Á 34. þingi Sjómannasambands Íslands (SSÍ), sem haldið var 30.–31. október, samþykktu fulltrúar sjómanna ítarlegar ályktanir um öryggis-, kjara- og atvinnumál stéttarinnar. Voru settar fram skýrar kröfur til stjórnvalda um bætt starfsumhverfi, réttlátari lífeyriskjör og aukið öryggi um borð í íslenskum fiskiskipum.
Í ályktun SSÍ er lögð áhersla á brýna þörf fyrir að leiðrétta það sem kallað er „kerfisbundið óréttlæti“ í lífeyrismálum sjómanna og verkafólks. Tekið er fram að yfir 5,4 milljarða króna á ári skorti til að jafna stöðu sjóða þeirra við aðra lífeyrissjóði landsins þegar kemur að jöfnun örorkubyrði. Í ályktuninni segir jafnframt:
„Félagar í verkamanna- og sjómannasjóðunum fá allt að 20% lakari lífeyrisréttindi en aðrir
fyrir sömu iðgjaldagreiðslur ef örorkuframlagið fellur niður.
Annars verður þetta veruleikinn:
SSÍ beinir í ályktun sinni skýrum kröfum til Alþingis um að tryggja gagnsæ viðskipti með fisk milli útgerða og vinnslu. Er Verðlagsstofa skiptaverðs, sem hefur eftirlit með uppgjörum til sjómanna, sögð undirfjármögnuð og krefst sambandið þess að „öllum fyrirtækjum í sjávarútvegi verði gert skylt að skila öllum upplýsingum um framleiddar afurðir og söluverð þeirra til Hagstofu Íslands.“
Sambandið mótmælir því harðlega að sjómenn fái einungis greitt fyrir 20% af andvirði svokallaðs VS-afla og krefjast fullrar greiðslu samkvæmt kjarasamningum. Einnig er kallað eftir endurskoðun vigtunarreglna og afnámi endurvigtunarleyfa tengdra aðila.
Þingið fordæmdi hugmyndir um afnám samsköttunar hjóna og sambúðarfólks og minnti á að sjómenn, sem eru að miklu leyti karlar, séu oft langdvölum fjarri heimilum sínum. „Sá eða sú sem heima situr er í hlutastarfi, í námi eða er einfaldlega heimavinnandi og sér um börn og bú. Það er með öllu ótækt að refsa þessu fólki með því að afleggja samsköttunina“, segir í ályktuninni.
Að auki varaði þingið við gerviverktöku til sjós og beindi því til skattyfirvalda að fylgjast grannt með þeim málum, þar sem slíkt sé bæði „kolólöglegt“ og skaði réttindi sjómanna.
Þingið gagnrýndi jafnframt harkalega starfsemi erlendra tryggingafélaga á borð við Allianz og Bayern, sem hafi tekið háar þóknanir – allt að 25,8% fyrstu fimm árin – af lífeyrissparnaði íslensks launafólks. SSÍ krefst þess að Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið stöðvi slíka starfsemi og að ungt fólk verði sérstaklega varið gegn villandi markaðssetningu.
Einnig hvetur SSÍ til aukinna fjárveitinga til hafrannsókna. Bent er á í ályktun sambandsins að sjávarútvegur muni í framtíðinni verða fyrir áhrifum af fyrirséðum breytingum á umhverfi hafsins á norðurslóðum. Nauðsynlegt sé að efla rannsóknir til að meta áhrif þeirra breytinga á fiskistofna við landið.
Þingið lagði áherslu á að tryggt verði nægilegt fjármagn til endurnýjunar búnaðar Slysavarnarskóla sjómanna og áframhaldandi kennslu. „Slysavarnaskóli sjómanna var settur á laggirnar árið 1985. Síðan þá hefur slysum og banaslysum til sjós fækkað að miklum mun,“ segir í ályktuninni.
Þingið fagnaði einnig tilkomu öryggishandbóka og nýsköpunarverkefnisins ALDA-öryggi, sem nýtir stafrænar lausnir til að bæta öryggisstjórnun til sjós. Samhliða hvatti SSÍ til skipulagðra æfinga um borð og faglegrar nýliðafræðslu sem hluta af daglegu öryggisstarfi.
Mikil áhersla var lögð á að fækkun í áhöfn ógni öryggi sjómanna. Þingið krefst þess að stjórnvöld setji mönnunarreglur í samræmi við raunveruleg öryggissjónarmið og hætti að leyfa útgerðum að draga úr mannafla til að spara launakostnað. „Örþreyttur og ósofinn sjómaður er hættulegur sjálfum sér og öðrum,“ segir í ályktuninni.
Einnig var krafist rannsókna á hvíldaraðstöðu, hávaðamengun og loftgæðum um borð í fiskiskipum. Þingið minnti á mikilvægi þess að björgunarþyrla Landhelgisgæslunnar verði með fasta starfsstöð á Akureyri og að þrjár flughæfar þyrlur og tvær áhafnir með læknum séu ávallt til taks.
Þingið þakkaði Slysavarnaskóla sjómanna jafnframt fyrir áratugastarf í þágu öryggis og árvekni sjómanna.