Allir vildu Golf kveðið hafa

Sumir halda að helsta einkenni góðs bíls sé kröftug vél, drunur úr púströrinu og sportleg sæti sem faðma síðurnar.

Allt eru þetta ágætir kostir fyrir bíl að hafa til að bera, en raunin er að helsta einkenni góðs bíls er að maður tekur varla eftir gæðunum, heldur tekur þeim sem sjálfsögðum hlut: Þegar sest er í bílstjórasætið er ekkert sem truflar. Bakið og sessan fara á réttan stað og stýrið er þar sem maður vill hafa það. Olnbogi og bak hafa einmitt réttan stuðning og allir takkar eru þar sem maður býst við að þeir séu. Þegar kveikt er á græjunum fylla þær vel einangrað farþegarýmið af skýrum hljómi og uppáhaldslögin fá að njóta sín. Þegar ýtt er á bensíngjöfina er krafturinn til staðar og þegar stigið er á bremsuna gerir bíllinn það sem maður væntir.

Bestu bílarnir eru s.s. þeir þar sem ekki er yfir neinu að kvarta, sama hvað maður reynir.

Volkswagen Golf er einn af þessum bílum. Allt einfaldlega smellpassar og er eins og það á að vera – og gott betur. Er ekki að furða að á 40 sekúndna fresti sé nýr Golf seldur einhvers staðar í heiminum.

Í vor boðaði Volkswagen blaðamenn frá öllum heimshornum til Mallorca, í tilefni af því að Golfinn hefur fengið „uppfærslu“ eins og þeir kalla það. Var öllu tjaldað til og hægt að prófa nýjar og bættar útgáfur af e-Golf, Golf GTE, Golf GTI Performance og Golf R. Ekki var nóg með það heldur var stjanað við blaðamennina með vist á lúxushóteli, miklum kræsingum, og spani á Golf R á lítilli kappakstursbraut rétt fyrir utan Palma.

Er óhætt að segja að vinnudagarnir gerist ekki mikið betri.

Mörg smá framfaraskref

Gerðar hafa verið smávægilegar útlitslegar breytingar á Golfinum og verið skerpt á svæðunum í kringum fram- og afturstuðarann. Breytingarnar fegra bílinn töluvert, og nú eru t.d. díóðuljós orðin staðalbúnaður bæði að framan og aftan. Er nýi Golfinn líka útbúinn endurbættu leiðsögu- og afþreyingarkerfi sem stjórna má með handahreyfingum (e. gesture control), og er Golf fyrsti bíllinn í sínum stærðarflokki til að vera með þannig tækni.

Raunar er búið að hlaða nýja Golfinn notendavænum tæknilausnum, og t.d. hægt að tengjast bílnum í gegnum snjallsímaforrit til að byrja hleðslu eða kveikja á loftkælingunni. Níu tommu snertiskjárinn á milli sætanna frammí er stærri og betri en á mörgum mun dýrari bílum.

Í sjálfu sér ættu nýjungarnar ekki að koma á óvart enda hefur VW verið í fararbroddi þegar kemur að því að færa almenningi nýjustu tækni. Sama hvort um er að ræða ABS-bremsur, stöðugleikastýringu eða árekstrarvara, hefur VW rutt brautina og „lýðræðisvætt“ lúxusinn eins og þau orðar það sjálf.

Framfarirnar snúa ekki bara að útliti Golfsins og upplifuninni í farþegarýminu. Vélin í Golf GTI hefur fengið 15 viðbótarhestöfl og drægi rafbílsins e-Golf er komið upp í 300 km. Er það 50 km lengra en þarf til að aka frá Reykjavík til Kirkjubæjarklausturs.

Með hjartað í buxunum

En er þetta nóg? Golf er greinilega bíll sem höfðar til skynseminnar en nær hann líka að höfða til hjartans?

Hagsýnu og ábyrgu kaupendurnir munu velja e-Golf og Golf GTE, og verða ekki sviknir. Þeir sem vilja meira fútt geta fengið sér Golf GTI með 245 þýsk hestöfl undir húddinu á bíl sem er ekki nema um 1.350 kg að þyngd. Svo er Golf R sem ætti að kæta kröfuhörðustu hraðafíkla.

Aldrei hefur Volkswagen fjöldaframleitt jafn öflugan Golf og höfðu blaðamennirnir í Mallorca á orði að viðbragðið minnti á léttan Porsche. Golf R hefur allt sem alvöru sportbíll þarf að hafa til að bera: kraftinn, hljóðið og hraðann.

Út á kappakstursbrautina voru blaðamennirnir teymdir, í þremur prufubílum og með leiðbeinanda í þeim fjórða, sem eggjaði þá áfram og sýndi hvernig á að taka beygjurnar eins og fagmaður. Ég taldi mig vera færan í flestan sjó, og hafði meira að segja reynt að auka líkurnar á góðum akstri með því að leita á YouTube að upptökum frá þessari sömu kappakstursbraut. Er skemmst frá því að segja að ég var með hjartað í buxunum allt frá því lagt var af stað og mátti litlu muna að aukanærbuxurnar sem ég pakkaði fyri þessa stuttu ferð kæmu í góðar þarfir. Jedúddamía. Hvílíkur bíll!

Hver er hvað?

Golf er ekki bara Golf og er hægt að fá þennan vinsæla bíl í mörgum útfærslum. Fyrir þá sem ekki þekkja bíltegundina vel getur verið snúið að átta sig á hvað er hvað, en heilmikill munur getur verið, bæði í verði og krafti, á t.d. Golf TSI og Golf R. Helstu undirflokkar Golf eru sem hér segir:

e-Golf er alfarið rafdrifinn og hefur verið fáanlegur frá 2015. Núna er hann með vél sem framleiðir um 136 ps, þ.e. „þýsk hestöfl“ eða 134 staðalhestöfl.

Golf TSI er með 125 ps vél og sá mest seldi í Golf-fjölskyldunni.

Golf GTE er tengiltvinnbíll með fjögurra strokka vél sem skilar 150 ps.

Golf GTI Performance er með 245 ps bensínvél.

Golf TDI er díselbíllinn.

Golf TGI gengur fyrir bæði metani og bensíni.

Golf R 4 Motion er með 310 ps bensínvél og fjórhjóladrifinn.

Golf R Variant er með jafn stóra vél og 4 Motion en í skutbílsstærð.

Golf Alltrack er skutbíll (Variant) en hærra undir hann.

Golf SportWagen er sá stærsti í Golf-fjölskyldunni, 7 manna skutbíll.

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

Bloggað um fréttina