Einfaldur Ítali að allri gerð

Hið fornfræga ítalska bílmerki Fiat hefur heldur legið í láginni hér á landi hin seinni ár en góðu heilli er stemningin öll upp á við með tilkomu bílaumboðsins ÍsBands (Íslensk-bandaríska) sem hefur opnað rúmgóðan sýningarsal til að sýna merkinu tilhlýðilegan sóma.

Hinn reffilegi smábíll Fiat 500 ætti að vera lesendum að góðu kunnur enda sjást slíkir bílar reglulega renna um götur borgarinnar. Heldur ætti að bæta í Fiat-flóruna á næstu vikum og mánuðum og þar er Fiat Tipo á meðal valkosta.

Einfaldur bíll að sjá

Að utan er Tipo ekki ýkja afgerandi bíll að sjá – hönnunin er til að mynda ekki á pari við hinn sígilda Fiat 500 – en hann hefur samt ákveðinn sjarma sem skrifast líklega á ítalskt erfðaefnið. Þessi bíll á líkast til að falla öllum sæmilega í geð, helst ekki að stuða neinn og það tekst ágætlega. Þetta er strategía sem hæfir bíl í þessum stærðarflokki sem á að vera sem allra flestum aðgengilegur í verði, en bílinn má fá í sinni einföldustu gerð undir þremur milljónum.

Bíllinn sem prófaður var hafði til að bera nokkuð af aukahlutum, sem eðli máls samkvæmt þyngja verðmiðann eitthvað, en það gladdi engu að síður af finna rafdrifinn mjóhryggsstuðning í bílstjórasætinu, stóran og góðan upplýsingaskjá sem gegndi hlutverki bakkmyndavélar þegar við átti og annað eftir því. Tausætin voru þó með stífasta móti fyrir minn smekk. Tipo er þó rúmgóður og útsýni ökumanns gott til allra átta. Þó finnst mér að hanna hefði mátt stýrið með aðeins meiri fágun; miðjan á því er óþarflega klossuð og umfangsmikil. Efnisvalið er líka tiltölulega einfalt – plastið er allsráðandi.

Hvikur án þess að vera hraður

Ökumaður fær fljótt á tilfinninguna að Tipo sé hvikur bíll því hann bregst við því þegar honum er gefið inn. Þó tekur það hann allnokkra stund að ná upp hraðanum því togið er ekki tiltakanlegt. Á móti kemur að hann er lipur og léttur í miðborgarakstri, einkum þegar ýtt er á „City“-hnappinn í mælaborðinu til að létta stýrið. Rétt er að fara varlega í hringtorg og álíka beygjur því hann hallast óneitanlega svolítið þegar lagt er á. Ekki gafst færi á að prófa bílinn með bensínvél en eins og verða vill með suma díselknúna bíla í C-flokki glamrar díselvélin í Tipo talsvert í hægagangi, þótt sjálfsagt sé óþarfi að láta það fara í taugarnar á sér. Farangursrými bílsins er mikið fyrir bíl í sínum stærðarflokki og ætti að skila farangri fjölskyldunnar vandkvæðalaust sína leið. Eyðslan var í kringum sjö lítrana gegnum reynsluaksturinn, sem er heldur í hærri kantinum fyrir þennan bíl.

Ódýr kostur í sínum flokki

Það má ljóst vera af framangreindu að Tipo er valkostur fyrir þá sem vilja bíl í sama stærðarflokki og VW Golf og/eða Opel Astra fyrir lágt verð. Á móti kemur að bíllinn hefur sínar takmarkanir. Bestur er hann í borginni og sem skaplega verðlagður bíll með prýðlegt pláss er Tipo þess virði að skoða.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: