Trillan Hvítá HF fékk óhefðbundið hlutverk í auglýsingabransanum í sumar þegar komið var fyrir 150 kílóa LED-skjá á dekki bátsins sem kynnti Milt fljótandi þvottaefni. Skjárinn blasti við vegfarendum í kringum Hafnarfjarðarhöfn og vakti bæði undrun og kátínu.
Auglýsingastofan Cirkus, sem stóð fyrir gjörningnum, hefur nú birt myndband sem sýnir Hvítá við kynningarstörf og sjá má í spilaranum hér fyrir ofan.
Skrýtin hugmynd
„Mér fannst þetta svolítið skrítin hugmynd,“ segir Guðlaugur Jónasson, skipstjóri Hvítár. Þetta var í fyrsta sinn sem hann tók þátt í auglýsingaverkefni en hann hefur stundað strandveiðar um árabil. „Félagi minn ætlaði upphaflega að taka þetta að sér, en mér leist ekki á að svona stór 150 kílóa skjár færi á bátinn hans.“ Varð það til þess að Guðlaugur bauð fram sinn bát í staðinn.
„Þetta var nú bara gaman og gekk ljómandi vel. Við settum kör í lestina til að tryggja stöðugleika,“ segir hann. Aðspurður hvað hann hefði sjálfur auglýst á skjánum ef hann hefði haldið áfram að sigla um með hann á dekkinu svaraði Guðlaugur án þess að hika: „Frjálsar, umhverfisvænar handfæraveiðar.“
Guðlaugur Jónasson skipstjóri við höfnina í Hafnarfirði en Hvítá HF er við landfestar að baki honum.
Ljósmynd/Aðsend
Leikur að orðum
Í tilkynningu Cirkus auglýsingastofu er útskýrt að ætlunin hafi verið að nálgast Milt þvottaefni á nýstárlegan hátt. Þó að orðið „fljótandi“ vísi til þess að þvottaefnið sé á fljótandi formi hafi þótt skemmtilegt að leika sér með orðið og setja auglýsinguna bókstaflega á flot. Þá hafi ætlunin verið að tengja þvottaefnið við náttúruna með skýrari hætti. „Með því að færa hreinleikaskilaboðin út á sjó var bæði leikið með íslenskt landslag og tenginguna við náttúrulegan ferskleika – eiginleika sem Milt hefur lagt áherslu á,“ segir í tilkynningunni.
Milt þvottaefni var fyrst sett á markað af sápugerðinni Frigg árið 1986 undir slagorðinu „Milt fyrir barnið,“ en þvottaefnið var þróað til að vernda viðkvæma húð.