Sannkallaður „Swiftivindur“

Suzuki Swift er með vinsælli bílum í sínum stærðarflokki í Evrópu og því mikið undir þegar framleiðandinn kynnti nýja kynslóð til sögunnar snemmsumars. Bíllinn er talsvert breyttur að sjá, bæði hvað ásýnd og ummál varðar, að ekki sé minnst á vélarkostinn, en hinum stóra aðdáendaklúbbi Swift er óhætt að vera áhyggjulaus yfir því þar sem hinn nýi Swift er fantavel heppnaður.

Það er ekki ofsögum sagt að framendi Swift sé gerbreyttur frá því sem var, og það sem meira er – breytingin er þrælvel heppnuð. Svipurinn er afgerandi og markar bílnum samstundis allnokkra sérstöðu. Framgrillið minnir kannski helst á enska sportbíla frá 7. áratugnum (ekki leiðum að líkjast!) og ljær honum óneitanlega dýnamíska ásjónu. Það sem gerir þó framendann fyrst og fremst jafn vel heppnaðan og raun ber vitni – þó að maður kveiki kannski ekki á því við fyrstu sýn – er sveigða aukagrillið sem liggur neðst í stuðarasvuntunni, sem tengist við ljóskastarahólfin báðum megin neðan við aðalljósin. Þetta er framúrskarandi vel heppnuð hönnun og andlit hins nýja Suzuki Swift er fyrir bragðið hreint hörkuflott að sjá.

Annað er eftir því. Framljósin eru teygð upp eftir húddinu og vindlínur á hurðaflekunum sjá til þess að sportlegur svipurinn helst allt frá framenda og aftur að skottinu.

Inni í bílnum tekur meira við af svo góðu og Swift sýnir og sannar að innréttingar þurfa ekki nauðsynlega að vera úr burstuðu stáli, harðviði og hágæðaleðri (þó að slíkt hafi vitaskuld aldrei komið að sök) til að líta vel út. Hér er svart plast vissulega ráðandi en smekkleg hönnunin vinnur eins vel og hægt er með þann efnivið og útlitið er hreint með ágætum. Sportlegt „cut-off“ stýrishjólið gleður augun sem og hendurnar (meira um það hér á eftir) ásamt því að fjölmargir aðgerðahnappar, sem er haganlega fyrirkomið, eru í stýrinu.

Snertiskjárinn stóð sig með ágætum en hann hýsir leiðsögukerfi, ýmsa upplýsingagjöf og svo afþreyingarmiðstöð bílsins. Stjórntæki og hnappar eru allir tiltölulega einfaldir og auðskiljanlegir í notkun og undirritaður var fljótur að finna sig bakvið stýrið.

Útsýnið úr bílnum er býsna gott og kemur þar einna helst tvennt til; annars var er bíllinn breiðari en forverinn og svo situr ökumaður lítið eitt neðar en áður. Fyrir bragðið er plássið umleikis ökumann og farþega í framsæti hið fínasta og um engan þarf að væsa. Þá er farangursrýmið orðið 264 lítrar en var 210 lítrar áður. Það eru svo sem engin ósköp en samt sem áður vel sómasamlegt.

Ekki síðri í umferðinni

Eins og alkunna er með bíla í smærri stærðarflokkum og lægri verðflokkum vill það loða við þá að vélin er óttaleg saumavél, máttlaus í lágsnúningi og hvín eins og þeytivinda þegar reynt er að gefa svolítið inn. Samkvæmt hefðinni hefur maður því goldið varhug við smábílum með litla vél, en nú er öldin önnur. Fjölmargir framleiðendur bjóða núorðið upp á stórskemmtilegar eins lítra vélar og þær eru snarpari en nokkurn hefði grunað. Til að byrja með er hinn nýi Swift um 120 kílóum léttari en síðasta útgáfa bílsins og auk þess er 1.0 lítra Boosterjet-vélin sem prófuð var hreint frábær. Þá er beinskiptur gírkassinn sem prófaður var einfaldlega frábær. Togið er hið fínasta strax frá neðstu stigum snúningssviðsins og Swift er eldröskur af stað. Um leið er vélin glettilega hljóðlát og nánast hljóðlaus í hægagangi. Beygjuradíusinn er um 4,5 metrar og bílinn því lipur þar sem plássið er takmarkað og hentar því ljómandi vel í knappan borgarakstur en bíllinn var tekinn til kostanna á knöppum götum Monte Carlo í bland við hraðbrautir í nærsveitum Suður-Frakklands. Hann leið áreynslulaust eftir „l'autoroute“ og lipurð bílsins í bland við gott útsýni gerði aksturinn í Mónakó jafn skemmtilegan.

Prýðilegur kostur í sínum stærðarflokki

Það má ljóst vera af framangreindu að undirritaður var vel sáttur við nýjustu kynslóð Suzuki Swift. Þegar hagkvæmni og hagstætt verð ræður för við bílakaup er dásamlega þakklátur bónus að fá skemmtilegan bíl fyrir peninginn. Ódýrasta tegund Swift er með 1.2 lítra Dualjet-vél og kostar 2.080.000 krónur en það má samt mæla með því að splæsa í gerðina með 1.0 Boosterjet hybrid-vélina sem er um 400.000 krónum dýrari en sparar aftur á móti eldsneytið. Allt í allt er Suzuki Swift glettilega fínn valkostur og skildi við þennan ökumann skælbrosandi.

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »