Ítalska fegurðardrottningin

Maserati Ghibli er svo fallegur bíll að auðvelt er að …
Maserati Ghibli er svo fallegur bíll að auðvelt er að fyrirgefa smávægilega galla.

Það skiptir mig miklu máli þegar ég reynsluek fallegum bíl að athuga hvort hann stenst „glápuprófið“. Veitir fólk bílnum athygli úti á götu eða fellur hann inn í fjöldann?

En í London, þar sem ég fékk Maserati Ghibli að láni, var mér vandi á höndum því Lundúnabúar eru í meira lagi ofdekraðir þegar kemur að fallegum og dýrum bílum. Í fínni hverfunum virðist eins og í öðru hverju bílastæði sé Bentley, Rolls eða Aston Martin, og dugar eiginlega ekkert minna en milljón dollara ítalskur ofursportbíll ef á að fá gangandi vegfarendur til að staldra við, gapa og draga fram snjallsímann.

Það gladdi mig því afskaplega mikið, eftir nær gláplausan akstur um borgina daginn á undan, þegar ég var að gera mig tilbúinn til að leggja af stað í bíltúr á Ghiblíinum og öldruð kona sem átti leið hjá vatt sér upp að mér og sagði sísvona: „That‘s a rather posh car.“

Ómótstæðilegur þokki

Og það var alveg rétt hjá þeirri gömlu. Maserati Ghibli, „litli“ fólksbílinn frá ítalska sportbílaframleiðandanum, er alveg sérstaklega fagur. Hann er af svipaðri stærð og á svipuðu verðbili og Audi A7, 6-týpan hjá BMW og Mercedes-Benz CLS en sá fallegasti í hópnum. Ávalar línurnar eru ómótstæðilegar og sportlegar og hlutföllin minna á villidýr sem er við það að stökkva á bráð sína.

Dagana sem ég fékk Ghiblíinn að láni stóð ég mig margoft að því að fara út að glugganum á íbúðinni minni og líta á þennan rauða dreka úti á bílastæðinu, og segja upphátt við sjálfan mig: „Mikið svakalega er þetta huggulegur bíll.“

Magnifico, eins og þeir segja suður í Bologna.

Líkt og Levante-sportjeppinn sem ég fékk að prufa úti á Ítalíu fyrr í vetur var lánsbíllinn í London með díselvél. Og rétt eins og dísel-Levante er búið að beita tæknibrellum til að framkalla ekta Maserati-vélarhljóð úr púströrinu á Ghiblíinum. Viðbragðið og hljóðið er þannig að þarf næmar tær og næm eyru til að finna einhvern mun á þessum lipra díselmótor og hefðbundinni bensínvél.

Og líkt og Levante þá er Maserati Ghibli bíll sem ég hefði ekkert á móti því að eiga. Hann hefur útlitið með sér, prýðilega aksturseiginleika, er á viðráðanlegu verði og hefur það umfram aðra lúxusbíla í sama flokki að vera tiltölulega fágætur.

Ítölsk sérkenni

Þar með er ekki sagt að Ghibli sé gallalaus bíl. En eins og með ítalskar fegurðardísir þá fyrirgefur maður dyntina. Ég átti t.d. í smá vandræðum með að hitta á rétta punktinn á gírskiptingunni þegar þurfti að setja í bakkgír og stýrið á prufubílnum togaði ögn til vinstri. Hönnuðir Ghibli virðast líka hafa haft lágvaxnari menn en mig í huga því þó að nóg væri rýmið fyrir lappirnar og kollinn þá virtist ég ekki geta stillt stýri og sæti alveg eins og ég vildi hafa það. Þegar ég stakk USB-lyklinum með tónlistarsafninu mínu í samband við Harman Kardon hljómtækin var hljóðið ágætt en ekki sláandi, og bíllinn fyrirgefur ekki fólki eins og mér sem hefur tamið sér þann ósið að bremsa með vinstri fætinum og láta stundum litlutána loða aðeins of lengi á bremsupedalann þegar gefið er í.

En þetta eru allt smáatriði og eins og í öllum góðum hjónaböndum þá lærir maður að elska gallana, og gleymir þeim alveg þegar komið er út á hraðbrautirnar, gervidrunurnar óma úr vélinni, landslagið þýtur framhjá og líkaminn sekkur ofan í mjúk og útsaumuð leðursætin.

Sennilega er Maserati Ghibli fallegasti bíllinn í sínum stærðarflokki.
Sennilega er Maserati Ghibli fallegasti bíllinn í sínum stærðarflokki. Ljósmyndir/Ásgeir Ingvarsso
Stæltur afturhlutinn gerir Maserati Ghibli að mjög vígalegum bíl, og …
Stæltur afturhlutinn gerir Maserati Ghibli að mjög vígalegum bíl, og hann vantar aldeilis ekki glæsileikann.
Á sport-stillingu framkalla hátalarar alvöru Maserati hljóð. Hljómurinn er fagur …
Á sport-stillingu framkalla hátalarar alvöru Maserati hljóð. Hljómurinn er fagur þó hann sé óekta.
Bakpoki í handfarangursstærð í 500 lítra skottinu.
Bakpoki í handfarangursstærð í 500 lítra skottinu.
Þó hann mætti kosta minna er Maserati Ghibli ekki eins …
Þó hann mætti kosta minna er Maserati Ghibli ekki eins dýr og fólk kannski ímyndar sér. Ljósmyndir/Ásgeir Ingvarsson
Að skipta í bakkgír kallaði á vissa nákvæmni.
Að skipta í bakkgír kallaði á vissa nákvæmni.
Vélin skilar feykinógu afli þó Ghibli sé ekki algjört óargadýr.
Vélin skilar feykinógu afli þó Ghibli sé ekki algjört óargadýr.
Vel fer um ökumann en aftursætin eru ekki fyrir leggjalanga.
Vel fer um ökumann en aftursætin eru ekki fyrir leggjalanga.
Allt umhverfi ökumanns er sportlegt og notendavænt.
Allt umhverfi ökumanns er sportlegt og notendavænt.
Á sport-stillingu framkalla hátalarar alvöru Maserati hljóð.
Á sport-stillingu framkalla hátalarar alvöru Maserati hljóð.
Línur Maserati Ghibli eru ávalar.
Línur Maserati Ghibli eru ávalar.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »