Sprækur og spennandi Yaris

Það lifir í minninu sem gerst hefði í gær, þegar Toyota kynnti Yaris-smábílinn árið 1999 og smábílamarkaðurinn varð ekki samur aftur.

Ekki svo að skilja að undirritaður hafi gripið andann á lofti og fært bílinn til bókar sem draumabíl, en það blasti engu að síður við að hér var kominn ákveðinn „leikbreytir“ á sínu sviði, allt frá nýstárlegu útlitinu (sem getið hefur af sér ótal eftirapanir) til mælaborðsins með nýstárlega hraðamælinum sem reyndi ekki eins mikið á augun þegar horft var til skiptis á veginn fram undan og svo hraðann í mælaborðinu. Allt um það, allt fram streymir og nýjasta útgáfan af Yaris er talsvert langt frá þeim 18 ára gamla. Það sem var gott þá hefir batnað allar götur síðan.

Nýstárlegur að innan sem utan

Toyota hefur ekki tekið vinsældum Yaris sem sjálfsögðum hlut með því að höggva í sama knérunn frá því um síðustu aldamót er saga og sigurganga Yaris hófst. Þvert á móti hefur bíllinn tekið stórstígum breytingum gegnum árin og hefur vegferðin mestanpartinn verið farsæl. Alltént er bíllinn á afskaplega góðum stað í dag og hefur því gengið til góðs, götuna fram eftir veg. Rétt eins og sá fyrsti var nægilega framúrstefnulegur til að hugnast ungum og kröfuhörðum neytendum sem vilja hafa smá partí, smá „bit“ í hönnun bíla sinna, þá vantar ekki neistann í nýja Yarisinn, nema síður sé. Bæði er að finna endalausa vinkla á hönnun ytra byrðisins svo hann verður ekki leiðigjarn, og svo er hann hinn reffilegasti innandyra, ekki síst í tveggja lita útgáfunni sem ætti að hitta lóðbeint í mark hjá yngri kynslóðinni – sjá meðfylgjandi myndir. Hreint ekki amalegt. Það eina sem hefur löngum truflað mig við Yarisinn, framúrskarandi áreiðanlegur sem hann nú er, er dósahljóðið þegar dyrunum er lokað. Þetta er sparðatíningur út af fyrir sig, og vitaskuld er það framleiðandanum keppikefli að hafa hurðir, sem annað, eins léttar og hægt er. En mikið væri nú samt gaman ef hægt væri að búa bílinn með eilítið þéttari kantlistum sem skiluðu þar af leiðandi þykkari og skemmtilegri hurðaskelli.

Snar í snúningum

Þegar sest er undir stýri kemur í ljós að Yaris er sem fyrr sprækur á vegi, með knappan beygjuradíus og fína stýringu. Einhverjum gæti þótt hann of léttur í stýri ef eitthvað er, en það gerir bílinn þá bara aðgengilegan fyrir fleiri. Bíllinn er léttur, ekki nema rétt rúmlega tonnið, og því hinn líflegasti í akstri. Stýringin er pottþétt og bíllinn er sem hugur manns í akstri. Það er gömul saga og ný að alltaf langar mann í aðeins meira afl, en þessi bíll er einfaldlega ekki smíðaður til að svala urrandi kraftþorsta. Það eina sem truflaði á ferðinni er að í kröppum beygjum á hann til að halla lítið eitt. Ekki svo að skilja að hann sé á mörkum þess að velta en hann mætti sitja aðeins betur á vegi.

Það breytir því ekki að Yaris er sem fyrr vel búinn og flottur kostur í sínum flokki, hann býr að lágri bilanatíðni sem framleiðandinn er þekktur fyrir og þjónusta umboðsins hér á landi er með því besta sem gerist. Þá er endursalan sjaldnast vandamál þegar Toyota er annars vegar. Óneitanlega sterkur valkostur í sínum stærðarflokki.