Það er þungskýjað en veðrið er milt þegar ég beygi frá Grandagarði og meðfram öðrum enda Sjóminjasafns Reykjavíkur í átt að höfninni. Með mér í för er Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðiprófessor.
Erindi okkar er að ræða sögulegan áfanga í þeirri rimmu sem við köllum þorskastríðin en 15. október voru liðin 50 ár síðan 200 mílna efnahagslögsaga gekk í gildi umhverfis Ísland og þriðja og síðasta þorskastríðið hófst.
Við nálgumst skip sem er málað í hinum einkennndi, gráa lit Landhelgisgæslunnar en við þurfum að bíða stundarkorn við læst hlið áður en við getum nálgast skipið frekar. Fljótlega kemur maður á þilfarinu auga á okkur og hraðar sér til okkar. Þar er á ferðinni Egill Þórarinsson loftskeytamaður varðskipsins Óðins og einn margra sjálfboðaliða hjá Hollvinum Óðins sem eyðir ómældum tíma í að halda þessum merkilega minnisvarða fljótandi og haffærum
Þegar um borð er komið vísar Guðni veginn og ratar greinilega eins og heimavanur maður. Óðinn er honum enda vel kunnugur en í forsetatíð sinni sigldi hann nokkrum sinnum með Óðni. Við hvert fótmál eru vísbendingar um þann tíma sem við erum komin til að rifja upp. Togvíraklippurnar eru eitt það fyrsta sem ég sé þegar inn er komið. „Eina framlag Íslendinga til vopnaframleiðslu í heiminum,“ segir hann glettinn um klippurnar frægu. Hann rifjar upp að togvíraklippurnar hafi fyrst verið notaðar í september 1972 þegar efnahagslögsagan var færð út í 50 mílur.
„Þetta tól gerbreytti stöðu Íslendinga á miðunum, því að í fyrstu átökunum, '58, þegar við færðum úr fjórum mílum í 12, þá gátu varðskipsmenn lítið annað gert en að grípa gjallarhorn og hrópa út yfir borðstokkinn á bresku togarana með sínum harða íslenska hreim: „You are fishing illegally in Icelandic waters. You must leave immediately.“ Og Bretarnir svöruðu bara með sínum þykka Jórvíkurskírishreim: „Bugger off!“ Og þar urðum við að láta gott heita.“
Pétur Sigurðsson, forstjóri Gæslunnar, ásamt fleirum þróuðu þetta óvænta leynivopn. „Þetta er í grundvallaratriðum sáraeinfalt tæki,“ segir Guðni. „Bara járnkarl, svo eru soðnar á járnkarlinn svona járnbútar. Kverkin er oddhvöss og svo siglirðu í kjölfar togarans sem er með vörpuna úti, klippurnar grípa í togvírana, einn eða tvo, og skera vörpuna frá.“
Guðni segir að Bretar og Vestur-Þjóðverjar hefðu sagt tiltækið vera stórhættulegt því vírarnir gætu slengst upp á dekk við klippinguna og orðið mönnum að bana en þessu voru Gæslumenn ekki sammála og sögðu að sjórinn tæki við kastinu. „Um þetta er ennþá deilt. Ég man, ég var að tala um þetta við gamla togarasjómenn í Bremerhaven í Þýskalandi og sagði að Íslendingar segðu að þetta hafi nú ekkert verið hættulegt. Þá sagði einn þeirra: „Das ist nicht wahr!“ Það er ekki satt! og lýsti því hvernig hann rétt slapp frá því að fá togvír beint í hausinn.“
Þegar komið er innar í skipið mæta okkur þröngir gangar. Við heimsækjum káetu forsetans, sem Guðni hefur áður gist. Þar eru húsgögnin klædd íslenskum salúnsvefnaði frá Álafossi í bláum litatónum. Óðinn var tekinn í notkun af Landhelgisgæslunni árið 1960, í forsetatíð Ásgeirs Ásgeirssonar og á þeim tíma gat stundum verið hagkvæmast að ferðast sjóleiðina um landið.
Við fikrum okkur næst upp þröngan stiga og upp í brúna þar sem tíminn tekur á móti okkur. Viður og látún blasa við og hér eru fleiri handföng og sveifar en gengur og gerist í skipum í dag. Á bak við þil er kortaherbergið þar sem Egill kveikir á hljóðheimi skipsins.
Við bíðum átekta á meðan við virðum fyrir okkur takka og hnappa, gamla skjái og fjöldann allan af grunnum viðarskúffum með messinghöldum sem geymdu sjókortin. Smám saman fyllist rýmið af talstöðvahljóðum og suði, og undir niðri heyrist auðkennandi tikkhljóð: morsmerki. Egill segir að svona hafi skipið hljómað þegar það var upp á sitt besta og í fullri þjónustu, en Óðinn tók þátt í öllum þremur þorskastríðunum.
Aftur leiðir Guðni mig um ganga skipsins og við endum niðri í messanum. Egill hefur dekkað borð fyrir okkur, hellt upp á kaffi og skorið niður formköku. Diskar og bollar eru skreyttir íslenska skjaldarmerkinu sem tekið er að fölna. Við maulum veigarnar og snúum okkur að máli málanna.
Ég spyr Guðna hvort hann hafi rannsakað þorskastríðin lengi og það kemur upp úr dúrnum að það eru nærri 30 ár síðan hann fór fyrst að kynna sér þau af alvöru. Á næsta ári kemur út bók hans um útfærsluna í 50 mílur 1972 og hann stefnir að því að fylgja henni eftir með bók um 200 mílurnar. Ljóst er að þessi saga hefur lengi höfðað til hans
„Ég hef nú enga einfalda skýringu á því hvers vegna ég heillaðist af þessum átökum. Kannski skiptir einhverju máli að afi minn, sem ég er nefndur í höfuðið á, var skipstjóri og vann meðal annars hjá Landhelgisgæslunni. Stóð einu sinni breskan landhelgisbrjót að verki, fór um borð í hann og ætlaði að færa til hafnar, en skipstjórinn þráaðist við og ætlaði að sigla bara heim á leið til Bretlandseyja,“ segir Guðni svolítið kíminn. „Það var ekki fyrr en annað varðskip kom að afa Guðna var sleppt úr haldi.“
Guðni átti einnig frændur sem voru í gæslunni á 8. áratugnum, þar með talinn skipherrann Guðmund Kjærnested sem var ein af hetjum þess tíma. „Svo verður nú bara að nefna að fyrir mann eins og mig, sem hefur áhuga á íslenskri samtímasögu, sögu síðustu aldar, þá eru landhelgismál og þorskastríð svo stór þáttur þar.“
Þorskastríðin eru vörðuð mörgum merkilegum áföngum og ég spyr Guðna hvaða þýðingu 15. október hafi sérstaklega í hinu stóra samhengi hlutanna. „Já, þessi tímamót eru með þeim merkari í landhelgissögunni, því að þennan dag fyrir réttri hálfri öld gekk í gildi 200 mílna efnahagslögsaga umhverfis Ísland,“ segir Guðni. „Það var síðasta útfærslan og við njótum enn þann dag í dag 200 mílna efnahagslögsögu.“
Guðni segir að Bretar hafi séð í hendi sér að 200 mílna efnahagslögsaga yrði brátt samþykkt viðmið um heim allan, enda hefðu ríki í Suður- og Mið-Ameríku þegar fengið sínu framgengt hvað það varðaði og þar með rutt leiðina fyrir önnur ríki. Þeir hafi þó ekki verið sáttir við að vera einhliða gerðir brottrækir af íslensku miðunum. „Bretar fallast ekki á þetta, segja að þeir hljóti að mega að minnsta kosti njóta tiltekinna réttinda innan þessarar nýrri lögsögu um tiltekinn árafjölda.“ Samningaviðræðurnar fóru þó út um þúfur og þriðja, síðasta og harðasta þorskastríðið hófst í lok árs '75.
Veturinn 1975-1976 voru árekstrar tíðir og togvíraklippunum var óspart beitt. Í janúar 1976 fór Geir Hallgrímsson forsætisráðherra til Lundúna á fund Harolds Wilsons. Guðni segir að litlu hafi mátt muna að samningar næðust en í miðjum viðræðum hefðu fregnir borist frá Íslandi. „Þetta var á réttri leið,“ segir Guðni. „En inn á fundinn í Downingstræti í London berast þau tíðindi að Týr, flaggskip okkar Íslendinga, undir stjórn Guðmundar Kjærnested skipherra, hafi skorið á togvíra hjá breskum togara. Og þá verða Bretarnir öskureiðir og segja: „Getið þið ekki í það minnsta, þegar við sitjum við samningaborð, dokað aðeins við?““
Samkvæmt Guðna var sá hátturinn á þegar 50 mílna deilan stóð sem hæst, ekkert var klippt á meðan setið var við samningaborðið. „En þarna kemur inn í kapp skipherranna í Landhelgisgæslunni og spenna milli Geirs Hallgrímssonar, forsætisráðherra, og Ólafs Jóhannessonar, dómsmálaráðherra og yfirmanns gæslunnar. Hann var formaður Framsóknarflokksins og hafði áður verið forsætisráðherra.“
Guðni áréttar að sagan sé flókin og verði ekki gert skil í stuttri blaðagrein. Mergur málsins sé hins vegar sá, að þótt Íslendingar hafi alltaf staðið saman um það lokatakmark að ná fullum yfirráðum yfir auðlindinni, þá hafi verið deildar meiningar um aðferðirnar til þess. „Við verðum að varast að búa til þá glansmynd að menn hafi alltaf verið sammála um hver einustu skref sem stigið voru og þjóðin einhuga að baki einhuga ráðamönnum.” Hann segir það þó ekki skyggja á að menn hafi verið samstilltir um lokatakmarkið.
„En við eigum að geta þorað og horfst í augu við það að stundum lék allt á reiðiskjálfi á vettvangi stjórnmálanna. Og ólíkir hagsmunir, ólík sjónarmið. Skipherrar gæslunnar, mikil hörkutól, sýndu því kannski ekki endilega alltaf fullan skilning að nú væri ráð að doka við og leita samninga. Embættismenn utanríkisráðuneytisins, menn sem vinna við það að leita sátta og málamiðlana, átta sig kannski ekki alltaf á því að á hafi úti horfa menn öðruvísi á það sem gengur á. Og þar fram eftir götunum.“
Alþjóðastjórnmálin spiluðu einnig stóra rullu, enda var Kalda stríðið í algleymingi á sama tíma. Ísland var mikilvægur hlekkur í varnarkeðju NATO og með því fylgdi ákveðið vægi sem gerði Íslendingum kleift að gera kröfur sem lítil, herlaus þjóð hefði annars ef til vill ekki getað gert.
„Í hnotskurn er staðan sú að ráðamenn á Íslandi koma þeim skilaboðum til valdhafa í Washington að hér snarminnki stuðningur við vestrænt varnarstarf ef helstu óvinir okkar eru meint vinaþjóð í NATO,“ segir Guðni. Í janúar hafi allt leikið á reiðiskjálfi. Átök á miðunum hafi magnast og samningaviðræður mistekist í Lundúnum. „Menn taka sig til dæmis til hérna við Grindavík og Stokksnes fyrir austan og loka leiðum að ratsjárstöðvum. Það eru bara sjómenn og fleiri sem varna starfsliði Bandaríkjahers að koma til starfa í ratsjárstöðvunum. og segja sem svo: „Við þolum það ekki að Bretar níðist á okkur á hafi úti og við eigum að heita þeirra bandalagsþjóð.““
Staðan fór að valda hausverki hjá ráðamönnum Washington og höfuðstöðvum NATO í Brussel og víðar. „Það má ekki gleyma því að ef Bretar hefðu beitt öllu sínu afli, þá hefðu þeir getað tekið þessi varðskip okkar úr leik á svipstundu,“ segir Guðni. „En það gerir þú ekki gagnvart vinaþjóð í NATO. Þannig að NATO-vopnið virkaði að þessu leyti en það þurfti að láta í það skína og, í febrúar '76, var gengið svo langt að Ísland sleit stjórnmálasambandi við Bretland. Það hefur aldrei gerst, hvorki fyrr né síðar, að til slíks bragðs sé tekið milli tveggja ríkja Atlantshafsbandalagsins.“
Sendiherra Bretlands fór út landi og átökin urðu harðari á miðunum. Ákveðnum hápunkti varð náð með harkalegri atlögu freigáta breska sjóhersins að varðskipinu Tý og Veri, skuttogara í þjónustu gæslunnar. Guðni segir það mikla mildi að ekki hlaust mannsskaði af en í kjölfarið sáu Bretar sína sæng upp reidda. Enginn sigur yrði unninn á hafi án mikils fórnarkostnaðar á landi.
