Eigendur fleiri en 120 skipa fengu 19. september tilkynningu um að þau myndu samstundis verða úrskurðuð óhaffær.
Sex skip fengu í kjölfarið stuttan viðbótarfrest til að ljúka veiðiferð, koma skipi í heimahöfn eða færa skip á milli hafna en voru þau síðan einnig kyrrsett.
Margir eigendur endurheimtu haffæri skipa sinna þó samdægurs eða fljótlega eftir það en 80 skip eru enn þá óhaffær.
Samkvæmt upplýsingum frá Samgöngustofu höfðu komið í ljós brotalamir í frágangi eins skoðunaraðila á gúmmíbjörgunarbátum.
Afréð stofnunin því að svipta skipin samstundis haffæri en það gilti eingöngu fyrir þau skip sem þjónustuð höfðu verið af umræddu fyrirtæki. Flest skipin voru minni en 12 metrar á lengd en nokkur 12-30 metrar.
Í skriflegu svari frá Samgöngustofu kemur fram að 80 skip séu enn þá óhaffær. Önnur hafa fengið úrlausn sinna mála:
200 mílum barst ábending um að bátseigandi hefði fengið tilkynningu frá Samgöngustofu en bátur hans hefði engu að síður enn þá verið skráður haffær inni á skipaskráningarkerfinu Skútunni.
Þórhildur Elínardóttir upplýsingafulltrúi Samgöngustofu segir í samtali við 200 mílur að sá bátur, ásamt allnokkrum öðrum, hefði nýlokið skoðun hjá öðrum viðurkenndum þjónustuaðila og því ekki misst haffæri þegar allt kom til alls. Hún segir að margar útgerðir hafi haft samband við stofnunina til að tilkynna nýlega skoðun um leið og bréfið barst en viðtakendum þess hafi verið boðið að hafa samband fyrir frekari upplýsingar.
Þórhildur segir jafnframt að stofnuð hafi verið sérstök vakt til að taka við öllum fyrirspurnum tengdu málinu. „Þar sem bréfið fór út á föstudagsmorgni voru tveir menn á stöðugri vakt til miðnættis þann dag og svo alla þá helgi, til samskipta, bæði í síma og gegnum tölvupóst,“ segir hún og nefnir að ekki hafi verið vanþörf á enda hafi margar útgerðir haft samband til að fá nánari upplýsingar.
„Við reyndum að greiða úr þessu eins hratt og við gátum, því þetta var mjög óvenjuleg staða,“ segir Þórhildur og áréttar að málið eigi sér engin fordæmi. „Ég held að ég megi segja að þetta hafi samt lánast mjög vel því fólk sýndi þessu mikinn skilning, enda er það hagur okkar allra að svona mál sé leyst hratt en vel.“
Spurð hvað það hafi verið í frágangi gúmmíbjörgunarbátanna sem hafi verið ábótavant segir Þórhildur að það hafi verið misjafnt. „Vandamálið var ekki einsleitt, það var ekki alltaf það sama sem var að,“ segir hún. Þá hafi heldur ekki verið samnefnari á milli þess hverrar tegundar bátarnir voru. „Það eina sem tengdi þetta saman var þjónustuaðilinn.“ Hún tekur fram að ekki hafi verið um að ræða aðfinnslur við sleppibúnað skipa heldur eingöngu frágang sjálfra gúmmíbjörgunarbátanna.
Aðgerðina segir Þórhildur hafa verið afleiðingu úrtaksskoðunar sem ráðist var í eftir ábendingar sem stofnuninni bárust fyrr í sumar. „Sú úrtaksskoðun var í raun næg vísbending um að það væri pottur brotinn,“ segir hún. „Við þurftum að grípa í taumana og þetta var niðurstaðan.“
Þórhildur segir að stofnunin hyggist taka þessi mál fastari tökum til að tryggja öryggi sjómanna. „Við sjáum að þarna er tækifæri til að efla samstarf við útgerðir,“ segir hún. „Þeir sjómenn sem um ræðir hér eru oft einyrkjar sem treysta á sjálfa sig og búnaðinn og þurfa að hafa þessi öryggismál ofarlega í huga. Við sjáum alveg tækifæri í að bæta það samstarf enn meira,“ segir Þórhildur að lokum.