Reffilegur R-Design frá Volvo

17
17" álfelgur, állitaðir hliðarspeglar, R-Design-framstuðari og -grill eru meðal ástæðna þess að bíllinn er hinn reffilegasti að sjá. Skínandi kaup fyrir innan við fimm milljónir króna. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Sú var tíðin að Volvo stóð fyrir örugga bíla með ferkantað útlit. Hin seinni ár hefur útlitið allt orðið straumlínulagaðra og sportlegra þótt hvergi hafi verið slegið af örygginu nema síður sé.

Meðal módela í vörulínu Volvo er að finna V40-bílinn sem þegar hefur verið fjallað um á þessum vettvangi. Hér er komin svokölluð R-Design-útfærsla sem er aðallega útlitslegs eðlis en engu að síður bráðvel heppnuð og vel peninganna virði.

Laglegur að innan sem utan

Núverandi kynslóð Volvo-bíla er í það heila ákaflega vel heppnuð, þvert á allar týpur og V40 er þar ekki undanskilinn. Það er hins vegar skínandi hugmynd að gefa honum sportlega andlitslyftingu og bjóða þá útgáfu sem valkost án stórkostlegs viðbótarkostnaðar, en V40 R-Design kostar ekki nema um 300.000 krónum meira en V40. Eins og gefur að skilja er vélin þar með sú sama, enda kosta meiri háttar uppfærslur á henni yfirleitt töluvert meira. Það breytir því ekki að R-Design er stórskemmtileg útfærsla. Í pakkanum felast meðal annars sérstakur R-Design grill- og framstuðari með sportlegum LED-dagljósum, 17" Ixion-álfelgur, sportfjöðrun (sem er hreint fyrirtak, mátulega stíf en étur samt ójöfnur tiltölulega átakalaust), reffileg sportsæti úr nubuck-leðri og taui, tvöfalt pústkerfi og svert leðurstýri, snaggaraleg gírstöng og álpedalar. Allt í allt „lúkkar“ bíllinn hörkuvel og sem fyrr segir er uppfærslan furðanlega billeg. Hrós fer því á Brimborg fyrir að smyrja ekki meira á hana en þörf er á.

Sportlegir aksturseiginleikar

Jafnvel þótt vélin sé söm við sig miðað við hefðbundinn V40 (1,6 l dísel, 115 hestöfl) þá vinnur beinskiptur sex gíra gírkassinn alveg stórvel og bíllinn rýkur áfram þegar slegið er í. Togið er 285 Nm. og það fær ökumanninn ósjálfrátt til að brosa þegar hann rýkur af stað. Beygjuradíusinn, fjöðrunin, framúrskarandi meðfærileiki í beygjum og síðast en ekki síst sparneytnin (V40 R-Design eyðir aðeins 3.7L / 100 km) gera bílinn að fínum kosti þegar velja á lipran borgarbíl sem er nógu skemmtilegur í akstri. Þá er stafrænt mælaborðið stórskemmtilega af hendi leyst, en það má gefa því þrjá mismunandi prófíla; dimmbláan Elegance sem vilja virðulegt yfirbragð, grænan ECO fyrir umhverfismeðvitaða ökumenn og þá eru stillingar með augun á vistvænum akstri, eða þá rauðan Sport-prófíl. Þá er aðalskífan orðin snúningshraðamælir með tölustafahraðamæli í miðjunni. Bíllinn dregur því hæglega dám af ökumanninum hverju sinni. Fínn fídus sem mun eflaust sjást í auknum mæli eftir því sem mælaborð verða í auknum mæli stafræn. Hljómtækin eru þá algert dúndur með átta hátölurum og 4x50 W mögnurum.

Beinskiptur gírkassinn er almennt til fyrirmyndar sem fyrr sagði og mjög gaman að keyra V40 R-Design. Þá er knallstutt gírstöngin afskaplega meðfærileg og stuttur hnykkur milli gíra þegar kemur að því að skipta, eins og vera ber í sportbíl. Þó er dálítið bil milli 2. og 3. gírs og þarf að skipta niður ef bíllinn fer niður fyrir 50 km/klst hraða því þá ræður hann trauðla við 3. gírinn.

Loks er hnappur í mælaborðinu sem setur start/stop-kerfi í gang sem slekkur á bílnum sé hann kyrrstæður í hlutlausum gír; hann fer svo í gang aftur þegar stutt er á kúplinguna. Stór plús fyrir það í ekki dýrari bíl. Þá er CO2-gildið ekki nema 96g / km sem er til fyrirmyndar.

Allt í allt er hér um að ræða hörkuskemmtilegan og flottan bíl og óhætt að segja að fyrir 4.890.000 krónur fái kaupandinn ríflega fyrir peninginn.

jonagnar@mbl.is

Mælaborðið er allt hið haganlegasta og öllu vel fyrir komið. …
Mælaborðið er allt hið haganlegasta og öllu vel fyrir komið. Hér er það stillt á rauðan Sportprófíl, eins og sjá má. Mörgum skipunum er komið fyrir í fáum tökkum og er það vel. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson
Sérstakur R-Design-afturstuðari og tvöfalt pústkerfi ljær bílnum skemmtilegan svip.
Sérstakur R-Design-afturstuðari og tvöfalt pústkerfi ljær bílnum skemmtilegan svip.
Plássið er gott fyrir fullorðna aftur í og þar geta …
Plássið er gott fyrir fullorðna aftur í og þar geta þrír hæglega komið sér fyrir. Séu aðeins tveir á ferð býður R-Design upp á niðurfellanlegan armpúða í miðjunni. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson
Hliðarsvipurinn er straumlínulagaður og V40 R-Design er flottur að sjá …
Hliðarsvipurinn er straumlínulagaður og V40 R-Design er flottur að sjá frá öllum sjónarhornum. Loftflæðilínurnar gera líka heilmikið til að gefa honum sportlegan svip. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson
Þótt vélin sé söm við sig miðað við hefðbundinn V40 …
Þótt vélin sé söm við sig miðað við hefðbundinn V40 (1,6 l dísel, 115 hestöfl) þá vinnur beinskiptur sex gíra gírkassinn alveg stórvel. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson
Volvo V40 D2 R-Design.
Volvo V40 D2 R-Design. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »