Frumvarp til laga sem miða að því að afnema aflamarksstjórn á grásleppu hefur aftur verið lagt fram á Alþingi. Frumvarpið var fyrst lagt fram á síðasta löggjafarþingi en hlaut ekki brautargengi. Nái það fram að ganga nú færast grásleppuveiðar aftur í fyrra veiðistjórnunarkerfi. Bæjarins besta sagði fyrst frá.
Árið 2024 var grásleppa sett í kvóta í fyrsta sinn og vertíðin í ár var sú fyrsta með nýju fyrirkomulagi en skiptar skoðanir hafa verið um ágæti þess. Hefur það verið töluvert gagnrýnt meðal félagsmanna Landssambands smábátasjómanna en þeir sjómenn sem stunda grásleppuveiðar hafa þó margir lýst sig fylgjandi kvótasetningunni eða óskað eftir því að fá reynslu á nýtt kerfi áður en aftur verður ráðist í stórar breytingar.
Tvær breytingar gerðar
Breytingar hafa verið gerðar á frumvarpinu síðan það var síðast lagt fram og eru þær helst tvær. Í fyrsta lagi var í fyrra frumvarpi kveðið á um að „þeir bátar einir“ sem rétt höfðu til leyfa á grásleppuvertíðinni árið 1997 gætu fengið úthlutað leyfi. Í nýju frumvarpi er þetta ákvæði víkkað svo að einnig sé miðað við báta sem „leiða rétt sinn af þeim bátum“ sem höfðu leyfi til grásleppuveiða 1997.
Í öðru lagi var í fyrra frumvarpi ekki kveðið á um hámarksstærð þeirra báta sem sótt gætu um leyfi. Í nýju frumvarpi hefur þessu verið breytt og er nú miðað við að ný leyfi verði ekki gefin út fyrir báta sem eru stærri en 15 brúttótonn.
Fyrsti flutningsmaður frumvarpsins er Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Flokks fólksins, en auk hennar eru fjórir meðflutningsmenn.