Viðar Örn Victorsson, stöðvarstjóri áframeldis hjá Laxey, er á vinnustofu hjá fóðurframleiðandanum Skretting í Noregi þegar 200 mílur slá á þráðinn til hans. Á vinnustofunni er hópur landeldisræktenda að bera saman bækur sínar og ræða sín á milli um tækifæri og áskoranir í greininni, en Viðar segir að einn af styrkleikum Laxeyjar sé stöðug þekkingarleit. „Það er mjög gagnlegt að eiga opið samtal við aðra í þessum landeldisgeira,“ segir Viðar sem hefur dregið sig í hlé svo að blaðamaður geti spurt hann spjörunum úr.
Þegar Viðar flutti með fjölskyldu sinni til Vestmannaeyja haustið 2024 var það stórt skref. Hann hafði starfað í fiskeldi í nítján ár, meðal annars hjá Stofnfiski, en tók þá við nýju hlutverki sem stöðvarstjóri áframeldis hjá Laxey.
„Ég réð mig til Laxeyjar í apríl í fyrra, 2024. Ég bjó í Keflavík áður og var að fara þarna á milli til að byrja með eða fram í september. Þá flyt ég með fjölskylduna til Vestmannaeyja og við erum búin að vera hérna í ár,“ segir hann. „Ég er mjög heppinn að þau voru til í að prófa þetta með mér.“
Viðar lýsir því að samfélagið í Vestmannaeyjum hafi tekið fjölskyldunni vel og að fyrirtækið sjálft hafi stutt við flutninginn. „Samfélagið hefur tekið vel á móti okkur. Það er rosalega mikilvægt að fyrirtækið hjálpi líka til við fyrstu skrefin þegar maður er að koma svona inn í svona samfélag en þau aðstoðuðu okkur til dæmis við að finna húsnæði. Þetta hefur bara gengið mjög vel.“
Viðar er enginn nýgræðingur í greininni. Hann útskrifaðist sem fiskeldisfræðingur frá Hólum árið 2005 og hefur unnið í fiskeldi allar götur síðan. „Ég í rauninni fór í fiskeldisfræðina alveg grænn, þá bara 22 ára,“ segir Viðar. „Ég útskrifaðist 2005 og byrjaði þá að vinna hjá Stofnfiski, bæði inni í Vogum og svo Kalmanstjörn. Síðustu árin var ég í Höfnum þannig að ég var búinn að vinna þar nánast látlaust frá tvö þúsund og fimm. Þetta voru orðin nítján ár þar. Þannig að ég er búinn að vera svolítið lengi í þessu.“
Á þeim tíma segist Viðar hafa sinnt fjölbreyttum verkefnum, meðal annars við framleiðslu á hrognkelsum til notkunar í baráttunni við laxalús. „Ég var að framleiða þau í átta ár,“ segir hann en ljóst er að Viðar hafði safnað að sér töluverðri þekkingu áður en hann ákvað að söðla um og flytjast til Eyja. „Eins og ég segi, ég er búinn að vera í þessu í tæp 20 ár og ég þekki ekkert annað.“
Fiskeldisiðnaðurinn hefur tekið miklum breytingum á þeim tveimur áratugum sem Viðar hefur starfað innan hans. „Þessu hefur alveg fleygt fram og tæknin er enn þá að taka stór stökk,“ bendir hann á og tekur fram að Laxey sé nýjasta aðstaðan sem hann hefur unnið við. „Ég hef mest unnið með gamlar stöðvar sem höfðu verið endurnýjaðar. Það er mikill munur að koma yfir í svona glænýja stöð.“
Aðspurður hvort því fylgi áskoranir að stunda fiskeldi á eyju fjarri meginlandinu segir Viðar að því geti vissulega fylgt áskoranir að vera í siglingarfjarlægð frá stofnæðum landsins. Kostirnir vegi þó mun þyngra. „Það er til dæmis ekkert eldi nálægt okkur þannig að við erum svona nokkuð einangruð frá öðrum ræktendum. Svo hefur okkur gengið mjög vel að ná í sjó en við erum að nota borholusjó fyrir Laxey. Það hefur því bara gengið mjög vel,“ segir Viðar. „En jú, auðvitað geta samgöngurnar verið áskorun eins og yfir vetrarmánuðina, til dæmis hvað varðar aðföng og þegar við þurfum að senda frá okkur. En kostirnir vega bara miklu þyngra en gallarnir og það er búið að vinna gríðarlega flott starf hér.“
Viðar segir að Laxey leggi mikla áherslu á samstarf og miðlun þekkingar innan greinarinnar og hann tekur fram að fyrirtækið leggi mikið upp úr því að nota tækni og aðferðir sem hafa þegar sannað sig. „Við erum ekki alltaf að reyna að finna upp hjólið,“ segir Viðar. „Það er búið að vera sérstaklega mikið samstarf við aðra laxeldisframleiðendur. Stjórnendurnir hér hafa mikið heimsótt aðra framleiðendur erlendis. Þeir hafa verið opnir með hvað er að virka og hvað er ekki að virka hjá þeim og við höfum getað nýtt okkur það mjög vel.“
Samstarfið felst einnig í ráðstefnum og vinnustofum á borð við þá sem Viðar sækir um það leyti sem viðtalið var tekið. „Það eiga bara allir í mjög opnu samtali og ég held að þetta samtal sem við erum alltaf að eiga sé svolítið lykillinn að því að allt gangi vel.“
Laxey hefur líka lagt mikla áherslu á að viðhalda góðum tengslum við nærsamfélagið í Vestmannaeyjum frá upphafi. „Það hefur alltaf gengið vel. Svo reynum við eins og við getum að ráða fólk í nágrenninu í störfin hérna,“ segir Viðar. „Bæði almenn störf og líka bara iðnaðarmenn og verktaka.“ Viðar segir að Laxey hafi þannig töluverð áhrif á atvinnulífið á svæðinu. Hann áætlar að um 160 manns vinni fyrir laxeldið með einum eða öðrum hætti en hjá Laxey eru 68 starfsmenn og undirverktakar eru á bilinu 80-100.
Sjálfur ber Viðar, ásamt samstarfsmanni sínum, ábyrgð á daglegum rekstri áframeldis Laxeyjar en í áframeldinu er lax frá 100 grömmum upp í sláturstærð. „Við vinnum þetta saman og erum svo með yfirmann sem er yfir öllu fiskeldi.“
Helstu verkefni þeirra snúa að verkstjórnun en þeir þurfa að sjá til þess að kerfin gangi snurðulaust fyrir sig: „Við erum að stýra starfsfólkinu í áframeldinu, dreifum verkum og höldum öllu í góðu horfi.“ Þá sjá þeir einnig um öll þau mikilvægu kerfi sem halda áframeldinu gangandi, svo sem vatnskerfi, súrefniskerfi og fóðurkerfi.
Áframeldisstöðin hefur verið byggð upp í áföngum og fyrsti áfangi er kominn í fullan rekstur. Uppbyggingin er þó hvergi nærri hætt. „Áfangi eitt stendur saman af átta svona stórum áframeldiskerum og svo sex vinnslukerum en það er þar sem fiskurinn er geymdur áður en hann fer í vinnslu.“ Næsti áfangi segir Viðar að sé þegar í framkvæmd. „Áfangi tvö, sem þegar er byrjað að byggja, samanstendur af öðrum átta svona áframeldiskerum. Það er búið að reisa, held ég, sjö ker af átta en svo á eftir að ganga frá þeim.“
Næsta framkvæmd, sem einnig er hluti af áfanga 2, segir Viðar að felist í byggingu stórseiðahúss en það segir hann vera íslenskun á „post smolt“. Þar verði byggð átta ker sem verða minni en áframeldiskerin. Gert er ráð fyrir að þessi bygging verði klár í mars á næsta ári en fyrstu stóru fiskeldiskerin í áfanga 2 verði komin í framleiðslu annað sumar og áfangi 2 þá fullkláraður næsta haust. Þá má gera ráð fyrir að undirbúningsvinna fyrir áfanga 3 verði komin á fullt og mögulega hafin.