Sest var til samninga í Osló í lok maí, Bretar féllust á nánast allar kröfur Íslendinga og 1. júní var samningur undirritaður. „Bretar fengu að veiða til nóvemberloka og þar með lýkur þeirra veiðum, sem höfðu staðið náttúrulega öldum saman, á Íslandsmiðum. Og eins og Anthony Crosland, utanríkisráðherra Breta, sagði úti í Osló við Íslendinga: „Þið snúið heim sem hetjur, en ég þarf að útskýra fyrir mínu fólki í Grimsby hvers vegna við gáfumst upp.” En það var ekkert annað í boði.“
Ríkar ástæður voru fyrir því að útfærslan í 200 mílur var talin nauðsynleg og það var ekki aðeins vegna þess að Íslendingar vildu „fá að ráða“. Staðreyndin var sú að ofveiði var orðið alvarlegt vandamál við Íslandsstrendur og eina leiðin til að stemma stigu við því var að ná stjórn á miðunum.
Sumarið 1975 birti Hafrannsóknastofnun skýrslu um ástand þorskstofnsins og staðan var grafalvarleg. „Hafrannsóknastofnun varaði mjög við því að ef ekki yrði gripið til róttækra aðgerða myndi stofninn verða nánast gereyðilagður. Þetta er svarta skýrslan svonefnda og varð auðvitað að vopni í höndum Íslendinga sem gátu sagt við Breta og aðra: „Hér sést svart á hvítu að við getum ekki haldið áfram að sækja svona fast á miðin. Við verðum að stemma stigu við ofveiðinni.““
Bretar voru ósammála þessu mati en Guðni minnir á hvernig þorskstofninum við Nýfundnaland reiddi af vegna óheftrar sóknar. Stofninn þar hrundi algerlega á 10. áratugnum og hefur ekki náð sér á strik síðan.
„Svo er það önnur saga að eftir '76, eftir að fullnaðarsigur vannst, þá var það um nokkurra ára skeið svo hér heima á Íslandi að menn töldu að nú þegar útlendingarnir væru horfnir á braut gætum við veitt nánast eins mikið og okkur sýndist. Það tók okkur nokkur ár að átta okkur á því að sú var alls ekki raunin. Og hvað sem menn vilja segja um fyrirkomulag fiskveiðistjórnunar á Íslandi, þá varð morgunljóst að óheft sókn myndi gereyða stofninum.“
Þegar hér er komið sögu er nokkuð gengið á kaffið og kökuna. Ég virði fyrir mér gamlar mjólkurfernur frá fyrri tíð sem búið er að koma fyrir í þar til gerðum hólfum og eiga að koma í veg fyrir að fernurnar velti á siglingunni. Fernurnar eru tómar en viðurinn er snjáður og sýnir notkun liðinna ára. Hér í Óðni starfa reglulega sjálfboðaliðar sem muna þorskastríðin af eigin raun. Gamlir landhelgisgæslumenn sem sáu Bretana koma, fundu skellina þegar skipin rákust saman og kippinn í varðskipinu þegar klippunum var beitt. „Óðinn er safnskip núna og frábært tákn um það að við eigum að muna og þekkja þessa sögu,“ segir Guðni.
