Ástarsaga úr fjöllunum

Á malarslóða uppi í fjöllunum einhvers staðar á leiðinni frá …
Á malarslóða uppi í fjöllunum einhvers staðar á leiðinni frá Písa til Mílanó. Levante hæfði blaðamann í hjartastað og er þægilegur, lipur en umfram allt glæsilegur jeppi. Ljósmynd / Youssef Diop

Sagðirðu silki?“ spurði ég fjölmiðlafulltrúann. „Já, bíllinn er klæddur að innan með silki. Frá Ermenegildo Zegna,“ svaraði hann. „Þeir geta verið alveg dæmalausir þessir Ítalir,“ hugsaði ég með mér og glotti.

Jeppaáhugamenn fengu að bíða í fimm ár eftir Maserati Levante. Ítalski sportbílaframleiðandinn kynnti þennan föngulega lúxusjeppa fyrst á bílasýningunni í Frankfurt árið 2011 sem hugmyndabílinn Kubang. Flestir voru sammála um að Kubang lofaði góðu og jókst tilhlökkunin í hvert skipti sem nýjar myndir og teikningar af væntanlegum Maserati-jeppa birtust á netinu. Loks kom Levante á markað árið 2016.

Koma má fyrir skipulagsfestingum í rúmgóðu og aðgengilegu skottinu.
Koma má fyrir skipulagsfestingum í rúmgóðu og aðgengilegu skottinu.


Ég er örugglega ekki einn um að hafa hugsað sem svo að þarna væri kominn jeppinn fyrir mig, ef ég hefði einhvern tíma efni á jeppa. Levante hefur jú útlitið með sér, með vígalegan þríforkinn á stóru grillinu, og mjúkar en kraftalegar útlínur. Hann vantar heldur ekki aflið, með 275 hestafla V6 dísilvél. (Þeir sem vilja meira geta pantað rúmlega 420 hestafla bensínvél.) Síðast en ekki síst er Levante hæfilega fágætur: ef maður á dýran og fallegan bíl vill maður helst að hann sé sá eini sinnar gerðar á götunum og hitti ekki fyrir tvíburabræður sína í hvert skipti sem stoppað er á rauðu ljósi.

Umvafinn lúxus

En stóð draumajeppinn undir væntingum?

Í það minnsta fór hartað að slá örar um leið og ég sá þennan hvíta dreka bíða eftir mér fyrir utan höfuðstöðvar Maserati í Modena. Það er mikil reisn yfir Levante og þetta er jeppi sem fólk tekur eftir. Í fegurðarsamkeppni á milli Porsche Cayenne, Range Rover og jafnvel Bentley Bentayga hugsa ég að Levante myndi vinna, og hann stóðst „glápuprófið“ með ágætum á götum Písa og Mílanó.

Þeir sem vilja meira en 275 höstöfl geta fengið 420 …
Þeir sem vilja meira en 275 höstöfl geta fengið 420 hestafla bensínvél.


Þegar sest er inn í bílinn er heldur ekki yfir miklu að kvarta. Prufubíllinn var í lúxusútgáfu, og fylgir þá m.a. Zegna-áklæðið með. Á stöku stað mátti sjá glitta í plast en að öðru leyti er innanrýmið íburðarmikið. Bowers & Wilkins-hljómtækin fylla farþegarýmið vel, bassinn lætur innyflin titra, og sáralítið vegahljóð berst til eyrna. Leiðsögukerfið er tiltölulega lipurt en reyndar gerðist það þegar líða tók á fyrsta akstursdaginn að einhver villa kom upp á milli bíltölvunnar og farsímans sem ég hafði tengt við græjurnar. Hljóðinu sló út og virtist ekki hægt að laga. Var þó allt orðið aftur eins og það átti að vera þegar ég ræsti bílinn morguninn eftir.

