Frumvarp laga um veiðistjórn grásleppu var lagt fram að nýju á núverandi löggjafarþingi en frumvarpið miðar að því að afnema kvótasetningu sem færð var í lög á síðasta ári. Ljóst er að skiptar skoðanir eru um fyrirkomulag veiðanna.
Landssamband smábátaeigenda lagðist gegn kvótasetningu á sínum tíma og hefur lýst yfir eindregnum stuðningi við nýtt frumvarp. Smábátasjómenn sem stunda grásleppuveiðar segjast þó margir vera fylgjandi kvótasetningu. Umsagnir sem borist hafa atvinnuveganefnd Alþingis vegna frumvarpsins endurspegla jafnframt þann ágreining sem uppi er um fyrirkomulagið.
Félagið Iceland Sustainable Fisheries, sem aflar vottana á veiðarfæri og fiskistofna sem nýttir eru við Ísland, hefur sent inn umsögn um frumvarpið en undir hana skrifar Kristinn Hjálmarsson, framkvæmdastjóri ISF. Félagið kallar eftir því að beðið sé með ákvarðanatöku fram yfir næstu vertíð.
Í umsögn ISF er bent á að grásleppuhrogn frá Íslandi hafi misst MSC-vottun um sjálfbærni árið 2014 vegna of mikils meðafla af teistu. Staðhæft er að nýtt fyrirkomulag með kvótasetningu grásleppu hafi þegar gefið von um að hægt sé að gera bragarbót þar á.
„MSC-vottun er orðin skilyrði í innkaupum á lykilmörkuðum fyrir grásleppuhrogn, einkum í Svíþjóð, Frakklandi, Ítalíu og Þýskalandi,“ segir í umsögninni. „Vottunin er grundvöllur þess að íslenskar afurðir komist að á þessum mörkuðum. Þegar vottunin féll úr gildi árið 2014 glötuðum við þessum mörkuðum.“
ISF tekur einnig fram í umsögn sinni að kröfur um vottuð hráefni séu sífellt að aukast: „Ef grásleppuveiðar á nálægum svæðum, þar á meðal á Grænlandi, halda MSC-vottun á meðan íslenskar veiðar standa í óvissu eða án vottunar, verða íslenskar afurðir í reynd annars flokks í hugum margra kaupenda.“
„Fyrsta vertíð undir nýja rammanum bendir til bættrar framkvæmdar,“ segir í umsögninni, og vísar ISF til gagna Fiskistofu sem sýni verulega lækkun á meðafla teistu, færri tilkynnt net og lækkun meðalfjölda neta í hverri eftirlitsferð. „Þetta bendir til þess að færri net séu í sjó hverju sinni, legutími neta sé styttri og ákvörðun um hvenær og hvar veitt er taki betur mið af aðstæðum,“ segir enn fremur.
ISF áréttar í umsögn sinni að kvótasetningin hafi haft „afgerandi og róandi áhrif“ á veiðarnar. Sé það bæði jákvætt fyrir náttúruna og öryggi sjómanna sem geti hagað sjósókninni eftir veðri og aðstæðum og unnið eftir skýru regluverki.
ISF óska eftir því að núverandi fyrirkomulag haldist óbreytt að minnsta kosti út næstu vertíð. Skuldbinda samtökin sig til að fylgja eftir svonefndri CAP-áætlun, efla vöktun og tryggja gagnsæja birtingu niðurstaðna. Að næsta tímabili loknu muni fleiri gögn og úttektir liggja fyrir sem myndi betri grundvöll fyrir ákvarðanatöku.
Strandveiðifélagið Krókur á Patreksfirði leggst ekki á sveif með ISF heldur lýsir félagið sig alfarið fylgjandi því að kvótasetning sé afnumin. Í umsögn sem félagið sendi inn í samráðsgátt og Einar Helgason, formaður Strandveiðifélagsins Króks skrifar undir, segir að félagið fagni frumvarpinu þar sem það „færir grásleppuveiðar til fyrra horfs enda voru engin lagaleg eða fiskifræðileg rök fyrir kvótasetningu fisktegundar sem ekki er ofveidd“.
Félagið segir kvótasetninguna hafa dreift aflaheimildum sem „varanlega eign og góð söluvara fyrir einhverja útvalda“ og að hún muni leiða til mikillar samþjöppunar heimilda.
Þá segir í umsögninni að erfitt hafi reynst að fá grásleppukvóta leigðan á vertíðinni 2025 og hafi það leitt af sér að talsvert af aflaheimildum í grásleppu hafi verið ónýttar eftir vertíðina. „Ekki var áhugi á að leigja frá sér heimildir þrátt fyrir að fyrirséð væri að þær yrðu ekki veiddar,“ segir enn fremur í umsögninni.
Krókur vísar til markmiða um hámörkun verðmæta og fjölbreytni og nýliðun í sjávarútvegi sem fjallað hafi verið um í lokaskýrslu starfshóps sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um atvinnu- og byggðakvóta. Telur félagið að leiða megi að því líkum að sömu markmið eigi með réttu að eiga við um grásleppuveiðar.
„Nýliðun í sjómannastétt mun svo til hverfa ef kaupa þarf aflaheimildir í grásleppu auk búnaðar til að komast af stað,“ segir í umsögninni, og varar félagið við því að samþjöppun auki jafnframt álag á strandveiðikerfið.
Fyrsta vertíðin á kvótasettri grásleppu fór fram á fyrri hluta þessa árs en þrátt fyrir deildar meiningar um fyrirkomulagið voru flestir sammála um að úthlutaðar heimildir hafi verið töluvert lægri en vonir stóðu til.
Ekki var búið að gefa út heildarkvóta áður en vertíðin hófst. Langur tími leið þar til Hafrannsóknastofnun gaf út lokaniðurstöðu um hámarksafla og þurfti margur að gera hlé á veiðum á meðan. Þegar uppi var staðið var heildaraflinn 2.760 tonn, sem var 32% samdráttur frá árinu á undan.
Frumvarp um afnám kvótasetningarinnar var lagt fyrir síðasta löggjafarþing en náði ekki fram að ganga áður en þingi var slitið. Hefur frumvarpið því verið lagt fram að nýju með nokkrum áherslubreytingum. 9. október gekk það til atvinnuveganefndar og var í kjölfarið óskað eftir umsögnum. Lilja Rafney Magnúsdóttir er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins.