Eitt mikilvægasta starfið

„Það er mjög auðvelt að vaxa og dafna í starfi hjá Árvakri. Þú færð tækifæri til að spreyta þig á ólíkum stöðum og í ólíkum verkefnum. Þú færð mikla hvatningu frá samstarfsfólki þínu og frá yfirmönnum. Þar sem við förum oft út fyrir kassann þá skiptir miklu máli að allir séu í sama liðinu. Þú færð að kynnast svo ótrúlega mörgu ólíku fólki, færð að hlusta á sögur þeirra og færð að segja frá þeim. Þetta geta verið hræðilegar sögur, aðdáunarverðar sögur og áhugaverðar.

Svo er líka þessi hugmynd að maður sé einhvern veginn að gera þetta samfélag að betri stað. Að maður sé að varpa ljósi á það sem skiptir máli, vandamál og eitthvað sem mætti betur fara. Og vonar svo að það verði bætt,“ segir Hólmfríður María Ragnhildardóttir blaðamaður Morgunblaðsins og kvöldfréttastjóri. „Hvort sem það er að knýja á um einhverjar breytingar eða að veita stjórnmálamönnum eitthvert aðhald. Og bara upp á lýðræðið og jafnvel bara tungumálið.“

Að finna tilgang

Starfsfólk Árvakurs fær faglegan stuðning í starfi sem dregur fram það besta í hverjum og einum. Hvatt er til listræns frelsis í efnistökum málefna og sjálfstæðis. Störf Árvakurs skipta máli fyrir samfélagið enda er fyrirtækið leiðandi afl í þjóðfélagsumræðunni.

Hjá Árvakri finnur starfsfólk tilgang með störfum sínum og veit að það getur haft áhrif á samfélagsumræðuna í gegnum störf sín. Prófarkalesarar Morgunblaðsins hafa lengi þótt einir helstu sérfræðingar um tungumálið sem fyrirfinnast í landinu og höfum við sem fjölmiðill áhrif á varðveislu íslenskunnar í gegnum það.

Góður blaðamaður veit að það er í hans hlutverki að leyfa röddum samfélagsins að hljóma. Því er svo mikilvægt að Árvakur hlusti á fólkið sitt. „Góður blaðamaður þarf að geta látið frásagnir viðmælandans skína í gegnum sitt ljós,“ segir Ásthildur Hannesdóttir verkefnisstjóri sem hefur fengið skemmtileg tækifæri til að láta ljós sitt skína þvert á deildir fyrirtækisins.

Alltaf á tánum

Anna Rún Frímannsdóttir blaðamaður Morgunblaðsins tekur í sama streng. „Heimurinn er að tengjast meira og fólk ætlast til þess að fá upplýsingar hratt og vel þannig að blaðamenn verða að vera alltaf á tánum og  kynna sér málefnin vel. Ég held að þetta sé eitt mikilvægasta starf sem þú finnur í dag,“ segir hún.  

Eitt af markmiðum Árvakurs er að fréttirnar nái til unga fólksins. „Sumir segja unga fólkið ekki hafa áhuga á fréttum eða stjórnmálum, því er ég ekki sammála. Mér þykir ótrúlega vænt um að fá að vera fulltrúi minnar kynslóðar í fjölmiðlum. Við unga fólkið fylgjumst með og það er hlutverk okkar að færa þeim efni sem þau hafa áhuga á,“ segir Hólmfríður.

Ef þú vilt starfa á vinnustað þar sem þú færð tækifæri til að verða leiðandi í þínu fagi og blómstra í starfi, þá bjóðum við þér upp á að sækja um vinnu hjá Árvakri hér.

Árvakur gefur út Morgunblaðið og rekur fréttavefinn mbl.is auk útvarpsstöðva. Morgunblaðið, sem var fyrst gefið út árið 1913, nær til 40% landsmanna í hverri viku og mbl.is, sem settur var í loftið árið 1998, er einn mest sótti vefur landsins og hefur verið það frá upphafi.

mbl.is