Alveg passlegur

Ef Gullbrá ætlaði að kaupa sér Range Rover myndi hún velja nýja Velar. Þessi nýjasta viðbót við Range Rover-fjölskylduna hittir einhvern veginn á hárréttan stað; örlítið minni en hinn stæðilegi og stóri Range Rover og ögn stærri en Evoque, sem hefur frá upphafi haft á sér þann stimpil að vera jeppi hannaður fyrir konur.

Velar fyllir ekki alveg út í akreinarnar í þungri borgarumferðinni, en er heldur ekki svo nettur jeppi að maður treysti honum ekki til að takast á við nokkurn veginn hvaða ófærur sem er.

Útlitslega hittir Velar líka á hárrétta meðalveginn; hefur sportleg gen líkt og Evoque en líka þá reisn sem fylgir íhaldssamari línum stóra Range Roversins. Að öðru leyti sver Velar sig fullkomlega í ættina; hefur hárrétta kraftinn, hárréttu aksturseiginleikana og lætur ökumanni líða eins og ekkert geti staðið í vegi hans. Og eins og vill oft verða með yngstu fjölskyldumeðlimina slær Velar þeim eldri við þegar kemur að því að nýta nýjustu tækni.

Glansandi hátækni

Tæknin er einmitt það fyrsta sem ökumaður verður var við. Búið er að hanna mínimalískt miðjurými á milli framsætanna og tveir stórir skjáir notaðir til að taka við öllum helstu skipunum. Takkarnir hafa ekki verið fjarlægðir með öllu en allt gert til að þeir séu nánast ósýnilegir. Allt er slétt, glansandi og nútímalegt og hugsanlegt að hönnuðum Velar hafi jafnvel tekist að gera umgjörð sem er stílhreinni en í nýja Porsche Panamera – og er þá mikið sagt.

Upplýsingagjöf og allt sem heitir rafrænt í Velar er eins og best verður á kosið. Leiðsögukerfið notendavænt og eldsnöggt, en ekki búið að ofhlaða viðmót tölvunnar með alls kyns óþarfa stillingum sem enginn notar. Tölvan er líka tilbúin að breyta aksturseiginleikum bílsins í hvelli og hægt að velja t.d. um þægindaakstur, sparakstur og span, eða stilla bílinn fyrir akstur í snjó eða á sandi. Loftpúðafjöðrunin lækkar eða hækkar Velar eftir þörfum á meðan tölvan fiktar í drifinu og ökumanni finnst hann vita nákvæmlega hvað hann hefur í höndunum.

Fingrafarasegulstál

Ekki er auðvelt að finna galla á svona bíl – nema þá kannski að allir svörtu og glansandi fletirnir í farþegarýminu þýða að vissara er að geyma góðan klút í hanskahólfinu til að fjarlægja fingraför. Annar (og alveg jafn ómerkilegur) galli við Velar eins og alla aðra bíla frá Land Rover er hve mikið er af þeim á götum Reykjavíkur. Það er skiljanlegt að landsmenn hafi fallið fyrir þessum fínu lúxusjeppum en hlýtur að slá ögn á ánægjuna hjá eigendunum hve margir alveg eins bílar eru í umferð. Er ekki leiðinlegt að aka á 15 milljón króna draumabíl og rekast á fimm alveg eins bíla á planinu við Smáralind þegar verslað er í matinn?

Þess vegna skora ég á þá sem vilja kaupa Velar (og það eru örugglega margir) að velja nógu krassandi liti. Velar lítur einstaklega vel út í tvílitum útfærslum, með svörtum efrihluta, og ætti að vera töffaralegur bæði í bláum lit eða rauðum. Það er alveg nóg af gráum Land Roverum í landinu.