Allir vegir færir

Að mínu mati er Audi Q5 einmitt rétta gerðin af bíl fyrir íslenskar aðstæður. Hann er nægilega mikill jeppi til að ráða við bíltúra út fyrir bæinn í slæmri færð en nógu nettur til að henta vel sem borgarbíll.

Gott pláss er fyrir hávaxna íslenska vísitölufjölskyldu og heimilishundinn án þess samt að töskur og pinklar hreinlega hverfi í skottinu og ekki svo erfitt að stíga upp í bílinn að fólk með nokkur aukakíló um mittið eða háa hæla undir fótunum eigi í nokkrum vanda með það.

Svo skemmir ekki fyrir hvað Audi gerir falleg ökutæki – en samt án þess að vera með sýndarmennsku og læti. Lágstemmdur þýskur glæsileiki er nokkuð sem ég á erfitt með að standast.

Hekla frumsýndi nýja Audi Q5 í febrúar og mesta synd að það skuli hafa dregist svona lengi að skrifa um þennan bráðgóða bíl: Q5 er nefnilega bíll að mínu skapi.

Það fyrsta sem ökumaður tekur eftir á bak við stýrið er hvað upplýsingagjöf í mælaborði er skýr og leiðsögukerfið notendavænt. Allt virðist vera þar sem það á að vera, hvort sem um er að ræða takkana til að stjórna tónlistinni eða snertimúsina fyrir ofan gírstöngina sem nota má til að gefa bíltölvunni skipanir í einum hvelli. Þráðlaus hleðsla fyrir farsímann er líka alveg ómissandi þegar maður hefur vanist þeim lúxus.

Snarpur og klár

Þegar stigið er á bensíngjöfina fer ekki milli mála að nóg er af krafti. Audi Q5 er einn af þessum stórvarasömu bílum sem aka mun hraðar en maður heldur og ágætt að hafa a.m.k. annað augað á hraðamælinum á þeim vegum þar sem gæti verið von á lögreglu með radar.

Í akstri er Q5 eins og hugur manns og nýja quattro-aldrifið fær ökumann til að halda að ekkert geti stöðvað þennan bíl. Í stuttum túr upp í Bláfjöll langaði mig mest að beygja út af veginum og aka þráðbeint upp fjallshlíðarnar. Loftpúðafjöðrunin, sem kostar 330.000 kr. aukalega, er líka algjört yndi og meiriháttar upplifun að finna muninn á fjöðruninni á sportstillingu og utanvegastillingu þegar ekið er á rammíslenskum malarvegum.

Reynsluakstursbíllinn var með 480.000 kr. leiðsögukerfi sem virkaði fjarska vel þótt dýrt sé. Þeir sem vilja endilega leiðsögn á áfangastað gætu viljað reiða sig frekar á kortakerfið í farsímanum sínum og nota mismuninn til að fara í gott frí til útlanda. Aftur á móti má hiklaust mæla með að Q5 sé pantaður með bakkmyndavél (sem vantaði í reynsluakstursbílinn) því þótt hann sé ekki risastór þá eru íslensk bílastæði þröng og með myndavélinni verður innkaupaferðin í Kringluna eða Skeifuna mun ánægjulegri.

Hvernig stendur svo á því að þessi undrajepplingur, sem hakar í öll boxin, skuli ekki rjúka út? Helsta skýringin er sú að Q5 fæst ekki enn í tvinnútgáfu. Aftur á móti fæst stóri bróðir, Q7, með tvinnvél og selst mjög vel enda á sérdeilis góðu verði. Mér skilst að tvinn-Q5 sé í pípunum og næsta víst að þegar hann lendir á Íslandi mun koma góður kippur í söluna hjá Heklu.