Hér eru allir í stuði - bókstaflega

Vegur suðurkóreska bílaframleiðandans Kia heldur áfram að vaxa, erlendis sem hérlendis, og nú er svo komið að merkið er í hópi þeirra allra vinsælustu hér á landi. Það kemur út af fyrir sig ekki á óvart því bílarnir eru fallegir ásýndum, þéttir og góðir á vegi og velflestir skemmtilegir í akstri.

Á síðustu misserum hefur Kia fært sig í auknum mæli upp á skaftið hvað rafbílavæðinguna varðar og er það vel, skrefin sem fyrirtækið hefur tekið í þá átt eru vel heppnuð, ekki síst í Optima-bílnum. Þegar hefur verið prófaður Optima Sedan í hybrid-útfærslu á þessum vettvangi, nú er komið að plug-in hybrid.

Lítillega uppfært útlit

Frá því sem við höfum þegar séð af Optima hefur tengitvinnbíllinn nettar útlitsuppfærslur til að bera og eru þær smekklega fram settar. Þær breyta ekki ásýnd bílsins að heitið geti, og í svip má vera að þær fari hreinlega framhjá áhorfendum. En sé að gáð – ég tala nú ekki um ef manni er bent á breytingarnar – þá leyna þær sér ekki. Fyrst er að nefna að sæ-grænblár kennilitur er sýnilegur hér og hvar, einkum á sílsaköntunum undir hurðaflekunum og svo sem líning í framgrillinu. Þetta rímar við það sem aðrir framleiðendur hafa gert til að auðkenna rafbíla sína með lágstemmdum hætti frá hinum sem eingöngu ganga fyrir jarðefnaeldsneyti. Og þó, gætum að – sagði ég „framgrillinu“? Það er þá ekki alls kostar rétt því á þessum bíl er rafmagnsvinnslan undirstrikuð með því að fylla einfaldlega upp í hefðbundið framgrill, svo það er einfaldlega blokkeraður svartur flötur, ekki ósvipað því sem við þekkjum á Teslu Model S. Eftir sem áður er loftinntak í stuðarasvuntunni en það er engu að síður ákveðin yfirlýsing í þessum frágangi. Að öðru leyti er bíllinn svipaður útlits því sem við þekkjum, og Optima er laglegasti bíll. Bíllinn er bráðvel heppnaður að innan sömuleiðis. Sérstakt prik fær hann í kladdann fyrir afskaplega gegnsæja orkunotkun en ökumaður sér og veit upp á hár hvernig orkubúskapurinn fer fram hverju sinni og það sem meira er, bíllinn heldur utan um hvort þú ekur sparlega, venjulega eða af eyðslusemi! Sumir gætu verið á móti svona athugasemdum frá hendi bíls en ég er með.

Almennt gildir upp á síðkastið að tvinnbílar, tengi- eður ei, skarta CVT-gírskiptingu til að deila orku úr bensínvélinni og frá rafhlöðunni til hjólanna. Undirritaður er ekki í aðdáendaklúbbi CVT-sjálfskiptinga og því var það einkar þakklát uppgötvun að finna 6 gíra sjálfskiptingu í Kia Optima. Aksturinn verður kunnuglega ánægjulegur og bíllinn skiptir niður þegar gefið er í, í stað þess að fara í hvimleiðan og mestanpartinn gagnslausan hvínandi yfirsnúning, eins og CVT-gírkassa er almennt háttur. Ólíkt því þá er hér almennilegu vinnsluhljóði fyrir að fara, úr eðlilegum gírkassa, og það er sannarlega þakkarvert. Optiman er svosem engin raketta af stað en bíllinn er traustvekjandi og þéttur í akstri og upptakið er alveg þokkalegt. Bíllinn steinliggur í beygjum og virkar allur rammgerður og traustur.

Vænlegur kostur fyrir rafmagnaða ökuþóra

Þeir sem eru á annað borð orðnir spenntir fyrir því að gangast rafbílavæðingunni á hönd ættu að meta þann valkost sem Kia Optima Plug-In hybrid er því hér fæst heilmikill bíll fyrir peninginn. Skottplássið er gott og geldur ekki um of fyrir fyrirferð rahlöðunnar eins og víða er tilfellið. Rafmótorinn dregur 62 kílómetra sem er skaplegt fyrir tvinnbíl en mikið má maður hlakka til þess dags þegar staðaldrægni bíla, sem á annað borð innihalda rafhlöðu, verður 100 kílómetrar. Eldsneytiseyðslan er vel ásættanleg, þó ég hafi aldrei verið nærri hinum einum og hálfa lítra í blönduðum akstri sem Askja gefur upp; það þarf einhvern ofurmannlegan sparakstur til að ná því. En tæpir fimm lítrar eru allt í fína lagi í jafn stórum bíl, það kvartar enginn heilvita ökumaður undan slíku. Væntingastjórnunin hjá Öskju er þó umdeilanleg í þessu tilliti!

Eftir stendur feikivel búinn bíll með alls konar fídusum, ekki síst hitaða stýrishjólið sem ætti fortakslaust að vera staðalbúnaður á Íslandi. Að eiga þess kost að kaupa þennan bíl undir 5 milljónum telst harla gott.