Ísfisktogararnir í eigu Síldarvinnslusamstæðunnar hafa allir landað ágætum afla í vikunni en veðrið hefur þó verið með ýmsu móti á miðunum.
Á heimasíðu Síldarvinnslunnar er staðan tekin á skipstjórunum.
Jón Valgeirsson, skipstjóri á Bergey VE, segir að skipið hafi landað tvisvar í vikunni, í bæði skiptin í Neskaupstað. „Við lönduðum fullfermi á mánudaginn og síðan aftur um 20 tonnum í gær en þá var komið til hafnar vegna veðurs,“ sagði Jón.
Hann lýsti því að fyrri túrinn hefði staðið yfir í um fimm sólarhringa og að víða hefði verið veitt í leit að ýsu, meðal annars á Tangaflaki, Gerpisflaki, Skrúðsgrunni og Hvalbaksgrunni. Þá var einnig farið á Papagrunn til að leita að ufsa, en sú ferð bar lítinn árangur. „Við náðum að fylla skipið,“ sagði hann og bætti við að að löndun lokinni hefði verið haldið aftur til veiða á Gletting, þar sem fengist hafi þorskur í „skíta helvítis brælu“. Að lokum var ákveðið að landa afla og halda aftur til veiða í dag.
Einar Ólafur Ágústsson, skipstjóri á Jóhönnu Gísladóttur GK, var mjög ánægður með síðustu veiðiferð. „Þetta var stuttur túr og fiskiríið var gott. Aflinn var mest karfi og ýsa. Karfinn fékkst í Víkurálnum og ýsan á Búrbanka. Ég held að menn séu bara sáttir við túrinn,“ sagði hann. Skipið landaði fullfermi í Hafnarfirði á þriðjudag.
Birgir Þór Sverrisson, skipstjóri á Vestmannaey VE, sagði að aflinn hefði verið mjög fjölbreyttur þegar skipið landaði fullfermi í Grindavík í gær. „Það tók okkur þrjá sólarhringa að fá í hann og aflinn var mjög blandaður. Þetta voru í reynd allar sortir, en mest af þorski og ufsa. Aflann fengum við á Höfðanum og í Breiðamerkurdýpinu,“ sagði hann. Að löndun lokinni hélt skipið til Eyja og þaðan austur til veiða á ný.
Þórhallur Jónsson, skipstjóri á Gullver, greindi frá því að skipið hefði landað rúmlega 90 tonnum á Seyðisfirði í gær. „Þetta var langmest þorskur og ýsa. Við fengum aflann að mestu á Gerpisflaki en tekið var eitt hol á Tangaflaki áður en haldið var í land,“ sagði hann.
Hann bætti við að farið hefði verið suður á Papagrunn eftir fregnum af ufsaveiði, en þegar þangað kom var ufsinn horfinn. „Veður var ágætt þar til undir lok túrsins en þá skall á sannkallað skítaveður. Haldið verður á ný til veiða í dag,“ sagði Þórhallur.