa reynst vel. „Þetta er svipaður tími, um fjórir til sex dagar sem þarf til að flytja fiskinn. Við erum komin í samband við nokkra af stærstu laxaframleiðendunum þar ytra og þeir hafa sýnt því áhuga að koma með okkur í prófanir.“
iTub stefnir ljóslega að metnaðarfullum landvinningum. Bragi segist vita að oft geti verið erfitt að fá nýsköpunarhjólin til að rúlla en hann lætur engan bilbug á sér finna: „Það er alltaf ákveðið átak þegar maður er að koma einhverju nýju inn en krafan um meiri sjálfbærni er nú þegar til staðar. Við teljum að með því að geta komið með lausn sem sparar peninga og er betri kostur fyrir umhverfið, þá hafi það áhrif.“
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
| Afurð | Dags. | Meðalverð |
|---|---|---|
| Þorskur, óslægður | 6.11.25 | 595,94 kr/kg |
| Þorskur, slægður | 6.11.25 | 577,02 kr/kg |
| Ýsa, óslægð | 6.11.25 | 396,77 kr/kg |
| Ýsa, slægð | 6.11.25 | 442,90 kr/kg |
| Ufsi, óslægður | 6.11.25 | 302,18 kr/kg |
| Ufsi, slægður | 6.11.25 | 389,06 kr/kg |
| Undirmálsufsi, óslægður | 24.10.25 | 9,00 kr/kg |
| Djúpkarfi | 23.10.25 | 243,00 kr/kg |
| Gullkarfi | 6.11.25 | 352,20 kr/kg |
| Litli karfi | 16.10.25 | 11,00 kr/kg |
| 6.11.25 Harðbakur EA 3 Botnvarpa | |
|---|---|
| Ýsa | 1.691 kg |
| Karfi | 407 kg |
| Steinbítur | 174 kg |
| Skarkoli | 157 kg |
| Grálúða | 6 kg |
| Samtals | 2.435 kg |
| 6.11.25 Hlökk ST 66 Landbeitt lína | |
|---|---|
| Ýsa | 5.442 kg |
| Þorskur | 3.699 kg |
| Steinbítur | 1 kg |
| Samtals | 9.142 kg |
| 6.11.25 Magnús SH 205 Dragnót | |
|---|---|
| Þorskur | 1.193 kg |
| Skrápflúra | 811 kg |
| Ýsa | 466 kg |
| Sandkoli | 11 kg |
| Steinbítur | 7 kg |
| Þykkvalúra | 4 kg |
| Samtals | 2.492 kg |
| Afurð | Dags. | Meðalverð |
|---|---|---|
| Þorskur, óslægður | 6.11.25 | 595,94 kr/kg |
| Þorskur, slægður | 6.11.25 | 577,02 kr/kg |
| Ýsa, óslægð | 6.11.25 | 396,77 kr/kg |
| Ýsa, slægð | 6.11.25 | 442,90 kr/kg |
| Ufsi, óslægður | 6.11.25 | 302,18 kr/kg |
| Ufsi, slægður | 6.11.25 | 389,06 kr/kg |
| Undirmálsufsi, óslægður | 24.10.25 | 9,00 kr/kg |
| Djúpkarfi | 23.10.25 | 243,00 kr/kg |
| Gullkarfi | 6.11.25 | 352,20 kr/kg |
| Litli karfi | 16.10.25 | 11,00 kr/kg |
| 6.11.25 Harðbakur EA 3 Botnvarpa | |
|---|---|
| Ýsa | 1.691 kg |
| Karfi | 407 kg |
| Steinbítur | 174 kg |
| Skarkoli | 157 kg |
| Grálúða | 6 kg |
| Samtals | 2.435 kg |
| 6.11.25 Hlökk ST 66 Landbeitt lína | |
|---|---|
| Ýsa | 5.442 kg |
| Þorskur | 3.699 kg |
| Steinbítur | 1 kg |
| Samtals | 9.142 kg |
| 6.11.25 Magnús SH 205 Dragnót | |
|---|---|
| Þorskur | 1.193 kg |
| Skrápflúra | 811 kg |
| Ýsa | 466 kg |
| Sandkoli | 11 kg |
| Steinbítur | 7 kg |
| Þykkvalúra | 4 kg |
| Samtals | 2.492 kg |
