Sæt er hún

Þegar ég var táningur ók hún móðir mín um á afskaplega fallegum Alfa Romeo 156, silfurlitum með rauðum leðursætuum. Var alls ekki amalegt að fá bílinn að láni til að skjótast niður í MR, leggja honum þar á áberandi stað og leyfa samnemendum og kennurum að dást að þessum bráðsnotra og margverðlaunaða ítalska heimilisbíl.

Að vísu var gamla Alfan stundum til vandræða, og því miður skemmdi það orðspor þessara bíla hér á landi að tímareimin átti það til að gefa sig með tilheyrandi skemmdum á vélinni. En það er svo sem það sem Ítalir eru frægir fyrir: að smíða fögur en dyntótt ökutæki.

Í seinni tíð virðist Alfa Romeo hafa tekið sig á. Bílarnir halda áfram að vera fallegir, og vekja mikla hrifningu bílablaðamanna, en búnaðurinn undir húddinu er orðinn vandaðri. Það eru góðar fréttir fyrir þá sem eru veikir fyrir ítalskri hönnun.

Sætasta stelpan á ballinu

Á dögunum fékk ég lánaðan Alfa Romeo Giulietta-smábílinn til að spana á í London. Áður hafði nýja Fiat Chrysler-umboðið á Íslandi haft milligöngu um að ég fengi að prufa litla 4C-sportbílinn í hellirigningu suður á Ítalíu, líkt og skrifað var um í Bílablaðinu í nóvember. Er greinilegt að þar á bæ er mikill áhugi á að koma Alfa Romeo aftur á kortið hjá Íslendingum.

Og eins og með aðra bíla frá Alfa Romeo hefur Giuliettan útlitið með sér. Að mínu mati er fallegri smábíll vandfundinn, og ítölsku genin leyna sér ekki. Í þessum stærðar- og verðflokki er svo sem ekki von á miklu hvað varðar íburð, frágang og útlit, en Alfa Romeo hefur greinilega lagt metnað í Giuliettuna og bíllinn prýðilegur að innan sem utan. Að vísu er svolítið groddalegt hvernig búið er að setja stykki fyrir USB tengi beint fyrir ofan gírstöngina. Á sama stað er takkinn sem breytir akstursham bílsins, og ekki mikil prýði að honum.

Ökumaður verður ekki var við mikla tækni um borð, og t.d. upplýsingagjöfin ekki nærri því jafngóð og í nýjustu kynslóð Golf. Hins vegar reyndist GPS-kerfið prýðilegt, og átti auðveldara með að skilja töluð fyrirmæli en lúxus-Benz sem ég reynsluók á dögunum.

Prufubíllinn var beinskiptur og ekki mikið fjör að aka þannig bíl í þungri umferðinni í London. Um leið og komið var út á sveitavegina virkaði Giuliettan hins vegar lipur og létt. Ekki fór alveg nógu vel um mig í ökumannssætinu, og á það raunar við um flesta ítalska bíla að þeir eru ekki hannaðir utan um hávaxna og leggjalanga Skandinava.

Hver verður að dæma fyrir sig hvort Alfa Romeo Giulietta er peninganna virði. Það má t.d. fá vel útbúinn Golf fyrir svipað verð, og fara upp í Golf GTI með því að bæta við einni milljón. En Giuliettann hefur útlitið fram yfir aðra bíla í sínum stærðarflokki. Ég hugsa að þeir sem falla fyrir útlitinu á annað borð geti litið fram hjá göllunum, og átt farsæla sambúð með þessari ítölsku fegurðardís.

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »