Sjómenn og aðrir sjófarendur þurfa oft að reiða sig á nálæg skip og báta þegar hættu ber að garði og því skiptir sköpum að þekkingu á björgunarstörfum sé viðhaldið um borð.
Áhöfnin á Gullveri NS nýtti óvænt tækifæri sem gafst þegar siglt var á miðin í lok september til að framkvæma björgunaræfingu, að því er segir á vef Síldarvinnslunnar.
„Björguðu“ þremur fiskikörum
Þegar Gullver sigldi sem leið lá frá Seyðisfirði komu skipverjar auga á þrjú fiskikör sem möruðu í kafi skammt norðaustan við Dalatanga. Ákveðið var að grípa tækifærið og „bjarga“ körunum til að þjálfa viðbragð áhafnarinnar en aðstæðurnar eru sagðar sambærilegar því þegar bjarga á manni úr sjó.
Áhöfn Gullvers NS „bjarga“ hér fiskikari úr sjávarháska.
Ljósmynd/Síldarvinnslan: Þorgeir Torfi Árnason
Á vef Síldarvinnslunnar er framkvæmdinni lýst: „Körin voru tekin að hlið skipsins, netakúlu kastað til að halda þeim við síðuna og loks var húkkað í hífingarauga til að hífa þau um borð. Ekki var nógu gott í sjóinn til að setja út léttabát þannig að samskipti skipstjóra og áhafnar við þessa aðgerð skipti sköpum.“
Mikilvægt að hafa hraðar hendur
Þá kemur fram að körunum þremur hafi öllum verið bjargað á um 45 mínútum en síðasta karið sem híft hafi verið úr sjónum hafi náð að reka 0,4 sjómílur á meðan fyrri tveimur körunum var komið um borð. Það er góð áminning um hversu nauðsynlegt er að björgunaraðgerðir gangi hratt og vel fyrir sig og undirstrikar mikilvægi þess að viðhalda þjálfun í að bregðast við sambærilegum aðstæðum.
Samkvæmt heimasíðu Síldarvinnslunnar voru skipverjar ánægðir með björgunaræfinguna. Allir hafi sinnt sínum hlutverkum vel, samskipti hafi gengið smurt fyrir sig og æfingin hafi verið afar gagnleg upprifjun fyrir áhöfnina.