Skömmu eftir að þau orð falla eru bæði kaffibollar og kökudiskar tómir og við tökum að fikra okkur til baka upp á dekk. Aftur þarf ég að treysta á leiðsögn Guðna, sem gengur óhikað eftir göngum, fyrir horn og upp bratta stiga. Þegar út er komið tekur rigning á móti okkur og tímarnir rekast á þegar við horfum yfir Reykjavíkurhöfn, sem ber nú lítil merki 8. áratugarins sem við vorum að yfirgefa. Á leið frá borði hef ég síðustu orð Guðna í huga. Óðinn flýtur enn þá og sú saga sem hann hefur að segja er öllum opin. Við eigum að muna og þekkja þessa sögu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
| Afurð | Dags. | Meðalverð |
|---|---|---|
| Þorskur, óslægður | 14.11.25 | 621,03 kr/kg |
| Þorskur, slægður | 14.11.25 | 757,26 kr/kg |
| Ýsa, óslægð | 14.11.25 | 397,07 kr/kg |
| Ýsa, slægð | 14.11.25 | 405,44 kr/kg |
| Ufsi, óslægður | 14.11.25 | 278,15 kr/kg |
| Ufsi, slægður | 14.11.25 | 304,96 kr/kg |
| Undirmálsufsi, óslægður | 24.10.25 | 9,00 kr/kg |
| Djúpkarfi | 23.10.25 | 243,00 kr/kg |
| Gullkarfi | 14.11.25 | 358,55 kr/kg |
| Litli karfi | 16.10.25 | 11,00 kr/kg |
| 15.11.25 Hafrafell SU 65 Lína | |
|---|---|
| Ýsa | 5.153 kg |
| Þorskur | 2.409 kg |
| Steinbítur | 576 kg |
| Keila | 24 kg |
| Samtals | 8.162 kg |
| 15.11.25 Jónína Brynja ÍS 55 Lína | |
|---|---|
| Ýsa | 612 kg |
| Þorskur | 235 kg |
| Langa | 226 kg |
| Karfi | 68 kg |
| Keila | 30 kg |
| Steinbítur | 18 kg |
| Samtals | 1.189 kg |
| 15.11.25 Fríða Dagmar ÍS 103 Lína | |
|---|---|
| Þorskur | 488 kg |
| Ýsa | 80 kg |
| Langa | 71 kg |
| Steinbítur | 60 kg |
| Skarkoli | 16 kg |
| Karfi | 7 kg |
| Samtals | 722 kg |
| Afurð | Dags. | Meðalverð |
|---|---|---|
| Þorskur, óslægður | 14.11.25 | 621,03 kr/kg |
| Þorskur, slægður | 14.11.25 | 757,26 kr/kg |
| Ýsa, óslægð | 14.11.25 | 397,07 kr/kg |
| Ýsa, slægð | 14.11.25 | 405,44 kr/kg |
| Ufsi, óslægður | 14.11.25 | 278,15 kr/kg |
| Ufsi, slægður | 14.11.25 | 304,96 kr/kg |
| Undirmálsufsi, óslægður | 24.10.25 | 9,00 kr/kg |
| Djúpkarfi | 23.10.25 | 243,00 kr/kg |
| Gullkarfi | 14.11.25 | 358,55 kr/kg |
| Litli karfi | 16.10.25 | 11,00 kr/kg |
| 15.11.25 Hafrafell SU 65 Lína | |
|---|---|
| Ýsa | 5.153 kg |
| Þorskur | 2.409 kg |
| Steinbítur | 576 kg |
| Keila | 24 kg |
| Samtals | 8.162 kg |
| 15.11.25 Jónína Brynja ÍS 55 Lína | |
|---|---|
| Ýsa | 612 kg |
| Þorskur | 235 kg |
| Langa | 226 kg |
| Karfi | 68 kg |
| Keila | 30 kg |
| Steinbítur | 18 kg |
| Samtals | 1.189 kg |
| 15.11.25 Fríða Dagmar ÍS 103 Lína | |
|---|---|
| Þorskur | 488 kg |
| Ýsa | 80 kg |
| Langa | 71 kg |
| Steinbítur | 60 kg |
| Skarkoli | 16 kg |
| Karfi | 7 kg |
| Samtals | 722 kg |
