Leikbreytir á leiðinni frá Kia

Enn og aftur sýnir það sig hversu óendanlega klókt það var hjá Kia Motors að klófesta Þjóðverjann Peter Schreyer á sínum tíma, til að koma skikki á gæði jafnt sem hönnun bílanna frá þessum suður-kóreska framleiðanda. Herbragðið hefur í flestum aðalatriðum gengið upp og rúmlega það. Kia er eina bílamerkið, vel að merkja, sem hefur aukið söluna milli ára síðustu 8 árin.

Söluaukningin á þessu ári nemur tæpum 8% það sem af er árinu 2017 og markaðshlutdeildin í Evrópu hefur á sama tíma aukist um 3%. Þennan árangur má þakka gæðum bílanna en ekki síður gæjalegu útliti. Hér í eina tíð voru Kia-bílar hálfgerður brandari, afleitir útlits og endingin mestanpart á sömu bókina lærð. Nú er öldin önnur og þar sem góðir hlutir hafa lag á að spyrjast út breiðist Kia-erindið ört út og sölutölur eru til vitnis um það. Með tilkomu nýjasta meðlims fjölskyldunnar, Kia Stinger, er hins vegar brotið ákveðið blað í sögu fyrirtækisins og líklegt að vatnaskil séu framundan. Hér er nefnilega á ferðinni bíll sem mun marka spor, eða eigum við að segja, hjólför.

„Stinger is all about the brand“

Eins og Artur Martins, yfirmaður markaðsmála hjá Kia Europe, sagði þegar hann hélt stutta tölu við kynningu bílsins á Mallorca í þarsíðustu viku, þá er Kia Stinger skapaður í þágu vörumerkis Kia og ímyndar þess. Ekki einasta á hann að styrkja ímynd merkisins heldur styðja við vörumerkjavitund allrar vörulínu Kia. Þetta er verulega sterkur leikur af hálfu Kia því Stinger er ... tja, hvað skal segja? Hvað í veröldinni er Kia Stinger?

Í stuttu máli sagt er Kia Stinger bíll af GT ætt. Það er bíltegund sú sem Ítalir kalla „Gran Tourismo“ og Bretar kalla „Grand Tourer“. Þar er átt við bíl sem kemst hratt, fer langt og gerir það með stæl og lúxus. Til nánari útskýringar þá er Stinger í sama stærðarflokki og Audi A6, Mercedes-Benz E-Class, BMW 5 Series og Lexus GS, svo fáein þekkt dæmi séu tekin. Og svo því sé haldið til haga þá tikkar Stinger í öll boxin sem lýsa einkennum alvöru GT bíls. Hann er kemst dúndrandi hratt, hentar ljómandi vel í langkeyrslur, er hlaðinn búnaði og það sem einna mest er um vert – hann er alveg hreint hörkufallegur að sjá.

Sko Kia – þetta gátuð þið!

Það er virðingarvert framtak hjá Kia að leggja til atlögu við E-stærðarflokkinn, hvar ýmsir rótgrónir góðkunningjar ráða ríkjum og hafa gert um áratuga skeið. Hitt er svo aftur ennþá ótrúlegra að þeir nái svo góðum árangri í fyrstu atrennu sem raun ber vitni. Að utan markar Kia Stinger tímamót því hér eru stóru strákarnir í hverfinu skoraðir á hólm, og það með fullu sjálfstrausti. Stinger sver sig í ættina – tígrisnefsgrillið er á sínum stað – en línurnar allar miklu sportlegri og aggressífari en áður hefur sést á þessum bæ. Bíllinn er ekki eiginlegur „sedan“ heldur meira í ætt við Coupé-lagið, með aflíðandi halla á afturrúðu og mjög stuttum skotthlera, í stað þess að skottlokið sé langur stallur til móts við afturrúðuna. Það hjálpar eflaust einhverjum ef ég nefni Audi A7 í þessu sambandi. Að því sögðu minnti afturendinn, ljósin og heildarsvipurinn allur undirritaðan einna helst á seinni ára gerðir Maserati Quattroporte. Fyrir fáeinum misserum hefðu slík hugrenningatengsl milli Kia og Maserati þótt á mörkum brjálsemi og veruleikafirringar, en hvað get ég sagt – Kia eru bara að gera dúndurgott mót með þessum bíl.

Fallega hannaður, vel búinn

Það er ekki nóg að vera fallegur ásýndum ætli bíll að keppa við aðalbílana í E-flokki og þessu hafa Kia gert sér grein fyrir. Efnisvalið og hönnunin er til stakrar fyrirmyndar inni í Stinger, bæði fyrir farþega og ökumenn. Framsætin eru þokkalega djúp „bucket-sæti“ svo sem hæfir aflmiklum bíl, en til fyrirmyndar þótti mér að við hlið annarra stillinga á sæti var hnappur sem þrengir hliðarnar að ökumanni svo hann situr sem pikkfastast, jafnvel þegar farið er geyst í krappar beygjur. „Cut-off“ stýrið er fallegt og þægilegt auk þess sem stýringin er hreint fyrirtak, aðgerðaskjárinn stór og skýr, og mér þótti býsna smart að ekki einasta sýnir bíllinn hámarkshraðann hvenær sem skilti þar að lútandi ber fyrir augu, heldur les hann einnig skilti sem banna framúrakstur og gefur stöðuna til kynna í samræmi við það, bæði í mælaborði og á skjánum. Þessi búnaður er reyndar þegar til staðar í öðrum Kia-bílum, alltént nýjasta Sportage, og er til fyrirmyndar. Stinger steinliggur á veginum og er stórskemmtilegur akstursbíll.

Hentar vel til hraðaksturs

Þeir lesendur sem eru nógu gamlir til að muna þá tíð þegar maður tók ekki myndir á símann sinn heldur á apparöt er kölluðust „myndavélar“ og fór í framhaldinu með filmur úr téðum vélum til framköllunar. Ef vel tókst til að mati starfsfólks framköllunarstofunnar í það skiptið var settur límmiði á ljósmyndina sem á stóð: „Hentar vel til stækkunar“. Þegar ég var á dögunum staddur á Mallorca við reynsluakstur á Stinger hefði ég vel getað hugsað mér að hafa á mér límmiðann sem á stæði „Hentar vel til hraðaksturs“ því ég hefði umsvifalaust splæst einum slíkum á bílinn. Hér verður þó að taka fram að hér er helst átt við Stinger í GT útfærslu, sem býr yfir 370 hestöflum og upptaki sem drífur hann í 100 km/klst á 4,9 sekúndum. Alveg hreint frábærlega skemmtilegur bíll, í sem stystu máli sagt. Stinger var tekinn til kostanna á margvíslegum vettvangi, inni í smábæjum, úti á hraðbrautum og meira að segja á kappakstursbraut, og alls staðar naut hann sín með miklum ágætum. Fjöðrunin er frábær, allt frá mjúkri fjöðrun í Comfort-stillingu og yfir í vel stífa hraðakstursfjöðrun í Sport+ stillingu. Brembobremsur í Stinger GT sáu svo um að hemla eins og best verður á kosið.

Í þessu sambandi verður þó að benda á að Askja mun bjóða upp á bílinn í tveimur útfærslum og sitt er hvað þegar allt er sett upp á strik, Stinger GT Line og Stinger GT.

Sá fyrrnefndi er fjórhjóladrifinn með 2,2 lítra díselvél, 200 hestöfl, sem er sú sama og Sorrento-jeppinn frá Kia skartar. Upptakið er 7,6 sekúndur í 100 km/klst.

Kia Stinger GT er aftur á móti bensínbíll með 3300 rúmsetrimetra sprengirými, sturlað vélarhljóð og 370 hestöfl sem dreifast á hjólin fjögur og sem fyrr sagði 4,9 sek. í hundraðið. Þó GT Line bíllinn sé enginn skussi þá er GT einfaldlega á öðrum stað í tilverunni og þar er Kia að láta að sér kveða með þeim hætti að engin leið er að hunsa Stinger.

Bíll sem breytir landslaginu

Kia eru semsagt komnir með bíl sem á fullt erindi inn í hóp skemmtilegustu og bestu kraftbílanna í E-flokki. Stóra fréttin er sú að ef þú ætlar að fá þér jafn öflugan bíl og Stinger GT þá þarf að leita í hóp Benz E 43 AMG, BMW M5 eða Audi S6 – semsagt sérútgáfurnar af þýsku þrenningunni – og þar sleppurðu aldrei með verðmiða undir 15 milljónum á meðan Stinger GT kostar um 10 millur. Þjóðverjarnir komast þar af leiðandi ekki hjá því að líta um öxl því það er nýr aðili fluttur í bæinn og hann mun að öllum líkindum setja talsvert mark á landslagið á næstu mánuðum og misserum.

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »