Landssamband smábátaeigenda (LS) samþykkti fjölmargar ályktanir á 41. aðalfundi sínum sem haldinn var á dögunum.
Sambandið gerir meðal annars kröfur um breytingar á fiskveiðistjórn, strandveiðum og regluverki sjávarútvegsins.
Fyrsta málið sem tekið er fyrir í ályktun aðalfundar LS er að sambandið gerir stjórnvöldum tilboð um kaup á 30 þúsund tonnum af þorski, sem veiddur er utan strandveiða, fyrir fjóra milljarða króna. Greiðslan skuli dregin af bátum við löndun á fiskmörkuðum. Fyrir meðafla myndu bátar greiða 25% af nettóverðmæti.
Á aðalfundinum var jafnframt áhersla lögð á að efla strandveiðikerfið. Meðal tillagna eru að veiðitímabilið verði frá 1. maí til 31. ágúst, hverjum báti verði tryggðir 48 veiðidagar með dagsafla upp á 774 kíló og að heimild Fiskistofu til að stöðva strandveiðar verði felld niður.
„Vonbrigði manna voru mikil þar sem loforð voru um að strandveiðar væru tryggðar á síðasta fiskveiðiári en þeim lauk 16. júlí, mikil vonbrigði sem mega ekki endurtaka sig,“ segir í ályktuninni og LS krefst þess að staðið verði við fyrirheit stjórnarsáttmálans.
Þá leggur sambandið til að eigendur strandveiðibáta megi ráða afleysingamann í allt að tíu daga og að strandveiðar verði gerðar óháðar aflamarkskerfinu í samræmi við álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna frá árinu 2007. Sambandið áréttar einnig mikilvægi þess að sami útgerðaraðili eða eigandi geti ekki rekið fleiri en einn bát á strandveiðum.
LS mótmælir harðlega kvótasetningu á grásleppu. Lagt er til að hún verði afnumin og horfið aftur til fyrra dagakerfis en með því fyrirkomulagi að dagar sem kalli á að veiðarfæri séu tekin upp vegna brælu eða af öðrum ástæðum verði dregnir frá dagafjölda.
Sambandið setur þann fyrirvara að ef kvótakerfi haldist sé gerð krafa um að „veiðiheimildum grásleppukvóta verði aðeins úthlutað á smábáta og veiðiheimildir bundnar við þá“. Einnig að lög verði endurskoðuð og tekið tillit til réttinda grásleppusjómanna sem stunduðu veiðar frá 2014 til 2024. Þá leggur LS til að sett verði á fót sérstök grásleppunefnd sem skipuð verði grásleppusjómönnum.
LS leggur einnig til að hlutfall þorsks sem nýttur er til byggðaaðgerða hækki úr 5,3% í 8,0%, þannig að tryggja megi bæði línuívilnun, byggðakvóta og 48 daga til strandveiða.
Félagið vill einnig að línuívilnun verði virkjuð þegar í stað og gildi fyrir alla dagróðrabáta undir 30 tonnum, með 30% ívilnun á landbeitta línu og 20% á uppstokkaða línu í landi.
LS krefst þess að flotvörpuveiðar á loðnu, síld og makríl verði bannaðar innan íslenskrar landhelgi vegna mikillar skaðsemi, meðal annars fyrir grásleppuseiði. Einnig fordæmir félagið notkun dragnótar inn á fjörðum og flóum og krefst þess að lokað sé fyrir bæði dragnóta- og netaveiðar innan við línu frá Selskeri norður af Grundarfirði í Selsker austan við Skor á Breiðafirði. Þá er lagt til að botntroll verði alfarið bannað innan 12 mílna frá landi.
Félagið vill 30% ívilnun á handfæraveiðum, að þær verði undanþegnar hrygningarstoppi og að handfæraveiðar verði gerðar frjálsar. „LS krefst frjálsra færaveiða smábáta á makríl,“ segir jafnframt í ályktunum fundarins.
Sambandið gagnrýnir harðlega Hafrannsóknastofnun og krefst úttektar á árangri stofnunarinnar síðustu áratugi. „LS telur ljóst að vísindalegar forsendur veiðiráðgjafar Hafrannsóknastofnunar í öllum fiskitegundum hafi engan veginn staðist,“ segir í ályktuninni. Einnig er mótmælt rannsóknaveiðum í Eyjafirði síðastliðið vor sem fóru fram á hrygningartíma.
Skorað er á stjórnvöld að auka rannsóknir á lífríki Breiðarfjarðar, að umhverfisráðherra beiti sér fyrir því að gert verði umhverfismat á áhrifum veiðarfæra á sjávarbotn, lífríki sjávar og loftslagsins og að Hafrannsóknastofnun endurskoði aðferðir sínar við mælingar á grásleppu sem liggja til grundvallar ráðgjöf stofnunarinnar.
Ályktað var um ýmis önnur mál en ályktun fundarins má lesa í heild sinni á vef Landssambands smábátaeigenda.