Frábær ferðafélagi

Audi Q7 sver sig í jeppaflóru Volkswagen. Er byggður á …
Audi Q7 sver sig í jeppaflóru Volkswagen. Er byggður á sama undirvagni og Porsche Cayenne og VW Touareg. Er þó lengri og fyrir vikið rásfastari og hreyfingarnar eru mýkri. mbl.is/Árni Sæberg

Allir þýsku lúxusbílaframleiðendurnir framleiða jeppa, en enginn þeirra gerði það fyrir árið 1997. Mercedes Benz kynnti M-Class jeppann árið 1997, BMW X5 jeppann 1999, Porsche Cayenne árið 2002 en Audi hóf ekki framleiðslu á Q7 jeppanum fyrr en árið 2005. Hann er enn af fyrstu kynslóð þó hann hafi fengið örlitla andlitslyftingu árið 2009.

Audi Q7 jeppinn sver sig í jeppaflóru Volkswagen fjölskyldunnar að því leyti að hann er byggður á sama undirvagni og Porsche Cayenne og VW Touareg. Hann er þó lengri en þeir báðir og fyrir vikið verður hann rásfastari á mikilli ferð og hreyfingar hans mýkri. Hann er þó ekki alveg eins lipur í stýringu né eins kattliðugur og hinir tveir og erfiðara er að leggja honum í stæði vegna lengdarinnar. Þeir eru þó allir svo góðir akstursbílar að ökumaður gleymir að um jeppa er að ræða og það á svo sannarlega við um Q7. Margur fólksbíllinn er mun stirðbusalegri.

Enn ein frábær dísilvélin

Langflestir Audi Q7 bílar sem selst hafa hér á landi síðustu ár eru með 3,0 l. dísilvél, en einmitt sú vél er sameiginleg með öllum þremur ofannefndum bílum. Í Audi Q7 er hún 240 hestöfl og 550 Nm í togi. Það er ekki annað hægt en að hrósa framleiðandanum fyrir þessa ágætu vél því þrátt fyrir ekki svo háa hestaflatölu hennar og stóran og þungan bíl þá togar hún svo svakalega að bíllinn verður sprækur fyrir vikið og aldrei fær maður á tilfinninguna að hann skorti afl. Þó væri vafalaust enn skemmtilegra að hafa 4,2 lítra dísilvélina fyrir framan sig og láta hana vinna á öllum sínum 335 hestöflum og 760 Nm togi.

Þriggja lítra dísilvélin er aðdáunarvert sparneytin og í reynsluakstri jeppans var meðaleyðsla 8,1 lítri og tæplega er hægt að biðja um minna fyrir stóran lúxusbíl. Vélin er tengd við 8 gíra Tiptronic sjálfskiptingu sem á sinn þátt í því að eyðsla bílsins er svo lág, en hún er eins og hugur manns og tryggir að bíllinn er ávallt í réttum gír fyrir bæði afl og eyðslu.

Audi Q7 er fríður bíll ásýndar, vart væri annað hægt komandi frá fagurri fjölskyldu Audi bíla. Hann er sannarlega kraftalegastur af jeppalínunni sem einnig samanstendur af Q5 og Q3 og að mati greinarhöfundar þeirra fallegastur. Með sína fimm metra í lengd stendur hann tignarlegur á vegi, háfættur og tilbúinn í flest ævintýri.

Að innan er hann sérlega glæsilegur eins og margur annar Audi bíllinn. Audi er þekkt fyrir sínar vel frá gengnu og vel skipulögðu innréttingar og ekki skaðar efnisvalið. Reynsluakstursbíllinn var með fallegum leðursætum sem ljúft var að sitja í og auðvelt var að finna bestu akstursstöðu með hjálp rafdrifinna stillinga. Aftursætin eru á braut og má auka enn við gott fótarýmið fyrir vikið.

Audi Q7 er sjö manna bíll svo þriðja sætaröðin stelur nokkuð frá farangursrýminu þó sætin leggist niður og myndi alveg sléttan flöt. Fyrir vikið er Q7 með minna skott en búast mætti við í svo stórum bíl. Rými framar í bílnum er annars yfrið og hrikalega vel fer um alla farþega. Mjög gott hljóðkerfi er í bílnum og svo má alltaf gera það enn betra með því að panta aukalega 1001 watta Bang & Olufsen kerfi. Bíllinn er svo hlaðinn af búnaði að engin leið er að greina frá broti af því hér, en við því má búast í lúxusbíl sem þessum.

Að aka Audi Q7 er mikil ánægja, lipurð hans er meiri en búast mætti við af myndarlegum jeppa og fjöðrunin sem er sjálfstæð á öllum hjólum er mjög fín. Bíllinn fer fagmannlega með allar beygjur og hallar lítið meðan á því stendur. Hægt er að fá Q7 með loftpúðafjöðrun sem vafalaust gerir hann enn betri og þá má hækka hann og lækka fyrir allar hugsanlegar aðstæður. Þannig búinn má lækka bílinn þegar hlaðið er aftan í hann með takka sem finna má rétt innan afturhurðar. Bíllinn er mjög hljóðlátur að innan og aldrei þarf að hækka rödd sama hvað á gengur í vélarhlífinni eða á hraðamælinum.

Eiginleikar sem margir sækjast eftir

Akstur Q7 er mýkri en í systurjeppum hans úr VW fjölskyldunni. Ef til vill er stilling hans hvað fjöðrun varðar einmitt það sem flestir sækjast eftir sem vilja eiga lúxusjeppa. Því er hann frábær ferðafélagi og hreinn unaður að fara á honum út á land. Það er engin tilviljun að flestir kjósi Q7 með 3,0 l dísilvélinni, hún er frábær, eyðslugrönn, aflmikil og hljóðlát. Engin ástæða er að leita eftir hærri hestaflatölum í stærri dísilvélinni eða bensínvélunum, en hver hefur sinn smekk.

Víðfrægt fjórhjóladrif Audi ásamt ýmsum akstursaðstoðarkerfum gerir Q7 af fullfærum jeppa við erfiðar aðstæður þó jöklaferðir séu frekar á færi breyttra bíla á risadekkjum. Það er fáránleg staðreynd að Audi Q7 er örfáum sentimetrum styttri en Cadillac Escalade og er með lengra milli hjóla, en er samt eins og lipur fólksbíll í akstri. Svo vel tókst Audi til með þennan jeppa.

Audi er þekkt fyrir góðar innréttingar og ekki skaðar efnisval. …
Audi er þekkt fyrir góðar innréttingar og ekki skaðar efnisval. Reynsluakstursbíllinn var með fallegum leðursætum sem ljúft var að sitja í. mbl.is/Árni Sæberg
Audi Q7 er með þriggja lítra sparneytna dísilvél. Í reynsluakstri …
Audi Q7 er með þriggja lítra sparneytna dísilvél. Í reynsluakstri var meðaleyðsla 8,1 l. og tæplega hægt að biðja um minna í stórum lúxusbíl. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina