Hilmir snýr heim

Toyota Land Cruiser 200 er landanum að góðu kunnur og …
Toyota Land Cruiser 200 er landanum að góðu kunnur og hefur engu gleymt síðan hann sást hér síðast – stæðilegur að sjá og öflugur. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Það var áhugamönnum um jeppa og lúxusbíla – nema hvorttveggja væri – talsvert áfall þegar út spurðist að vegna mengunarstaðalsins Euro 6 væri ekki lengur unnt að bjóða upp á Toyota Land Cruiser 200 hér á landi.

Er vart ofmælt að halda því fram að harmur hafi verið að þeim kveðinn. Land Cruiser hefur verið ástmögur íslensks jeppafólks um áratuga skeið og harðasti kjarni aðdáendanna lítur satt að segja fremur á bílinn sem trúarbrögð en bíltegund. Það er út af fyrir sig ekki galnari átrúnaður er hver annar; hamingjan veit að feikinóg er til af kolgeggjuðum og eftir því skaðlegum trúarbrögðum í henni veröld og Land Cruiser er ekki verri gullkálfur en hver annar. En það er allt önnur saga.

Í ljósi framangreinds harms yfir brotthvarfi nýrra Land Cruiser 200 þarf ekki að koma á óvart að kliður hafi farið um bæinn þegar út spurðist að Toyota í Kauptúni hefði fengið nokkra bíla til landsins og því ástæða til að taka einn slíkan til kostanna enda bíllinn breyttur bæði að útliti og innviðum. Óhætt er að segja að hann hafi vakið athygli á götum borgarinnar enda sjá lærðir „krúserar“ samstundis að útlitið er uppfært ásamt því að bíllinn skartar skoðunarlímmiða sem ber ártalið 20.

Er hann virkilega kominn heim? Glápustuðullinn var geysihár meðan rúntað var um götur Reykjavíkur og nágrennis.

Hófstilltar útlitsbreytingar

Jú, ekki ber á öðru, þetta er glænýr bíll. Eins og haukfrán augu áhugafólks um Land Cruiser-jeppa (og þau er ótalmörg hér á landi) nema þegar í stað er búið að breyta framgrillinu og þar með ásjónu bílsins. Afturljósin hafa líka fengið smekklega útlitsuppfærslu og þarna liggja klókindi hönnuða Toyota; hverju breytirðu til að flikka upp á ásýnd bíls án þess að breyta honum að teljandi ráði? Jú, einmitt þessu tvennu framangreindu. Einnig má nefna að húddið hefur fengið nýtt lag og gegnum framrúðuna séð má lýsa því sem svo að tveir upphækkaðir hryggir liggi frá stýrishúsinu og langsum fram að brún og milli þeirra séu skil eða dalur. Þetta gefur bílnum stæltan svip og var hann þó enginn aukvisi fyrir. Að öðru leyti er hann í flestu að sjá eins og 200-bíllinn sem við eigum að venjast en það er sú kynslóð sem kynnt var til sögunnar á því herrans ári 2007. Annars er gaman að geta þess að á þessu ári eru liðin heil 65 ár síðan Toyota kynnti fyrsta Land Cruiserinn og fer vel á því að fá nokkur eintök af 200-bílnum til landsins. Þeir sem ná að festa sér eintak geta litið á bílinn sem afmælisgjöf til þeirra sjálfra í tilefni af 65 ára afmæli þessa vinsæla og veglega jeppa.

Veglegt innandyra en einfaldað um of?

Að innan er Land Cruiser 200 sama óðalssetrið og við þekkjum, hlaðinn búnaði og drifgetu að sama skapi. Hér er meðal annars að finna Crawl Control-búnaðinn sem gerir Land Cruiser kleift að fikra sig – hreinlega skríða – upp og áfram um verulega ójafnar og erfiðar aðstæður. Undirritaður reyndi búnaðinn í Land Cruiser 150 síðasta haust, meðal annars eftir stórgrýttum árfarvegi, og þótti mikið til koma en ekki gafst færi á að reyna búnaðinn í 200-bílnum sem hér er til skoðunar. Engu að síður þykist ég nokkuð viss um að á vísan sé þar að róa, með hliðsjón af því hvernig gekk síðast.

