Til þjónustu reiðubúinn

Kannski má ekki segja það upphátt en raunin er sú að í venjulegum akstri finnur hinn almenni ökumaður ekki stórvægilegan mun á því hvað bílar geyma undir húddinu.

Nokkur hestöfl og nokkrir Newtonmetrar til eða frá breyta litlu, svo fremi sem bíllinn hefur það sem þarf til að halda í við umferðina, og kannski ögn meira en það. Er meira að segja varla hægt að greina svo glatt, þegar setið er á bak við stýrið í nýjum bílum, hvort þeir eru með bensín- eða dísilvél, nema ekið sé af þeim mun meiri ákafa.

Tæknin sem kemur bílnum á milli A og B er orðin það góð, í flestum tilvikum, að það er ekki fyrr en byrjað er að spana af miklum krafti og reyna virkilega á bílana að hægt er að segja að mikill munur sé á framleiðendum.

Það sem ökumaður verður mun frekar var við er hvernig bíllinn hjálpar honum að komast á leiðarenda. Lélegt leiðsögukerfi er meiri truflun en að hafa úr aðeins færri hestöflum að spila. Ökumaður verður fyrr var við það hvort hljóðkerfið í bílnum er gott en hvort gírkassinn er nokkrum sekúndubrotum fljótari að skipta um gír.

Hvað snýr að hreyfanlegum pörtum er BMW löngu búið að ná fullkomnun, eða þar um bil. Vitaskuld má alltaf gera betur, en þegar kemur að strokkum og stimplum eru framfarirnar mældar í hænuskrefum. Sennilega hafa verkfræðingar og hönnuðir þýska bílarisans áttað sig á þessu, og komið auga á að besti staðurinn til að skjótast fram úr keppinautunum er í sjálfu farþegarýminu. Nýja 5-línan frá BMW er sönnun þess.

Að skrifa um aksturseiginleika BMW er nánast óþarfi. Nýja fimman er eins og límd við veginn, fer leikandi létt með að þjóta eftir hraðbrautunum, og allir vita að stóla má á gæðin. Þegar ég fékk 530d xDrive að láni á dögunum og fór í bíltúr um Þýskaland og Tékkland kom fátt í akstrinum á óvart. Það sem fékk mig hins vegar til að gapa og glotta var tækniupplifunin sem bíllinn býður upp á, og setur hann í algjöran sérflokk.

Lykillinn kallar á sína eigin grein

Þar hefur BMW gengið svo langt að meira að segja bíllykillinn kallar á sérstaka umfjöllun. Nýja fimman kemur nefnilega með lykli með snertiskjá. Þar er hægt að kalla fram upplýsingar um bílinn, sjá hvort hann er örugglega læstur, og skoða hversu langt má komast á eldsneytinu í tankinum. Eins og það sé ekki nóg má líka nota lykilinn til að fjarstýra bílnum.

Þið lásuð rétt, en ekki halda að fjarstýringin virki eins og í Bond-myndinni Tomorrow Never Dies þar sem Pierce Brosnan notar fjarsímann sinn til að fjarstýra BMW í frægu atriði. Fjarstýringin var fyrst kynnt til sögunnar árið 2015 í 7-línu BMW, og dugar aðeins til að færa bílinn fram eða aftur í beinni línu.

Fjarstýringin er meira en partí-trikk. Vissulega er gaman að þykjast skjótast frá á meðan grunlaus farþegi bíður í bílnum, og sjá hvernig hann bregst við þegar bíllinn byrjar að hreyfast. En fyrst og fremst hjálpar fjarstýringin þegar leggja þarf í þröngt stæði eða agnarsmáan bílskúr.

Er rétt að taka fram að til að fjarstýra bílnum þarf að standa mjög nálægt honum. Notar fjarstýringin líka töluvert rafmagn, tæmir fljótt hleðsluna í lyklinum, og verður þá að stinga honum í samband rétt eins og snjallsíma. Rafmagnsleysið kemur ekki að sök að því leyti að lykillinn getur áfram opnað bílinn og leyft að gangsetja hann, en þá er líka eins gott að bílnum hafi ekki verið smokrað inn í þröngt stæði. Annars þarf að hlaða lykilinn fyrst, og síðan fjarstýra bílnum út úr stæðinu áður en hægt er að setjast inn í hann og leggja af stað.

Ótalmargir punktar yfir i-ið

Lykillinn er aðeins lítið brot af þerri tækni sem gerir nýju 5-línuna framúrskarandi.

Myndavélakerfið er sennilega það besta sem er í boði í dag. Ekki aðeins er myndin mjög skýr og hægt að skoða allt umhverfi bílsins, heldur er meira að segja hægt að horfa á bílinn utanfrá, jafn undarlega og það hljómar. Með því að ýta á þar til gerðan takka er líka hægt að láta tölvuna í bílnum skima eftir lausum stæðum, og leggja bílnum nánast sjálfvirkt. Nokkrar tilraunir sýndu að á sjálfstýringu lagði bíllinn sér yfirleitt þráðbeint í stæði og nýtti plássið vel, en tölvan treysti sér ekki til að leggja í allra þrengstu stæði í bílastæðahúsum þar sem svigrúmið er í algjöru lágmarki.

GPS-kerfið er líka sérlega vandað og tölva bílsins réði tiltölulega vel við að skilja munnleg fyrirmæli. Ég kann vel að meta þegar hægt er að stýra bílatölvunni bæði með snertiskjá, snúningsskífu og tökkum, en BMW gengur skrefinu lengra því ofan á snúningsskífunni á milli framsætanna er snertiflötur sem má t.d. nota eins og snertimús eða til að skrifa stafi með fingrinum þegar stimpla þarf inn nafn á áfangastað.

Öll önnur praktísk atriði eru vel leyst. Fór t.d. vel um leggjalangan og hávaxinn ökumann, og enginn kvartaði yfir plássleysi þótt stundum væru fjórir í bílnum. Hljómtækin fylla rýmið vel og er auðvelt að hverfa svo rækilega inn í uppáhaldstónlistina að maður er kominn með hellu fyrir eyrun (og orðinn hás af söng) þegar komið er á áfangastað. Skottið er alveg nógu rúmgott, og ætti að vera pláss fyrir tvær stórar ferðatöskur og nokkra pinkla.

Við áttum saman margar ljúfar klukkustundir á hraðbrautunum, með græjurnar í botni á 200 km hraða. Er varla hægt að óska sér betri ferðafélaga og óhætt að gefa nýju 5-línunni frá BMW fullt hús stiga.

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »