Hjónin Kristján Rúnar Kristjánsson og Lára Ingimarsdóttir tóku stóra ákvörðun þegar þau fluttu frá Noregi og settust að á Ísafirði ásamt dóttur sinni. Þau höfðu áður búið bæði á Kársnesinu og í Alta í Noregi, en ákváðu að færa sig vestur þegar tækifæri gafst til að taka þátt í uppbyggingu Arctic Fish. Hann er framkvæmdastjóri vinnslu í Bolungarvík og hún gæðastjóri vinnslu.
Kristján ólst upp í Neskaupstað og hefur starfað víða í sjávarútvegi, meðal annars hjá Marel, Grieg og Cermaq í Noregi. Lára hóf störf í fiskvinnslu strax eftir nám á Dalvík og starfaði lengi í Noregi, þar sem hún aflaði sér dýrmætrar reynslu í gæðastjórnun. Þau hafa því bæði alið af sér víðtæka þekkingu sem þau nýta nú í sameiningu á Vestfjörðum. Lára starfaði meira og minna við fiskvinnslu alla sína starfsævi, líka áður en hún fór í fiskvinnsluskólann. Hún hefur unnið í nánast öllum tegundum af fiskvinnslum frá því hún var unglingur. En hún er eins og Kristján, dóttir trillukarls og alin upp í sjávarplássum eins og Grindavík og Sandgerði.
Í samtali við Morgunblaðið segja þau frá ákvörðuninni að flytja vestur, sameiningu fjölskyldunnar, uppbyggingu Drimlu og nýsköpun í vinnslu. Þau ræða áskoranir, lærdóm og ánægjuleg augnablik, en líka daglegt líf fyrir vestan; hvað kom þeim á óvart, hvers þau sakna og hvernig þau sjá framtíð laxeldis á Íslandi þróast næstu árin.
Hvað varð til þess að þið ákváðuð að flytja til Bolungarvíkur og slást í lið með Arctic Fish?
Þegar Arctic Fish var að leita að framkvæmdastjóra fyrir vinnsluna benti ráðgjafafyrirtæki sem kom að hönnun hennar á mig. Í kjölfarið var haft samband og mér boðið vestur í heimsókn til að kynna mér áformin. Við höfðum alls ekki hugsað okkur þessa leið, en eftir að hafa hitt forráðamenn fyrirtækisins og séð metnaðinn sem býr að baki ákváðum við að slá til.
Hvernig var að taka ákvörðunina að flytja frá fyrri búsetu (t.d. Alta í Noregi) og setjast að fyrir vestan með fjölskylduna?
Við höfðum verið með tvö heimili í nokkur ár, í Alta og á Kársnesinu, þannig að það var kærkomið að sameinast öll á einum stað. Það sem gladdi okkur mest og kom okkur sérstaklega á óvart var að tveir elstu synirnir ákváðu líka að flytja vestur með sínar fjölskyldur. Ingimar er nú í sjóeldinu og Ástþór í söludeildinni hjá Arctic. Heimasætan, Emma Rún 10 ára, býr með okkur á Ísafirði, en yngsti sonurinn, Veigar, er enn í Noregi þar sem hann starfar sem kokkur. Það hefur verið ánægjulegt að sjá fjölskylduna safnast saman hérna fyrir vestan og að allir hafi fundið sinn stað.
Kristján, þú ólst upp í Neskaupstað, starfaðir hjá Marel í Noregi og hefur unnið hjá Grieg og Cermaq – hvernig hefur þessi reynsla mótað þig sem stjórnanda?
Ég ólst upp í sjávarplássi þar sem pabbi var trillukarl, þannig að tengslin við sjávarútveginn komu snemma. Sem unglingur vann ég bæði í vinnslu og fór á sjó, og var viðloðandi sjómennsku í rúm 13 ár samhliða námi. Ég lauk stýrimannaskóla og síðar sjávarútvegsfræðinni á Akureyri. Eftir útskrift starfaði ég í hvítfiskbransanum hér heima, þar sem við Lára unnum saman.
Eftir hrun fluttum við til Alta í Noregi þar sem við störfuðum bæði hjá Grieg. Þar lærði ég mikið um laxaiðnaðinn. Einnig fékk ég mikla reynslu af því að vinna með alþjóðlegum hópi, á einum tímapunkti vorum við með fólk af 18 þjóðernum í vinnslunni hjá okkur.
Síðar starfaði ég hjá Cermaq við svipuð störf og hjá Grieg, þó meira verkefnatengt þar sem ég aðstoðaði tvo aðra Íslendinga við að snúa rekstrinum á laxavinnslu fyrirtæksins í Hammerfest til betri vegar. Eftir það tók ég við starfi hjá Völku þar sem ég tók þátt í að byggja upp norskt dótturfélag. Þar, og síðar hjá Marel, öðlaðist ég einstaka innsýn í mörg af stærstu verkefnunum, bæði í hvítfiski og laxi, í Noregi sem og víðar. Þetta hefur mótað mig sem stjórnanda: blanda af reynslu úr grasrótinni, víðtæku tengslaneti og dýrmætum lærdómi í verkefnavinnu og samningagerð.
Lára, þú starfaðir áður hjá Grieg – hvernig nýtist sú reynsla í núverandi starfi þínu sem gæðastjóri?
Eftir að hafa lokið námi í Fiskvinnsluskólanum á Dalvík 1998 vann ég ýmis fiskvinnslustörf og í eigin veitingarekstri, auk þess að vinna með Kristjáni í fiskvinnslu sem við áttum. Þegar við fluttum til Noregs var margt nýtt að læra því kröfurnar í laxavinnslu voru mun strangari en í hvítfiski. Ég byrjaði sem gæðaeftirlitsmaður og tók síðar við starfi gæðastjóra.
Stærsti lærdómurinn var að vinna með fjölbreyttum hópi fólks frá ólíkum menningarheimum. Það var ekki alltaf auðvelt, en við náðum að byggja upp öflugan vinnustað og skiluðum verksmiðjunni í mun betra standi en þegar við tókum við. Þar lærði ég líka mörg tæknileg atriði sem ég nýti beint í starfi mínu í dag.
Eftir Grieg tók ég mér hlé frá fiskvinnslu og lærði snyrtifræði. Þegar ég sneri aftur í greinina var áhugavert að sjá hvernig kröfurnar höfðu þróast, áherslan á gæðamálin er orðin enn meiri en áður.
Hvernig nýtið þið bæði saman þá víðtæku reynslu sem þið hafið úr sjávarútvegi?
Við höfum bæði byggt upp víðtæka reynslu á ólíkum sviðum, Kristján meira í rekstri, tæknimálum og verkefnastjórnun, og ég í gæðastjórnun og daglegu eftirliti. Þannig getum við stutt hvort annað og séð málin frá ólíkum sjónarhornum. Við ræðum mikið saman um ákvarðanir, og það hjálpar að þekkja hvort annað vel og hafa unnið saman áður. Þetta gefur okkur bæði breiðari sýn og traustari niðurstöður.
Hvað var það fyrsta sem heillaði ykkur við Arctic Fish?
Það var bæði tækifærið að vinna saman aftur og að sameina fjölskylduna, en líka spennandi áskorun að taka þátt í að byggja upp heilan iðnað frá grunni. Strax í fyrstu heimsókn fannst okkur forráðamenn fyrirtækisins traustvekjandi og verkefnið gríðarlega spennandi.
Hvernig er að vinna saman sem hjón í sama fyrirtæki og jafnvel í sömu deild?
Við höfum unnið saman áður, bæði í fiskvinnslu og veitingarekstri sem við rákum á Íslandi, og síðar hjá Grieg í Noregi. Við vitum því nokkuð vel hvernig við virkum sem teymi og getum nýtt styrkleika hvort annars. Það getur verið krefjandi en líka mjög gefandi.
Hvert er hlutverk ykkar sem framkvæmdastjóri vinnslu og gæðastjóri vinnslu?
Við erum ekki með stórt stjórnendateymi og því skarast verkefnin töluvert. Ég (Kristján) ber ábyrgð á daglegum rekstri, afköstum og fjárhagslegri framvindu vinnslunnar, en Lára sér um að gæðastjórnun, eftirlit og staðlar séu uppfylltir. Við vinnum mikið saman, því í reynd er gæðastjórnun órjúfanlegur hluti af rekstri.
Hvernig er starfsandi í vinnslunni og hvernig leggið þið ykkar af mörkum þar?
Bygging vinnslunnar og uppstartið var krefjandi og starfsandinn því stundum sveiflukenndur. En heilt yfir er andinn góður. Við leggjum áherslu á að hlusta á starfsfólkið, vera sýnileg og styðja það í verkefnum sínum. Við leggjum líka mikið upp úr góðu starfsumhverfi, meðal annars með ríflegum pásum á milli vinnulota. Það hefur skilað sér í minni starfsmannaveltu og lágri fjarveru miðað við sambærilega vinnustaði, sem segir okkur að fólki líði almennt vel.
Hvað í rekstrinum heldur ykkur helst fyrir vöku á nóttunni?
Helsti óvinurinn í okkar bransa er listería. Við vinnum alla daga markvisst að því að koma í veg fyrir hana með daglegum sýnatökum, ítarlegum þrifum, ströngum reglum og mikilli áherslu á hreinlæti. Við erum með níu starfsmenn í fullu starfi við þrif, og þetta er verkefni sem við tökum mjög alvarlega.
Hvaða áskorunum hafið þið mætt í starfi ykkar hingað til?
Stærsta áskorunin var að ræsa verksmiðjuna sumarið 2023, þegar við vissum að í september þyrfti hún að vera komin á full afköst. Við vorum samtímis að ljúka byggingu, smíða alla ferla og þjálfa nýtt starfsfólk. Fyrsta árið var því mjög strembið, en jafnframt lærdómsríkt. En við vorum með gott fólk með okkur í þessu þannig að þetta hafðist allt.
Hvað hefur komið ykkur mest á óvart við að starfa í laxeldi á Vestfjörðum?
Það hefur komið okkur skemmtilega á óvart hversu framúrskarandi gæðin eru á laxinum. Stærsti eigandinn okkar, Mowi, stærsta laxeldisfyrirtæki heims, hefur sagt að laxinn okkar sé sá besti í þeirra sölukerfi. Það er virkileg viðurkenning.
Hvað teljið þið að Arctic Fish geri betur en aðrir í greininni?
Eftir erfiða tíma árið 2023 hefur gengið mjög vel í hafinu. Vöxtur og gæði eru með því besta sem þekkist í bransanum. Við leggjum mikla áherslu á að læra af mistökum og halda áfram að þróa starfsemina með stöðugum umbótum.
Hvernig hefur rekstur Arctic Fish þróast síðustu ár og hvert stefnir fyrirtækið næst?
Laxeldi er ung atvinnugrein á Íslandi og hefur þróast hratt. Hjá Arctic Fish höfum við farið í gegnum krefjandi tímabil en líka náð góðum árangri. Það gengur vel í eldinu hjá okkur sem og í vinnslunni. Næstu skref eru að treysta rekstrargrundvöllinn enn frekar með því að framleiða meira og ná aukinni stærðarhagkvæmni sem þýðir að það þarf líka að auka afköst í vinnslunni. Eins viljum við stefna að aukinni fullvinnslu þegar skilyrði leyfa.
Hvernig sérð þú, Kristján, þróun vinnslunnar á næstu árum?
Vinnslan var hönnuð með stækkun í huga, þannig að við getum auðveldlega aukið afköst með hóflegum fjárfestingum. Ég sé fyrir mér að framleiðslan stigmagnist, sjálfvirkni verði meiri og skref verði tekin í átt að flökun og fullvinnslu heima. Markmiðið er að bæta nýtingu, stytta leið frá afla til neytanda og skapa fleiri störf og meiri virðisauka.
Lára, hvernig hefur gæðastjórnun í vinnslu breyst á síðustu árum?
Grunnurinn er sá sami en kröfurnar hafa aukist mikið. Við vinnum eftir BRC-staðli sem krefst gagnsæis og nákvæmra skráninga á öllum skrefum. Sýnatökur eru tíðari, áhættumöt ítarlegri og þjálfun kerfisbundnari. Þetta eykur vinnu til skemmri tíma en skilar tryggari gæðum og trausti til lengri tíma.
Hvaða nýjungar í tækni eða vinnuferlum hafa haft mest áhrif á störf ykkar?
Stærsta breytingin fyrir okkur á skrifstofunni eru að í dag eru betri og meiri gögn í boði sem er hægt að nýta í greininga vinnu.
Í framleiðslunni sjáum við tækifæri í myndgreiningu til staðlaðs gæðamats og skráningarkerfum sem fækka handtökum og mannlegum skekkjum.
Hvað teljið þið skipta mestu máli í að viðhalda trausti við neytendur?
Að vera heiðarleg, sýnileg og viðurkenna þegar eitthvað fer úrskeiðis. Gagnsæ ferli, sterkir staðlar og skjót viðbrögð þegar á þarf að halda. Traust byggist á verkum, ekki orðum.
Hvaða hlutverk spilar nýsköpun í framtíð Arctic Fish?
Gríðarlega stórt. Við störfum á krefjandi svæðum og Ísland er land hás kostnaðar. Við þurfum sterkar kvíar, snjallari fóðrun, betri vöktun og skilvirkari vinnslu. Nýsköpun er ekki bara „fancy“ orð, hún er forsenda samkeppnishæfni og sjálfbærni.
Hvernig hefur samstarfið við Háafell gengið hingað til og hvað skiptir mestu máli í slíkum samningum?
Mjög vel. Fiskurinn þeirra er í miklum gæðum og það er toppfólk sem vinnur hjá Háafelli. Þegar við erum að vinna fyrir þá er fyrirkomulagið aðeins öðruvísi þar sem þeir selja sinn fisk sjálfir en ekki í gegnum Mowi eins og við. En þetta gengur engu að síður vel þrátt fyrir að vera aðeins frábrugðið. Það sem skiptir mestu er traust, skýr samskipti og að hvor aðili viti nákvæmlega fyrir hvað hinn stendur.
Hvað hefur fjárfestingin í Drimlu-laxavinnslu þýtt fyrir atvinnulífið í Bolungarvík?
Hún hefur breytt miklu. Fyrir utan 40+ bein störf hefur orðið til fjöldi óbeinna starfa í alls konar þjónustu, flutningum og viðhaldi. Það skilar sér í öflugra samfélagi og meiri trú á framtíðina.
Drimla er ein tæknivæddasta laxavinnsla í heimi – hvaða kostir fylgja tæknibúnaðinum sem þar er nýttur?
Að vera með nýja og tæknivædda verksmiðju gerir það að verkum að við þurfum færra starfsfólk en ella og launakostnaður því lægri. Eins hefur búnaðurinn reynst gangöruggur og „down time“ verið minnháttar. Fyrir utan slægingarvélar og aflífunarbúnað er búnaðurinn að mestu frá íslenskum framleiðendum sem tryggir skjót viðbrögð og gott aðgengi að þjónustu ef eitthvað kemur upp á.
Hvaða atriði hafa verið erfiðust í uppbyggingu vinnslunnar í Bolungarvík?
Að standa í þeirri vinnu að klára byggingu verksmiðjunnar á sama tíma að við þurftum að vera að framleiða á fullum afköstum, með nýtt teymi og nýja ferla. Dagarnir voru langir og ákvarðanir margar. En liðið stóð sig frábærlega.
Hvað hefur verið ánægjulegast við að taka þátt í þessari uppbyggingu?
Að hafa raunveruleg áhrif: velja lausnir, móta vinnustaðamenningu og sjá teymið vaxa, bæði í færni og sjálfstrausti.
Starfsmannamál & heilsuvernd
Þú hefur tjáð þig um svokallaðan „laxaastma“ – hvernig er að takast á við slíkt mál þegar fjölmiðlar fjalla um það með neikvæðum hætti?
Það virkar oft sem fjölmiðlar leitist við að finna eitthvað neikvætt að skrifa um laxeldi og umræðan verður stundum æsileg og ósanngjörn. Astmi getur tengst próteinaögnum og raka í vinnslum. Sambærilegur Astmi kemur upp í allskonar iðnaði og rannsóknir benda ekki til þess að hann sé eitthvað algengari í laxavinnslu en í mörgum öðrum greinum. Í Drimlu leggjum við áherslu á góða loftræstingu, réttan hlífðarbúnað og fræðslu. Þannig höfum við ekki fengið upp nein tilfelli af „laxa astma“.
Hvernig tryggir Arctic Fish að heilsuvernd starfsmanna sé í fyrirrúmi í daglegu starfi?
Rúllandi pásukerfi (30 mínútur á 2 tíma fresti), tilfærslur milli starfsstöðva til að draga úr álagi, skipulögð áhættugreining, skráning „næstum-slysa“ og vikulegir öryggisfundir. Við erum búinn að gera ýmislegt gott en við getum alltaf orðið betri.
Hvaða ráðleggingar myndir þú gefa öðrum fyrirtækjum í sjávarútvegi sem vilja draga úr heilsuvanda starfsfólks?
Lyfta öryggismálum upp á stjórnendaborð, mæla reglulega og setja skýr markmið. Fræðsla, góður búnaður og einfaldar, sýnilegar vinnureglur skipta sköpum.
Hefur þú persónulega upplifað að þurfa að verja greinina fyrir misskilningi eða neikvæðri stimplun?
Já. Umræðan getur orðið skökk og hávær. Ég virði ólíkar skoðanir, en vil að þær byggist á staðreyndum. Best er að svara með gögnum, sýnileika og opnum dyrum.
Ef þið horfið til baka, hvaða ákvörðun í starfi hefur reynst ykkur best eða kennt ykkur mest?
Að flytja til Noregs eftir hrun. Sú ákvörðun opnaði dyr, kenndi okkur ný vinnubrögð og gaf alþjóðlega sýn sem nýtist á hverjum degi.
Hvaða ráð mynduð þið gefa ungu fólki sem vill hasla sér völl í sjávarútvegi eða laxeldi?
Grípa öll tækifæri til að læra: byrja á gólfinu, prófið ólík hlutverk, verið forvitin um vinnsluferla, gögn og gæði. Tungumál, tæknilæsi og góð samskipti koma ykkur langt.
Hver er mesta mýta eða misskilningur sem fólk hefur um laxeldi?
Að eldislax sé óhollur og fullur af lyfjum, það er rangt. Einnig að iðnaðurinn sé gríðarlega mengandi. Mælingar og vöktun sýna annað. Gagnsæi og staðreyndir skipta máli í umræðunni.
Hvernig sérð þú framtíð íslensks laxeldis almennt?
Samlíf eldis og laxveiði er mögulegt, við höfum séð það í Alta þar sem mikið fiskeldi hefur verið stundað í áratugi. Þar er líka ein frægasta laxveiðiá Noregs, Alta-áin, sem er þekkt fyrir sína stórlaxa. En þrátt fyrir mikið eldi í áratugi, margfalt það sem er stundað á Íslandi þá er áin enn í góðu standi, erfðablöndun hverfandi og ekkert sem bendir til þess að laxeldið hafi valdið skaða.
Hvernig er að starfa í litlu samfélagi þar sem nánast allir þekkja alla – bæði sem stjórnandi og sem nýbúi?
Mjög jákvætt. Styttri boðleiðir, meiri ábyrgðartilfinning og traust sem er byggt á persónulegum samskiptum. Við höfum kynnst frábæru fólki og öflugum birgjum.
Hvernig sjáið þið hlutverk ykkar hjóna þróast innan fyrirtækisins á næstu árum?
Meiri valdefling teymisins, aukin sjálfvirkni og skýrari verkaskipting. Við viljum færa ábyrgð nær fólkinu og einbeita okkur meira að stefnu, innleiðingu og þjálfun.
Hvernig er að ala upp fjölskyldu á Vestfjörðum miðað við stærri bæi?
Þegar strákarnir voru að alast upp þá bjuggum við á Dalvík svo að þetta er ekki alveg nýtt fyrir okkur. En fyrir Emmu, sem hefur alist upp á höfuðborgarsvæðinu og aðeins í Alta, þá hefur það þýtt meira frelsi. Á sumrin er hún úti frá morgni til kvölds og nóg um að vera.
Hvað kom ykkur mest á óvart við að flytja til Ísafjarðar?
Veðrið reyndist betra en við bjuggumst við, náttúran er stórbrotin og „þetta reddast“-andinn lifir góðu lífi. Aðeins minna úrval í þjónustu, en minna stress og allt er nær en í bænum.
Hvers saknið þið helst frá fyrri búsetu, og hvað viljið aldrei missa af sem fylgir því að búa fyrir vestan?
Við söknum hlýrra sumars, skógarins og vina. En það að hafa allt svo nálægt og rólegheitin vega það upp.
Hvað finnst börnunum eða fjölskyldunni ykkar um að búa á Vestfjörðum?
Almennt mjög gott. Við lofuðum upphaflega tveimur árum; sem nú eru komin á þriðja ár og okkur líður vel. Framtíðin er alltaf opin, en við erum sátt.
Hver er uppáhaldsstaðurinn ykkar á Íslandi – og af hverju?
Norðausturland: Mývatn, Hljóðaklettar og Ásbyrgi. Við eigum þar minningar með strákunum og finnum alltaf nýtt að sjá.
Hver er uppáhaldsárstíð ykkar fyrir vestan og hvers vegna?
Sumarið, en við erum spennt fyrir vetrinum líka, búin að kaupa allt fyrir skíðavertíðina.
Hvað hafið þið lært hvort af öðru með því að vinna saman?
Þolinmæði, skýr samskipti og að treysta styrkleikum hvort annars. Það sparar orku og bætir ákvarðanir.
Hvert væri draumafríið ykkar eða ferð sem þið viljið fara í?
Við fórum í sjö landa ferð í vor meðal annars til Kína, Japan og Suður Kóreu og fengum mikinn áhuga á Asíu. Við stefnum á fleiri slíkar ferðir og erum opin fyrir óhefðbundnum áfangastöðum eins og Norður Kóreu og Túrkmenistan.
Hver er ykkar mesta von fyrir framtíð Vestfjarða?
Betri samgöngur, fleiri göng, betri vegir og reglulegt flug. Ef innviðauppbygging og skynsamleg uppbygging laxeldis þróast hlið við hlið, þá er framtíðin björt.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
| Afurð | Dags. | Meðalverð |
|---|---|---|
| Þorskur, óslægður | 14.11.25 | 621,03 kr/kg |
| Þorskur, slægður | 14.11.25 | 757,26 kr/kg |
| Ýsa, óslægð | 14.11.25 | 397,07 kr/kg |
| Ýsa, slægð | 14.11.25 | 405,44 kr/kg |
| Ufsi, óslægður | 14.11.25 | 278,15 kr/kg |
| Ufsi, slægður | 14.11.25 | 304,96 kr/kg |
| Undirmálsufsi, óslægður | 24.10.25 | 9,00 kr/kg |
| Djúpkarfi | 23.10.25 | 243,00 kr/kg |
| Gullkarfi | 14.11.25 | 358,55 kr/kg |
| Litli karfi | 16.10.25 | 11,00 kr/kg |
| 15.11.25 Auður Vésteins SU 88 Lína | |
|---|---|
| Þorskur | 394 kg |
| Hlýri | 63 kg |
| Karfi | 53 kg |
| Keila | 37 kg |
| Samtals | 547 kg |
| 15.11.25 Jóhanna ÁR 206 Plógur | |
|---|---|
| Sæbjúga Fax E | 1.355 kg |
| Samtals | 1.355 kg |
| 15.11.25 Leynir ÍS 16 Dragnót | |
|---|---|
| Ýsa | 513 kg |
| Þorskur | 276 kg |
| Samtals | 789 kg |
| 15.11.25 Kristinn HU 812 Línutrekt | |
|---|---|
| Ýsa | 4.938 kg |
| Langa | 1.743 kg |
| Keila | 350 kg |
| Karfi | 61 kg |
| Ufsi | 24 kg |
| Steinbítur | 15 kg |
| Samtals | 7.131 kg |
| Afurð | Dags. | Meðalverð |
|---|---|---|
| Þorskur, óslægður | 14.11.25 | 621,03 kr/kg |
| Þorskur, slægður | 14.11.25 | 757,26 kr/kg |
| Ýsa, óslægð | 14.11.25 | 397,07 kr/kg |
| Ýsa, slægð | 14.11.25 | 405,44 kr/kg |
| Ufsi, óslægður | 14.11.25 | 278,15 kr/kg |
| Ufsi, slægður | 14.11.25 | 304,96 kr/kg |
| Undirmálsufsi, óslægður | 24.10.25 | 9,00 kr/kg |
| Djúpkarfi | 23.10.25 | 243,00 kr/kg |
| Gullkarfi | 14.11.25 | 358,55 kr/kg |
| Litli karfi | 16.10.25 | 11,00 kr/kg |
| 15.11.25 Auður Vésteins SU 88 Lína | |
|---|---|
| Þorskur | 394 kg |
| Hlýri | 63 kg |
| Karfi | 53 kg |
| Keila | 37 kg |
| Samtals | 547 kg |
| 15.11.25 Jóhanna ÁR 206 Plógur | |
|---|---|
| Sæbjúga Fax E | 1.355 kg |
| Samtals | 1.355 kg |
| 15.11.25 Leynir ÍS 16 Dragnót | |
|---|---|
| Ýsa | 513 kg |
| Þorskur | 276 kg |
| Samtals | 789 kg |
| 15.11.25 Kristinn HU 812 Línutrekt | |
|---|---|
| Ýsa | 4.938 kg |
| Langa | 1.743 kg |
| Keila | 350 kg |
| Karfi | 61 kg |
| Ufsi | 24 kg |
| Steinbítur | 15 kg |
| Samtals | 7.131 kg |