Efnisval er allt til stakrar fyrirmyndar og má líka vera það fyrir verðmiðann. Nokkuð er búið að einfalda viðmót ökumanns hvað tækjabúnað í stjórnborðinu varðar og er það mestanpartinn vel. Þó reyndist þrautin þyngri að finna leiðina til að til auka og minnka blásturinn í miðstöðinni, nokkuð sem verður að blasa við hér á landinu bláa.

Á vegi er Land Cruiser 200 það sem kalla mætti „malbikssnekkju“ því hann heldur kúrs eins og djúprista kjölur ríghaldi honum við veginn, og þegar hann tekur stímið svífur hann seglum þöndum. Þetta er að sönnu risastór bíll, þungur um umfangsmikill, en dúndurgóð dísilvélin skilar feikinægu afli til hjólanna svo hann brunar af stað með þéttu, þungu og traustvekjandi vélarhljóði sem staðsetur sig einhvers staðar á milli lúxussnekkju og Panzer-skriðdreka.

Gæðastallinn hár og það er uppstigið reyndar líka

Það er því óhætt að segja að markið hefur að venju verið sett hátt í þessum jeppa og gæðastaðall allur hár. En á meðan aðrir lúxusjeppar – nefni sem augljóst dæmi Audi Q7 – hafa fikrað sig nær því að vera lúxusbíll og fjær því að vera jeppi er Land Cruiser 200 trúr uppruna sínum og þar af leiðandi refjalaus jeppi. Fyrir bragðið er talsvert hátt að stíga upp í hann og út aftur og óvanir þurfa að leggja í talsverða fyrirhöfn við að komast inn og út. En fyrir alla þá sem lyfta fæti nokkuð átakalaust er þetta ekki vandamál.

Eins og við er að búast drekkur svona hlemmur þó nokkuð, einkum þegar haft er í huga hvaða lægðum nýir bílar hafa verið að ná í eldsneytiseyðslu á síðustu mánuðum og misserum. Fyrir 15 árum hefði þótt stórbrotið afrek að geta boðið upp á Land Cruiser 100 með eyðslu undir 18 lítrum á hundraðið (þeir bílar gleypa hálfan þriðja tuginn í innanbæjarakstri) en í dag er öldin önnur og viðmiðin eftir því breytt. Land Cruiser 200 er gefinn upp með um 13 lítra í blönduðum akstri, undirritaður náði honum best í 16 lítrana en það var innanbæjar með eyðslustýringuna gangsetta milli bæjarfélaga. Þá er 3. sætaröðin þessleg að helst hæfir börnum og unglingum; fótarýmið þar er heldur takmarkað.

Hversu margir Land Cruiser 200 bílar liggja nákvæmlega á lager hjá Toyota á Íslandi þekkir greinarhöfundur ekki en ljóst má vera að ef þeir tilheyra sértrúarsöfnuðinum áðurnefnda og eru aflögufærir um 20 kúlur eða svo er hér fágætt tækifæri til að fagna téðu 65 ára afmæli. Land Cruiser ber aldurinn nefnilega framúrskarandi vel.

Bensínvélin rýkur í gang með urri og gefur frá sér …
Bensínvélin rýkur í gang með urri og gefur frá sér þétt og traustvekjandi hljóð meðan ekið er. mbl.is/Ófeigur Lýðsson
Hægt er að bjóða upp á sæti í skottrými en …
Hægt er að bjóða upp á sæti í skottrými en þau eru knöpp og farangursrýmið fyrir bragðið skert. mbl.is/Ófeigur Lýðsson
Grindin í framgrillinu er greinilega breytt – nógu mikið til …
Grindin í framgrillinu er greinilega breytt – nógu mikið til að örva hjartsláttinn hjá hinum hreintrúuðu sem ráku margir upp stór augu. mbl.is/Ófeigur Lýðsson
Nokkuð er búið að einfalda viðmót ökumanns og mælaborð. Er …
Nokkuð er búið að einfalda viðmót ökumanns og mælaborð. Er það vel enda búnaðurinn viðamikill. mbl.is/Ófeigur Lýðsson
Afturljósin hafa líka verið uppfærð snyrtilega frá síðustu kynslóð, nógu …
Afturljósin hafa líka verið uppfærð snyrtilega frá síðustu kynslóð, nógu mikið til að tekið sé eftir því. Minna er nefnilega meira, stendur þar. mbl.is/Ófeigur Lýðsson
Að innan er Land Cruiser 200 sama óðalssetrið og
Að innan er Land Cruiser 200 sama óðalssetrið og mbl.is/Ófeigur Lýðsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: