Lítið hróflað við góðri formúlu

Það er honum föður mínum að þakka að ég er svolítið veikur fyrir Nissan. Pápi gamli keypti sér nefnilega Nissan Terrano þegar ég var táningur, og ók bílnum upp til agna. Eftir 15 ára vandræðalausa samvist seldi pabbi bílinn og hafði þá ekið honum 320.000 kílómetra.

Í lok júní lá leiðin til Vínarborgar á kynningu á nýjum Nissan Qashqai. Var öllu tjaldað til og blaðamenn víðsvegar úr Evrópu fylltu agalega fínt hótel á jaðri miðborgarinnar. Er ekki skrítið að þeir hjá Nissan hafi viljað leggja mikið í kynninguna enda Qashqai mest seldi bíllinn í sínum flokki í Evrópu þar sem hann hefur selst í um 2,3 milljónum eintaka.

Ekki er erfitt að skilja vinsældir Qashqai. Bíllinn er fallega hannaður að innan sem utan, og ósköp þægilegur í akstri. Allt virðist einss og það á að vera; vel fer um ökumann, útsýnið er prýðilegt í allar áttir, leiðsögukerfið veitir skýrar leiðbeiningar, og hæfilega mikið af hólfum og skúffum fyrir smáhluti. Qashqai er nægilega nettur til að nýtast sem borgarbíll, en líka með jeppagenin til að glíma við ögn meira krefjandi vegi og veðurfar.

Armbeygjur og andlitslyfting

Hönnuðir og verkfræðingar Nissan virðast blessunarlega skilja að það er lítið vit í að hrófla mikið við góðri formúlu, og felast breytingarnar í nýja Qashqai aðallega í minniháttar framförum á ýmsum stöðum, þar sem óskir viðskiptavina voru látnar ráða ferðinni.

Þannig er t.d. búið að endurhanna stýrið, gera það fallegra og þannig í laginu að auðveldara er fyrir ökumann að koma sér fyrir í sæti sínu og sjá á mælana. Hljóðeinangrunin hefur einnig verið aukin, svo að átta hátalara BOSE hljóðkerfið, sem er staðalbúnaður í Tekna+ lúxusútfærslunni, fái notið sín betur.

Ytra byrðið hefur líka allt fengið andlitslyftingu, en samt ekki svo mikla að Qashqai sé ekki líkur sjálfum sér. Grillið er orðið nútímalegra, fram- og afturljósin sömuleiðis, og útlínurnar örlítið betur vaxnar, líkt og að bíllinn hafi verið duglegur að mæta í ræktina.

Tölva hjálpar við aksturinn

Í Vín gafst kostur á að prufa bæði bensín- og díselútgáfu nýja Qashqai, í lúxus- og staðalútfærslu. Var aðeins hægt að greina sáralítinn mun á bílvélunum í akstri, og þó alltaf sé hægt að óska eftir fleiri hestöflum var vélaraflið alveg hæfilegt fyrir venjulega notkun. Þeir sem hyggjast festa kaup á Qashqai ættu endilega að láta eftir sér að velja lúxusútfærsluna, þó ekki væri nema út af sætunum sem eru saumuð með n.k. þrívíddaráferð sem gerir ásýnd farþegarýmis mun glæsilegri.

Með nýja Qashqai er Nissan líka að reyna að nota tæknina til að létta aksturinn, með ProPILOT kerfinu. Er þetta kerfi ekki enn komið í notkun, en á að vera væntanlegt í lok þessa árs, þá væntanlega með einhvers konar hugbúnaðaruppfærslu því vélbúnaðurinn er þegar til staðar. ProPILOT á, að sögn, að bjóða upp á einfalda sjálfstýringu á hraðbrautum og bæði stýra bílnum, gefa í og bremsa eftir atvikum, og halda innan sömu akreinar. Nú þegar getur nýi Qashqai gripið inn í ef hann greinir hættu á árekstri þegar bakkað er út úr stæði, og skynjarar sem búið er að fela mjög smekklega nálægt Nissan merkinu í grillinu fylgjast með hvort gangandi vegfarendur eru á leið í veg fyrir bílinn.

Nýi Qashqai er ekki jafn mikið brjálæðislegt tækniundur og nýjustu drossíurnar frá t.d. Porsche eða BMW en er samt nægilega vel búinn til að tæknin geri sitt gagn – og verðmiðinn vitaskuld allt annar. Þetta er ekki montbíll, heldur bifreið sem einfaldlega tekur sig vel út í heimreiðinni, kemur fólki þægilega og örugglega á milli staða, og kostar ekki svo mikið að setji fjárhag heimilisins á hliðina. Mig grunar að fólk sem kaupir þennan bíl muni, rétt eins og pabbi gamli, ekki finna sig knúið til að skipta honum út fyrr en að mörgum árum liðinum, eftir nokkur hundruð þúsund kílómetra af ánægjulegum akstri.

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »