Það er gott að vera kóngurinn

Stundum læt ég mig dreyma um hvaða rándýra lúxusbíl ég myndi kaupa mér ef ég ætti sand af seðlum. Ef til vill yrði það bandbrjálaður Lamborghini, Bentley-limósína eða máski konunglegur Rolls-Royce?

En um leið læðist að mér sú hugsun hvort ég myndi í raun og veru spreða í svona dýrt ökutæki. Það má jú fá prýðilegan bíl, og hraðskreiðan, fyrir miklu minni pening. Enginn þarf að skammast sín fyrir að aka um á nýjum Benz eða BMW með stóra vél, og fyrir mismuninn gæti ég látið gott af mér leiða –kannski bjargað öllum litlu kisunum í Kattholti. Myndi ég ekki fá samviskubit í hvert skipti sem ég færi í bíltúr á bíl sem kostar um og yfir 50 milljónir króna?

Eftir að hafa fengið að aka Rolls-Royce Dawn-blæjubíl á blíðviðrisdegi, um suðursveitir Englands, gat ég ekki annað en hugsað með sjálfum mér: skítt með kettina! Næsta dag var ég farinn að fletta því upp á Google hvort væri hægt að fá gott verð fyrir lítið notað nýra, svo ég gæti kannski haft efni á að kaupa mér Rolls. Dawn er nefnilega eitthvað allt annað og meira en bifreið. Dawn væri betur lýst sem andlegri upplifun á fjórum hjólum. Svo góður bíll að það er nánast syndsamlegt.

Bresk fullkomnunarárátta

Ég þurfti að sækja bílinn í höfuðstöðvar Rolls-Royce í Goodwood, rétt hjá Chichester, og fann það strax að þar eru einhverjir galdrar í loftinu. Umhverfis verksmiðjuna er allt svo fullkomið: búið að snyrta hvern runna af natni og hanna hvert smáatriði vandlega: allt fágað og fínt. Ég gaf mig fram í móttökunni og áður en langt um leið kom starfsmaður með bílinn handa mér; ljósbláan dreka með dökkblárri blæju. Um leið braust morgunsólin fram úr skýjunum, þvert á spána kvöldið áður. Rolls-Royce virðist nefnilega líka geta ráðið veðrinu.

Hvernig er það svo að aka svona bíl? Kannski má lýsa því best með því að segja lesendum að þegar ég ók út af hlaðinu í Goodwood emjaði ég, gólaði, stundi og breimaði. Hvílíkur bíll! Hvílíkur unaður! Af hverju hafði ég ekki gert þetta fyrr? Hvernig get ég nokkurn tíma aftur gert mér „venjulega“ bíla að góðu?

Merkið snýr alltaf rétt

Það er ekki að ástæðulausu að bílarnir frá Rolls-Royce eru iðulega kallaðir bestu bílar í heimi. Þeir eru listaverk; hápunktur íburðar og gæða. Hver einasti bíll er handsmíðaður, og nostrað við smæstu smáatriði. Allt er gegnheilt og ekta og virðist ekki hægt að finna einn einasta galla. Til marks um fullkomnunaráráttuna hjá hönnuðum og smiðum Rolls-Royce eru hjólin þannig úr garði gerð að RR-merkið á miðri felgunni flýtur ofan á kúlulegu og snýr því alltaf rétt. Og ef ýtt er á lítinn takka í hurðarfalsinu sprettur fram regnhlíf, svo að ökumaður og farþegar þurfi örugglega ekki að fá á sig smávegis vætu þegar komið er á áfangastað. Þegar tölvan í bílnum gefur frá sér viðvörunarhljóð pípir hún ekki, heldur spilar hún upptöku af hörpuspili. Að láta bílinn pípa væri langt fyrir neðan virðingu Rolls-Royce.

En töfrarnir eru fólgnir í einhverju sem ekki er hægt að lýsa með orðum eða ljósmyndum. Það er eitthvað við aksturseiginleikana og nærveru þessa bíls sem ekkert annað ökutæki hefur. Stýrið er eins og smjör og fjöðrunin er svo góð að ökumaður og farþegar virðast svífa á skýi. Skynjarar skima yfirborð vegarins og breyta fjöðruninni jafnóðum svo að dekkin líða mjúklega yfir allar misfellur í malbikinu. Ekki er að finna takka sem breytir akstursham bílsins en þess þarf heldur ekki: ef ýtt er laust á bensíngjöfina líður Dawn áfram eins og svanur á vatni, en ef fótstigið er rekið ofan í hnausþykkt gólfteppið heyrist vélin fnæsa og rösklega 560 hestöfl þeyta 2,6 tonna flykkinu áfram.

Með þakið lokað eru ökumaður og farþegar í sínum eigin heimi: vélin er þögul og hljóðeinangrunin heldur umferðarskarkalanum úti. Hljómkerfið er án nokkurs vafa það besta sem ég hef kynnst í nokkrum bíl, og heyrist vel í tónlistinni þó að búið sé að opna þakið og ekið á miðri hraðbraut.

Og þannig spanaði ég til London til að sækja eiginmanninn, í glampandi sól og brosandi út að eyrum. Æðarnar fullar af endorfíni og rækilega meðvitaður um hvað tilveran getur verið stundum verið góð. Hækkaði ögn meira í græjunum þegar Dire Straits byrjaði að spila Money for Nothing.

Lífið er einfaldlega miklu betra í Rolls.