Falsað en fagurt hljóð

Í akstri leynir sér ekki að Levante er kominn af sportbílum. Vitaskuld verður 2.200 kg dísiljeppi seint eins og elding á veginum en kraftarnir eru til staðar og bíllinn þýtur af stað ef þess er óskað. Undir húddinu er jú vél smíðuð af Ferrari.

Baksvipurinn er ekki amalegur. Hlutföllin virðast öll vera hárrétt.
Baksvipurinn er ekki amalegur. Hlutföllin virðast öll vera hárrétt.


Ef gluggarnir eru skrúfaðir niður heyrist alvöru sportbílahljóð frá afturhluta bílsins. Hljóðið er samt ekki alveg ekta, heldur hefur verið galdrað fram með sérstökum búnaði við púströrið sem magnar upp fegurstu tónana frá vélinni og breytir í samræmi við akstursstíl ökumannsins. Verkfræðingar og markaðsfólk Maserati gerðu sér fulla grein fyrir að kaupendurnir myndu hafa lítinn áhuga á dísilvélahljóði.

Eins og vera ber er hægt að stilla aksturseiginleikana á ýmsa vegu, hækka og lækka bílinn, og skipta um gíra með blöðkum á stýrinu, en á venjulegum akstri á dæmigerðum vegi er erfitt að greina nokkurn mun nema menn séu með þeim mun næmari þjóhnappa. Utanvegar er breytingin greinilegri og með því að ýta á nokkra hnappa umbreytist Levante úr sprækum hraðbrautarbíl í jeppa sem kallar ekki allt ömmu sína.

Alls kyns tækni auðveldar aksturinn. Ljósabúnaðurinn er mjög fullkominn og lagar sig að birtuskilyrðum hverju sinni. Bíllinn sem ég fékk að láni var með myndavélum allan hringinn og kom sér mjög vel þegar þurfti að leggja þessum stóra bíl í þröng ítölsk bílstæði. Myndavélin framan á bílnum hjálpar líka mikið í akstri utan vega enda byrgir voldugt húddið sýn á holurnar og bungurnar næst bílnum.

Verðið kemur á óvart

Maserati hefur tekist að skapa lúxusjeppa sem ætti að höfða til hraðafíkla en henta líka vel í virðulegar ferðir í leikhúsið eða til að sækja börnin og innkaupin. Það ætti að gleðja skipulagsfíkla að í skottinu eru sérstakar brautir þar sem má festa þar til gerðar stangir, skúffur og net til að halda öllu á sínum stað og rækilega skorðuðu.

Zegna silkiáklæði á sætum og hurðum setur punktinn yfir i-ið.
Zegna silkiáklæði á sætum og hurðum setur punktinn yfir i-ið.


Sumsé: Levante er bráðgóður jeppi í alla staði, stendur fyllilega undir nafni sem lúxusbíll og hefur líka áberandi sportbílagen. En þá kemur rúsínan í pylsuendanum: ítalski draumajeppinn er ekki eins dýr og margur myndi halda og má reikna með að kominn til landsins sé verðið á Levante Diesel einhvers staðar á milli grunnverðs Porsche Cayenne (frá tæpum 11 milljónum) og Range Rover (frá tæpum 20 milljónum). Miðað við sænsku verðin má reikna með að Levante gæti kostað frá 13-14 milljónum í grunnútgáfu og rösklega 17 milljónir með þeim auka- og lúxusbúnaði sem var á reynsluakstursbílnum.

Þegar og ef Maserati Levante verður fáanlegur á Íslandi verður það í gegnum Ís-Band, umboðsaðila Fiat Chrysler. Þar á bæ fengust þær upplýsingar að innflutningur á Maserati væri því miður ekki fyrirhugaður á næstunni. Að svo stöddu þurfa áhugasamir því að panta Levante í gegnum erlenda seljendur.

Leiðsögukerfið er prýðilegt og alls kyns tækni sem léttir ökumanni …
Leiðsögukerfið er prýðilegt og alls kyns tækni sem léttir ökumanni lífið.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: