Þægilegur vinnubíll í nýrri útgáfu

Morgunblaðið/Njáll Gunnlaugss

Renault Kangoo kom fyrst fram á sjónarsviðið 1997 en önnur kynslóð hans var kynnt árið 2008. Nýlega var hann kynntur í nýrri útfærslu og fékk í leiðinni andlitslyftingu. Framstuðari og grill var endurbætt ásamt nýjum ljósum og speglum. Það sem mest áhersla var lögð á við þessar breytingar var frágangur bílsins í samsetningarferlinu. Lögð var áhersla á betri suðu í samsetningu og meiri frágang á yfirbyggingu til að þétta bílinn betur og gera hann hljóðlátari. Þetta virðist hafa tekist, allavega var það tilfinning blaðamanns við reynsluakstur hans um helgina.

Hátt til lofts

Eins og búast má við situr maður frekar uppréttur í Kangoo-sendibílnum og tilfinningin er að það sé nóg pláss í kringum mann vegna þess hve hátt er til lofts. Þar er líka góð hilla sem rúmar jafnvel nokkuð stóra hluti eins og smákassa og þess háttar. Fótaplássið er reyndar af skornum skammti fyrir bílstjóra og hætt við að stórfættir ættu í erfiðleikum með pedalana. Eins og fram hefur komið er farþegarými vel einangrað og það heyrist ekki mikið í bilnum í akstri af sendibíl að vera. Búnaður er þokkalegur eins og loftkæling og fjarstýrt útvarp, sem reyndar mætti vera betur staðsett. Erfitt er að eiga við takka þar sem gírstöng er rétt fyrir framan auk þess sem takkar eru litlir og óhentugir. Þess vegna er þægilegra að nota fjarstýringuna hægra megin við stýrið. Öðru máli gegnir um annan stjórnbúnað í bílnum sem er vel fyrir komið og þægilegt að nota stuttarma stefnuljósa- og rúðuþurrkuarma. Frágangur og efnisval virðist vera nokkuð gott fyrir sendibíl og er laust við skrölt. Vinnurými er aðgengilegt og kostur að hafa stórar rennihurðir báðum megin. Líkt og á öðrum svipuðum vinnubílum er hægri afturhurðin minni og opnast báðar 180 gráður út. Topplúga að aftan er staðalbúnaður sem og sá möguleiki að leggja niður farþegasæti framm í til að auka flutningsrými.

Fólksbílalegur í akstri

Þar sem að Kangoo er byggður á undirvagni Scenic er hann að sumu leyti líkari fólksbíl í akstri. Samt er hann meiri sendibíll en fólksbíll enda hannaður sem slíkur. Hann er dálítið kubbslegur að sjá og þá sérstaklega að framan og dekkin utarlega til að búa til meira rými. Það er kostur hvað bíllinn leggur vel á svo að óhætt er að hrósa honum fyrir að vera lipur í snúningum. 1,5 lítra dísilvélin gefur gott og jafnt tog þrátt fyrir að vera ekki öflug og dugar honum örugglega vel, jafnvel fulllestuðum. Með Stop&Go-búnaði er búið að ná eyðslunni og mengunargildinu niður og er eyðsla í blönduðum akstri aðeins 4,3 lítrar sem er gott fyrir vinnubíl. Fjöðrun virðist líka vera slaglöng og var alveg laus við að slá saman á hraðahindrunum. Útsýni fram á við er með besta móti enda rúður stórar en það mætti gjarnan vera gluggi í hliðarhurðinni vinstra megin til að auka öryggi.

Hörð samkeppni í flokknum

Samkeppnin á markaði lítilla sendibíla eins og Kangoo er hörð og nokkrir um hituna. Mercedes-Benz Citan er í grunninn sami bíll og Kangoo fyrir utan annan framenda en grunnverð hans er hins vegar hærra, eða 3.490.000 kr. Grunnverð vinsælasta sendlabílsins er 3.090.000 kr. fyrir VW Caddy, reyndar með minni vél, en með stærri vélinni er hann einnig á 3.490.000 kr. Loks er að telja Citroën Berlingo Van sem byrjar í 3.190.000 kr. Renault Kangoo er á nákvæmlega sama grunnverði sem verður að teljast nokkuð gott verð samkeppnislega. Því verður að bera saman vélar og búnað í þessu sambandi til að fá réttan samanburð.

njall@mbl.is

Morgunblaðið/Njáll Gunnlaugss
Morgunblaðið/Njáll Gunnlaugss
Morgunblaðið/Njáll Gunnlaugss

Bloggað um fréttina