Þegar hlustað er á það sem fólkið vill

Í austurrískri sveitasælu. Útlitið veldur ekki vonbrigðum og aksturseiginleikar prýðilegir
Í austurrískri sveitasælu. Útlitið veldur ekki vonbrigðum og aksturseiginleikar prýðilegir mbl.is/Ásgeir Ingvarsson

Í flestum bókum um nýsköpun er að finna tilvitnun í Henry Ford, sem á að hafa sagt eitthvað á þá leið að það væri af og frá að leita til viðskiptavinanna eftir hugmyndum að nýjum vörum. „Ef ég hefði spurt fólkið hvers konar farartæki það vildi, þá hefði það beðið um hraðskreiðari hest,“ sagði Ford – en sagði samt ekki því fræðimenn hafa ekki enn getað sannreynt að ummælin séu frá honum komin.

Mottóið hjá Nissan er alveg í hina áttina: Hlustum á það sem fólkið vill, og sköffum það. Árangurinn fer ekki milli mála: Nissan X-Trail er mest seldi sportjeppi í heimi og frá því X-Trail (sem heitir Rogue á Bandaríkjamarkaði) fór fyrst á markað árið 2000 hafa yfir 3,7 milljónir eintaka af þessum fjölskylduvæna og praktíska bíl runnið út af færibandínu.

Í júní voru bílablaðamenn boðaðir til Vínarborgar á kynningu á uppfærðum X-Trail og nýjum Qashqai. Skrifað var um Qashqai í Bílablaði Morgunblaðsins í júlí, en bann var á umfjöllun um X-Trail fram í október og því ekki fyrr en nú að segja má lesendum frá þessari nýjustu endurholdgun óskabarns Nissan-fjölskyldunnar.

Reffilegur Japani

Nissan X-Trail tekur sig vel út með sá malarvegaryk á …
Nissan X-Trail tekur sig vel út með sá malarvegaryk á bakrúðunni. mbl.is/Ásgeir Ingvarsson


Ekki er hægt að segja að ráðist hafi verið í róttækar breytingar á X-Trail, en margt smátt gerir eitt stórt og fyrir vikið er óhætt að kalla nýja módelið allt aðra skepnu. Útlitsbreytingarnar gera nýja X-Trail vöðvastæltari og t.a.m. er búið að stækka grillið og gera það töffaralegra (og í leiðinni fela alls kyns skynjara á smekklegan hátt) og ný fram- og afturljós gefa vel heppnaðan augnsvip.

Að innan er líka búið að skerpa á útlitinu og t.d. hægt að velja sérlega vel heppnuð sæti sem hafa verið saumuð í nokkurs konar „þrívíddar-áferð“ svo að sætisbakið minnir mest á magavöðvana á Robocop.

En það sem á eftir að verða til þess að selja 3,7 milljónir eintaka til viðbótar af X-Trail eru notendavænu tæknibreytingarnar hér og þar. Til dæmis er búið að bæta hljóðeinangrunina og hljómtækin svo að ökumaður og farþegar geta ferðast í meiri ró og heyrt betur í uppáhaldstónlistinni. Myndavélar og skynjarar hjálpa við að leggja í stæði og lækka háu ljósin ef bíll kemur á móti. Svona má lengi telja. Allt eru þetta eiginleikar sem finna má í dýrari sportjeppum, en ekki er algengt að finna svona tækni í bílum í sama verðflokki og X-Trail.

Stefnuljós eru framan á baksýnisspeglum Nissan X-Trail.
Stefnuljós eru framan á baksýnisspeglum Nissan X-Trail. mbl.is/Ásgeir Ingvarsson


Ekinn var stuttur hringur út fyrir Vínarborg og spanað á malarslóða sem skógarhöggsmenn nota til að grisja brattar fjallshlíðarnar í austurrísku sveitasælunni. Er skemmst frá því að segja að ekkert truflaði: Vel fór um ökumann og farþega í öllum sætum, útsýni gott og aksturseiginleikar prýðilegir.

Otsukaresamadesu er eitt af þessum undarlegu japönsku orðum sem hafa ólíka merkingu eftir aðstæðum. Japanir nota þetta orð til að kasta kveðju á kollega sína á vinnustaðnum til að þakka þeim fyrir vel unnin störf og þýðir þá lauslega „þú hefur unnið mikið og hlýtur að vera lúinn“, eða öllu heldur „vel gert!“. Sama orð er notað í lok vinnudags þegar haldið er út á karaoke-klúbbinn og skálað með vinnufélögunum. Um Nissan X-Trail má segja það sama: Vel gert og skál: Otsukaresamadesu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: