Umsvif Sýnis hafa vaxið mikið frá því fyrirtækið var stofnað árið 1993 en stöðugildunum hefur fjölgað úr þremur upp í liðlega þrjátíu.
Í dag er Sýni leiðandi á sínu sviði, en félagið er sérhæft í matvælaöryggi og greiningu á sýnum. „Við höfum í áranna rás unnið fyrir nánast alla keðju matvælaframleiðslu, jafnt í landbúnaði og sjávarútvegi,“ segir Snorri Þórisson matvælafræðingur og sérfræðingur hjá fyrirtækinu.
Snorri var um langt skeið framkvæmdastjóri Sýnis en fyrir þremur árum óskaði hann eftir að breyta til og hefur m.a. leitt uppbyggingu á áhugaverðri nýrri þjónustu fyrir fiskeldisgeirann, í samstarfi við norska fyrirtækið Pharmaq Analytiq.
„Í meginatriðum er starfsemin hjá Sýni þrískipt: Prófunarstofan fæst bæði við örveru- og efnagreiningar og er ISO-vottuð. Þá veitum við ráðgjöf um gæða- og hreinlætismál, og um allt sem viðkemur matvælaöryggi, og tökum að okkur að útvega „gæðastjóra að láni“. Sýni er einnig með umfangsmikið námskeiðahald bæði inni á vinnustöðunum og í okkar eigin húsakynnum,“ útskýrir Snorri. „Loks gerum við úttektir, bæði eftir okkar eigin stöðlum og einnig í samræmi við kröfur og staðla þriðja aðila.“
Samstarfið við Pharmaq Analytiq byggist m.a. á þeirri þjónustu við fiskeldi sem Sýni hefur smám saman byggt upp á undanförnum hálfum öðrum áratug. „Við stigum okkar fyrstu skref inn á þetta svið með mælingum á vatnsgæðum og höfum fengist við alls konar sýnamælingar fyrir greinina. Bæði þurfa eldisfyrirtæki að stunda reglubundnar mælingar á ýmsum þáttum, lögum samkvæmt, en svo eru mælingar og greiningar líka veigamikill þáttur í innra eftirliti s.s. til að ganga úr skugga um að hreinlætismál séu í lagi og örveruvöxtur sé ekki vandamál.“
Í samvinnu við Pharmaq Analytiq getur Sýni nú einnig boðið upp á heilsufars- og sjúkdómagreiningu á fiskinum sjálfum, en þannig geta eldisfyrirtækin bæði gripið fyrr inn í ef vandamál koma upp og fínstillt ferla og vinnubrögð til að bæta vöxt og heilsu fisksins.
Snorri segir að Sýni hafi átt úr tveimur kostum að velja: að þróa þessa þjónustu frá grunni, upp á eigin spýtur eða finna góðan samstarfsaðila. Pharmaq Analytiq, sem er hluti af Pharmaq AS, á að baki langa sögu í norsku fiskeldi og á sér fáa jafningja í greiningarvinnu af þessu tagi. „Þau eru með stofur í Ósló, Bergen og víðar í Noregi, sem og í Skotlandi og Síle, og því óhætt að segja að þau séu stór á þessu sviði en Pharmaq AS er einnig leiðandi í þróun og sölu bóluefna og búnaðar til bólusetninga. Í samstarfi við þau setjum við upp sérstaka stofu hér hjá Sýni og sjáum við um faglega hlutann, en fáum þekkinguna og hugvitið að láni.“
Snorra reiknast til að fyrst um sinn þurfi tvö til þrjú stöðugildi til að inna þessa þjónustu af hendi en að eftir því sem fiskeldi á Íslandi verður umsvifameira muni þurfa að bæta við fleiri sérfræðingum.
Þær greiningar sem um ræðir felast í því að skoða vefi úr fiskinum sjálfum. Starfsmaður fiskeldisstöðvar eða dýralæknir tekur þá sýnið og sendir til rannsóknarstofunnar þar sem það er meðhöndlað samkvæmt kúnstarinnar reglum og síðan látið fara í gegnum í PCR-greiningu þar sem skimað er eftir DNA- og RNA-ummerkjum um bakteríur og veirur.
Snorri bendir á að svona greiningu megi nota jafnt á hrogn, seiði og fullvaxinn fisk og veiti mjög nákvæmar niðurstöður. „Þeir vefir sem um ræðir geta verið t.d. tálkn og nýru, en auk þess að framkvæma PCR- og örverugreiningar munum við, þegar fram í sækir, bjóða upp á svokallaða vefjaskoðun. Eru þá teknar örfínar sneiðar af vefjum fisksins og metnar af sérfræðingum sem geta komið auga á vísbendingar um skemmdir og veikindi.“
Með þessar upplýsingar í höndunum geta fiskeldisfyrirtæki t.d. komið auga á sjúkdóma áður en þeir ná miklum vexti og útbreiðslu, og er þá t.d. hægt að reyna að vinna bug á sýkingunni strax á frumstigum eða í það minnsta grípa til aðgerða til að koma í veg fyrir smit til annarra eldissvæða.
„Ein tegund mælinga sem við erum mjög spennt fyrir að bjóða upp á er það sem Pharmaq Analytiq kallar „SmoltVision“, og felur í sér að mæla hárfínar breytingar í þroska seiða. Eins og fagmenn vita eru seiðin alin upp í ferskvatni allt þar til ákveðnar líkamlegar breytingar eiga sér stað og er þá hægt að hleypa þeim út í saltvatn.
Mikilvægt er að finna þennan tímapunkt af nákvæmni, því ef seiðunum er sleppt of snemma þá þola þau saltvatnið illa. Við stefnum á að SmoltVision verði fyrsta greiningin sem boðið verður upp á hjá okkur en þá verður PCR-greining notuð til að mæla breytingar á erfðaefni seiðanna til að vita upp á hár hvort þau séu reiðubúin fyrir umskiptin.“
Snorri bendir á að það muni um að hafa þessa þjónustu í boði innanlands, því jafnvel þó að hægt væri að senda sýni utan til greiningar með hraðpósti þá myndi það bæta dögum við biðina eftir niðurstöðum. Mikið getur gerst á meðan og verðmæti farið í súginn ef niðurstöður liggja ekki fyrir með hraði.
„Einn af viðskiptavinum okkar hefur sagt frá því opinberlega hvað hraðinn skiptir miklu máli, en hann starfrækir kjúklingabú og þarf að gera salmonellugreiningu þegar slátrað er. Ef við fáum sýni til okkar fyrir hádegi á mánudegi þá er niðurstaðan komin um kvöldið, og tryggir þetta hnökralausa framleiðslu og ávinningurinn fólginn í því að losna við innkallanir á vörunni.“
Búist er við miklum vexti landeldis á komandi árum og segir Snorri að þó svo að landeldið fari fram í lokuðum kerfum muni greinin þurfa á reglulegum og vönduðum mælingum að halda. „Ísland býr að mjög hagfelldum skilyrðum til fiskeldis, jafnt í sjó og á landi, en árangurinn byggist ekki síst á því að huga rétt að smitvörnum og geta – eftir megni – komið í veg fyrir alvarlegar uppákomur.
Það gerum við með vönduðum og vísindalegum vinnubrögðum og góðu eftirliti,“ segir Snorri. „Gott er að hafa í huga að óháð því hvað skilyrðin eru góð að öðru leyti þá er fiskeldi í grunninn þekkingariðnaður og árangurinn mun byggjast á þeirri kunnáttu og reynslu sem greininni tekst að byggja upp.“
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
| Afurð | Dags. | Meðalverð |
|---|---|---|
| Þorskur, óslægður | 6.11.25 | 595,94 kr/kg |
| Þorskur, slægður | 6.11.25 | 577,02 kr/kg |
| Ýsa, óslægð | 6.11.25 | 396,77 kr/kg |
| Ýsa, slægð | 6.11.25 | 442,90 kr/kg |
| Ufsi, óslægður | 6.11.25 | 302,18 kr/kg |
| Ufsi, slægður | 6.11.25 | 389,06 kr/kg |
| Undirmálsufsi, óslægður | 24.10.25 | 9,00 kr/kg |
| Djúpkarfi | 23.10.25 | 243,00 kr/kg |
| Gullkarfi | 6.11.25 | 352,20 kr/kg |
| Litli karfi | 16.10.25 | 11,00 kr/kg |
| 6.11.25 Harðbakur EA 3 Botnvarpa | |
|---|---|
| Ýsa | 1.691 kg |
| Karfi | 407 kg |
| Steinbítur | 174 kg |
| Skarkoli | 157 kg |
| Grálúða | 6 kg |
| Samtals | 2.435 kg |
| 6.11.25 Hlökk ST 66 Landbeitt lína | |
|---|---|
| Ýsa | 5.442 kg |
| Þorskur | 3.699 kg |
| Steinbítur | 1 kg |
| Samtals | 9.142 kg |
| 6.11.25 Magnús SH 205 Dragnót | |
|---|---|
| Þorskur | 1.193 kg |
| Skrápflúra | 811 kg |
| Ýsa | 466 kg |
| Sandkoli | 11 kg |
| Steinbítur | 7 kg |
| Þykkvalúra | 4 kg |
| Samtals | 2.492 kg |
| Afurð | Dags. | Meðalverð |
|---|---|---|
| Þorskur, óslægður | 6.11.25 | 595,94 kr/kg |
| Þorskur, slægður | 6.11.25 | 577,02 kr/kg |
| Ýsa, óslægð | 6.11.25 | 396,77 kr/kg |
| Ýsa, slægð | 6.11.25 | 442,90 kr/kg |
| Ufsi, óslægður | 6.11.25 | 302,18 kr/kg |
| Ufsi, slægður | 6.11.25 | 389,06 kr/kg |
| Undirmálsufsi, óslægður | 24.10.25 | 9,00 kr/kg |
| Djúpkarfi | 23.10.25 | 243,00 kr/kg |
| Gullkarfi | 6.11.25 | 352,20 kr/kg |
| Litli karfi | 16.10.25 | 11,00 kr/kg |
| 6.11.25 Harðbakur EA 3 Botnvarpa | |
|---|---|
| Ýsa | 1.691 kg |
| Karfi | 407 kg |
| Steinbítur | 174 kg |
| Skarkoli | 157 kg |
| Grálúða | 6 kg |
| Samtals | 2.435 kg |
| 6.11.25 Hlökk ST 66 Landbeitt lína | |
|---|---|
| Ýsa | 5.442 kg |
| Þorskur | 3.699 kg |
| Steinbítur | 1 kg |
| Samtals | 9.142 kg |
| 6.11.25 Magnús SH 205 Dragnót | |
|---|---|
| Þorskur | 1.193 kg |
| Skrápflúra | 811 kg |
| Ýsa | 466 kg |
| Sandkoli | 11 kg |
| Steinbítur | 7 kg |
| Þykkvalúra | 4 kg |
| Samtals | 2.492 kg |