Þegar áfangi tvö verður fullbyggður mun framleiðslugeta Laxeyjar tvöfaldast, segir Viðar. „Segjum að við önnum 5.000 tonnum í fyrsta áfanga, þá tvöfaldast það þegar áfangi tvö er tilbúinn. Þá verðum við komin upp í rúmlega tíu þúsund tonn.“
Laxey horfir þó mun lengra inn í framtíðina en þessa fyrstu áfanga en nú þegar liggja fyrir drög að áætlunum fyrir fleiri áfanga síðar meir. „Nú eru fyrstu tveir áfangar í uppbyggingu og það eru plön fyrir allavega sex áfanga,“ segir Viðar en í þeim sex áföngum stefnir Laxey að því að byggja upp 36.000 tonna landeldi. Hann segir að störfum í kringum eldið muni fjölga jafnt og þétt á næstu árum með tilheyrandi áhrifum fyrir samfélagið. „Þetta hefur mikil áhrif og er bara mjög mikilvægt fyrir Vestmannaeyjar,“ segir Viðar að lokum.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
| Afurð | Dags. | Meðalverð |
|---|---|---|
| Þorskur, óslægður | 14.11.25 | 621,03 kr/kg |
| Þorskur, slægður | 14.11.25 | 757,26 kr/kg |
| Ýsa, óslægð | 14.11.25 | 397,07 kr/kg |
| Ýsa, slægð | 14.11.25 | 405,44 kr/kg |
| Ufsi, óslægður | 14.11.25 | 278,15 kr/kg |
| Ufsi, slægður | 14.11.25 | 304,96 kr/kg |
| Undirmálsufsi, óslægður | 24.10.25 | 9,00 kr/kg |
| Djúpkarfi | 23.10.25 | 243,00 kr/kg |
| Gullkarfi | 14.11.25 | 358,55 kr/kg |
| Litli karfi | 16.10.25 | 11,00 kr/kg |
| 15.11.25 Hafrafell SU 65 Lína | |
|---|---|
| Ýsa | 5.153 kg |
| Þorskur | 2.409 kg |
| Steinbítur | 576 kg |
| Keila | 24 kg |
| Samtals | 8.162 kg |
| 15.11.25 Jónína Brynja ÍS 55 Lína | |
|---|---|
| Ýsa | 612 kg |
| Þorskur | 235 kg |
| Langa | 226 kg |
| Karfi | 68 kg |
| Keila | 30 kg |
| Steinbítur | 18 kg |
| Samtals | 1.189 kg |
| 15.11.25 Fríða Dagmar ÍS 103 Lína | |
|---|---|
| Þorskur | 488 kg |
| Ýsa | 80 kg |
| Langa | 71 kg |
| Steinbítur | 60 kg |
| Skarkoli | 16 kg |
| Karfi | 7 kg |
| Samtals | 722 kg |
| Afurð | Dags. | Meðalverð |
|---|---|---|
| Þorskur, óslægður | 14.11.25 | 621,03 kr/kg |
| Þorskur, slægður | 14.11.25 | 757,26 kr/kg |
| Ýsa, óslægð | 14.11.25 | 397,07 kr/kg |
| Ýsa, slægð | 14.11.25 | 405,44 kr/kg |
| Ufsi, óslægður | 14.11.25 | 278,15 kr/kg |
| Ufsi, slægður | 14.11.25 | 304,96 kr/kg |
| Undirmálsufsi, óslægður | 24.10.25 | 9,00 kr/kg |
| Djúpkarfi | 23.10.25 | 243,00 kr/kg |
| Gullkarfi | 14.11.25 | 358,55 kr/kg |
| Litli karfi | 16.10.25 | 11,00 kr/kg |
| 15.11.25 Hafrafell SU 65 Lína | |
|---|---|
| Ýsa | 5.153 kg |
| Þorskur | 2.409 kg |
| Steinbítur | 576 kg |
| Keila | 24 kg |
| Samtals | 8.162 kg |
| 15.11.25 Jónína Brynja ÍS 55 Lína | |
|---|---|
| Ýsa | 612 kg |
| Þorskur | 235 kg |
| Langa | 226 kg |
| Karfi | 68 kg |
| Keila | 30 kg |
| Steinbítur | 18 kg |
| Samtals | 1.189 kg |
| 15.11.25 Fríða Dagmar ÍS 103 Lína | |
|---|---|
| Þorskur | 488 kg |
| Ýsa | 80 kg |
| Langa | 71 kg |
| Steinbítur | 60 kg |
| Skarkoli | 16 kg |
| Karfi | 7 kg |
| Samtals | 722 kg |
