Króatíska undrið

Þeir sem hafa fengið að prófa eru gáttaðir á hversu …
Þeir sem hafa fengið að prófa eru gáttaðir á hversu kröftugur bíll Rimac Concept_One er. Hann getur farið 500 km á einni hleðslu og er 2,8 sekúndur í hundraðið. Verðið er ein milljón dala.

Ég sest upp í leigubílinn í Zagreb og ekki laust við að leigubílstjórinn ljómi þegar hann heyrir hvert ferðinni er heitið: til bílaframleiðandans Rimac. Króatarnir eru stoltir af þessu djarfa og unga fyrirtæki sem framleiðir rafmagns-ofurbílinn Concept_One.

Miroslav Zrncevic, fyrrverandi kappaksturskempa og fjölmiðlafulltrúi Rimac, segir fyrirtækið geta hreykt sér af því að geta boðið upp á störf sem eru við hæfi hæfileikaríks ungs fólks með menntun á sviði verkfræði, tækni og hönnunar. Eftir að Króatía gekk í Evrópusambandið hefur landið glímt við þann vanda að rjóminn af æsku landsins streymir til ríkari svæða álfunnar þar sem betri laun eru í boði.

Fyrirtæki í örum vexti

Mate Rimac, stofnandi fyrirtækisins, var ekki fáanlegur í viðtal með stuttum fyrirvara en Miroslav hljóp í skarðið. Leiðir þeirra félaga lágu saman í kappakstrinum, þegar Mate var aðeins ungur maður með bíladellu og afburðanemandi á sviði rafmagnsverkfræði. „Þegar ég er ráðinn til fyrirtækisins fyrir tveimur árum voru starfsmennirnir ekki mikið meira en 30 eða 40 talsins en núna erum við orðin 200 og höldum áfram að vaxa með sama hraða,“ segir Miroslav.

Það gerir árangur Rimac enn merkilegri að Króatía á sama sem enga sögu á sviði bílaframleiðslu og ekki heldur hægt að segja að landið sé þekkt fyrir hátæknifyrirtæki. Miroslav segir árangurinn skrifast á metnað og persónuleika Mate Rimac, og að hann sé ólíkur öllum öðrum stjórnendum. „Hann er leiðtogi, frekar en yfirmaður. Honum hefur tekist að laða til fyritækisins fólk sem fylkir sér á bak við ákveðna hugsjón frekar en að hugsa fyrst og fremst um launaseðilinn. Að því sögðu þá hefur það verið áskorun að finna rétta fólkið og áður en við komum til sögunnar fólust einu tengsl Króatíu við bílaiðnaðinn í því að smíða plasthluti fyrir suma stóru framleiðendurna.“

Draumsýn Riac smitaði fljótlega út frá sér: „Þegar Rimac Automobilie varð til var það eins og lítið ljós í myrkrinu fyrir bestu nemendur verkfræðideilda háskóla landsins sem sáu annars fram á að þurfa að flytja úr landi til að finna sér góða vinnu. Úr varð hópur með mikinn metnað og getu, og við gátum gert á nokkrum mánuðum hluti sem venjulega tæki mörg ár að ljúka.“

Frumútgáfa Concept_One rafmagnsbílsins var frumsýnd á bílasýningunni í Frankfurt en bíllinn birtist í sinni endanlegu mynd á bílasýningunni í Genf í vor. Hefur Concept_One vakið verðskuldaða athygli enda sérdeilis fallegur og einstaklega hraðskreiður bíll. Stúlkan í móttökunni, sem einnig heldur utan um alla tölvupósta sem berast, sagðist núna fái reglulega skeyti frá áhugasömum unglingum um allan heim sem eiga þann draum heitastan að komast í vinnu hjá Rimac.

Milljón dollara auglýsingaskilti

Þó að framleiðsla Concept_One sé hjartað í rekstri Rimac þá segir Miroslav að bíllinn gegni þó helst því hlutverki að vera mjög hraðskreitt milljón dollara auglýsingaskilti. Megnið af tekjum fyrirtækisins komi í gegnum hönnun og smíði ýmissa parta fyrir aðra bílaframleiðendur og verða aðeins framleidd átta eintök af Concept_One.

„Við getum ekki tjáð okkur um flest þau verkefni sem við erum að vinna fyrir aðra bílaframleiðendur, en þetta eru stór verkefni og viðskiptavinirnir rótgróin fyrirtæki. Það má segja að þau úthýsi rannsóknum og þróun til okkar því það er hagkvæmara en ef þau myndu reyna að byggja upp svona öfluga þróunardeild innanhúss. Concept_One er bara toppurinn á ísjakanum og ótalmargt annað í gangi sem við getum ekki sagt frá.“

Þegar stórhuga menn fá þá flugu í höfuðið að framleiða fallega bíla þá gengur peningahliðin ekki alltaf upp og ævintýrin reynast skammlíf. Er skemmst að minnast DeLorean Motor Company og Fisker Automotive sem fóru á hliðina þrátt fyrir að hafa tekist að smíða ökutæki sem mörkuðu spor í bílasöguna. Ekki þarf að hafa neinar slíkar áhyggjur af Rimac. „Fjárfestaranir sem komu inn í reksturinn á fyrstu stigum högnuðust vel og eftir nokkra mánuði ljúkum við annarri fjármögnunarlotu. Í dag er fyrirtækið metið á yfir 70 milljón dali,“ segir Miroslav. „Þetta er auðvitað áhættusamur geiri, og maður veit aldrei úr hvaða átt næsta góða hugmynd kemur sem gæti gjörbreytt rekstrarforsendunum. Við leystum þennan vanda á vissan hátt með því að búa til okkar eigin markað. Fólk ber Rimac stundum saman við Tesla, en ég held það sé ekki rétt: við höfum mikið álit á Tesla og rafbílunum sem þar eru smíðaðir en okkar svið er að gera raknúin ökutæki í ofurbílaflokki.“

Vilja ekki gera venjulega bíla

Hvað kemur næst? Miroslav segir stefnuna setta á að smíða annan ofurbíl sem verður enn hraðskreiðari en líka meira rúmgóður. Ólíkt Concept_One ætti því að vera eitthvert pláss undir húddinu fyrir eins og eina litla farangurstösku og enn meira verður notað af koltrefjum í burðargrindina. „Framtíðin hjá Rimac er að gera bílana hraðskreiðari og öflugri, og kannski eftir þrjár eða fjórar kynslóðir að gera sportbíl fyrir almennari hóp kaupanda. Við ætlum okkur hins vegar ekki að gera venjulega fólksbíla.“ai@mbl.is

Útlitið getur hæglega keppt við fallegustu ítölsku sportbíla.
Útlitið getur hæglega keppt við fallegustu ítölsku sportbíla.
Aðeins verða framleidd átta eintök af Concept_One og í sumar …
Aðeins verða framleidd átta eintök af Concept_One og í sumar voru bara tveir óseldir.
Litir og efni hvers einasta Concept_One eru valin í nánu …
Litir og efni hvers einasta Concept_One eru valin í nánu samráði við hvern kaupanda.
Miroslav Zrncevic, fjölmiðlafulltrúi Rimac, segir hægt að lýsa Concept_One sem …
Miroslav Zrncevic, fjölmiðlafulltrúi Rimac, segir hægt að lýsa Concept_One sem milljón dollara auglýsingaskilti fyrir tæknifyrirtækið.
Mate Rimac á gömlum BMW sem hann breytti í eldsnöggan …
Mate Rimac á gömlum BMW sem hann breytti í eldsnöggan rafmagnsbíl. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þá og í dag er hátæknifyrirtækið og bílaframleiðandinn Rimac Automobili metið á 70 milljónir dala.
Í sýningarsal Rimac.
Í sýningarsal Rimac.
Í bílsmiðju Rimac.
Í bílsmiðju Rimac.
Miroslav Zrncevic segist enn hafa verið „bensínhaus“ þegar hann var …
Miroslav Zrncevic segist enn hafa verið „bensínhaus“ þegar hann var ráðinn til Rimac. Nú er hann sannfærður um að rafmagnið er framtíðin.
Mate Rimac, stofnandi fyrirtækisins, þykir einstaklega snjall og einnig framúrskarandi …
Mate Rimac, stofnandi fyrirtækisins, þykir einstaklega snjall og einnig framúrskarandi stjórnandi.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: