Jón Sigurðsson sem áður gegndi stöðu forstjóra Össurar hf. (nú Embla Medical) söðlaði um í júní á þessu ári og tók við stöðu stjórnarformanns Samherja.
Fjórir mánuðir eru síðan hann tók við starfinu og á heimasíðu Samherja fer hann yfir stöðu greinarinnar og fyrirtækisins.
Samþætting sölu, veiða og vinnslu er lykilatriði í rekstri sjávarútvegsfyrirtækja, að mati Jóns. Hann segir að fyrirtækið hafi á undanförnum árum náð að tengja markaðinn beint við framleiðsluna, sem sé grundvöllur árangurs í greininni.
„Það er í raun lykilatriði til að ná árangri. Í dag má segja að þarfir markaðarins stýri veiðum og vinnslu en ekki öfugt,“ segir hann. Hann vekur athygli á því að Samherji hafi fjárfest gríðarlega í landvinnnslu, fiskiskipum og landeldi á laxi og bleikju og að almennt viðhorf sé að Samherji sé leiðandi í tækniþróun.
Jón hefur góða þekkingu á störfum Samherja enda er þetta ekki hans fyrsta stjórnarseta. Hann sat áður í stjórn fyrirtækisins árin 2002-2006 og hefur fylgst vel með stöðunni. Hann bendir á að mikið hafi breyst í sjávarútvegi á undanförnum árum.
„Greinin er tæknivæddari en víðast hvar í heiminum og fagmennska hefur aukist,“ segir hann og bætir við: „Á endanum snýst þetta jú um að geta boðið viðskiptavinum upp á gæðaafurðir á samkeppnishæfu verði.“
Samherji hefur, að sögn Jóns, lagt áherslu á að efla tengsl við markaði og auka gæði framleiðslu. „Okkur hefur auðnast að byggja upp öflug sölunet á helstu mörkuðum og orðspor Íslands er almennt gott,“ segir hann.
„Ég var í Frakklandi um daginn og fór meðal annars á matarmarkað. Þar voru íslenskir þorskhnakkar dýrasti maturinn sem í boði var, sem segir sína sögu um árangur okkar.“
Þrátt fyrir árangurinn segir Jón að umræðan á Íslandi sé stundum neikvæð í garð stóru fyrirtækjanna. „Stærri fyrirtæki eru líklegri en þau minni til að hafa burði og getu til að ráðast í stórar fjárfestingar, svo sem endurnýjun skipa og landvinnslu,“ segir Jón en segir það þversögn að í almennri umræðu hér á landi séu mörg sjávarútvegsfyrirtæki talin vera of stór.
„Samt sem áður er staðreyndin sú að íslenskur sjávarútvegur er hátt skrifaður á heimsvísu og fiskveiðistjórnunarkerfið hefur í megindráttum gefist vel, þótt eflaust megi það bæta.“