c

Pistlar:

1. september 2022 kl. 21:30

Svanur Guðmundsson (svanur.blog.is)

50 ára afmæli 50 mílna fiskveiðilögsögu

Í dag 1. september eru 50 ár frá því að við Íslendingar færðum fiskveiðilögsögu okkur út í 50 sjómílur með reglugerð sem Lúðvík Jósepsson þáverandi sjávarútvegsráðherra setti. Áður hafði ríkisstjórn Ísland sett í lög einkarétt Íslands til nýtingar auðlindar á landgrunninu sem vel að merkja nær út fyrir 50 mílurnar. Enn áður (1948) hafði Alþingi samhljóða samþykkt lög um vísindalega verndun fiskimiða landgrunnsins.

 

Í tilefni dagsins kynnir forseti Íslands og sagnfræðingurinn Guðni Th. Jóhannesson bók sína Stund milli stríða. Í Morgunblaðinu í dag er einnig áhugaverð grein eftir Halldór B. Nellett, fyrrverandi skipherra hjá Landhelgisgæslunni, sem ber heitið Útfærsla fiskveiðilögsögunnar í 50 sjómílur 1972. Það er áhugavert að rifja upp þá sögu og verður spennandi að lesa bók Guðna Th. um hvað átti sér stað á bak við tjöldin. 

 

Árin fyrir útfærsluna, úr 12  í 50 sjómílna landhelgi, var fjöldi togara hér við land. Það voru 150 til 160 erlend skip frá Rússlandi, Austur- og Vestur-þýskalandi, Frakklandi, Spáni, Bretlandi auk íslenskra skipa. Þá veiddust 600 til 750 þúsund tonn af helstu nytjategundum við Ísland en nú er afli sömu tegunda um og yfir 400 þúsund tonn hjá íslenska flotanum.

 

Með útfærslunni jukust yfirráð okkar yfir eigin fiskimiðum og jafnframt gerðum við okkur ljóst að það var takmarkað hvað fiskimiðin gætu gefið mikið af sér. Á sama tíma var mikil aukning í skuttogurum hér við land sem sóttu á miðin sem erlendu togararnir höfðu verið á. Sjö árum áður eða í maí 1965 hafði Hafrannsóknastofnun verið sett á laggirnar og tók hún við hlutverki Fiskideildar Atvinnudeildar Háskólans. Með Hafrannsóknastofnun náðum við meðal annars að leggja fram rök máli okkar til stuðnings um að afli við Ísland væri takmörkuð auðlind og nauðsynlegt væri að stýra veiðum með vitneskju um afraksturgetu fiskistofna. 

 

Með aukinni sókn hér við land, sem kom með mikilli uppbyggingu togara og auknum rannsóknum, sáum við að sóknin var alltof mikil í okkar fiskistofna sem leiddi til þess að takmarkanir voru settar á veiðarnar og við það dró mikið úr afla. En sá tími, frá 1972 þar til að framsalið var lögfest 1994, var tími milli breytinga sem rannsaka þarf frekar af fræðimönnum og áhugamönnum um sjávarútveg. Rit Guðna er kærkomið innlegg í þessa umræðu alla..