Ný Kona komin á markaðinn

það er kunnara en frá þurfi að segja – alltént þeim sem lesa þetta blað að staðaldri – að hinn svokallaði „Compact Crossover“-flokkur, sem við getum kallað „sportlega borgarjepplinga“ eða eitthvað í þá áttina, hefur verið einn alvinsælasti stærðarflokkurinn undanfarna mánuði og misseri.

Hver framleiðandinn á fætur öðrum hefur enda stokkið á vagninn og sent frá sér einn slíkan og úrvalið í dag hreint feikilegt.

Suðurkóreski framleiðandinn Hyundai hefur hingað til verið fjarri góðu gamni í þessum tiltekna flokki, sem sætir nokkurri furðu því fyrirtækið hefur almennt verið með í slagnum með jeppunum Santa Fe og Tucson. Nú er hinsvegar fulltrúi frá Hyundai kominn til að taka slaginn og það sem meira er, fulltrúinn er Kona og bráðlagleg þar að auki.

Kona með útlitið með sér

Og þar sem með er brandarinn með nafnið afgreiddur. Nýi bíllinn heitir semsé Hyundai Kona og það býður út af fyrir sig upp á endalausa orðaleiki og brandara, en við skulum halda okkur innan landhelgi skynsemi og smekkvísi og láta staðar numið. Snúum okkur frekar að því sem máli skiptir. Undirritaður hefur upp á síðkastið verið einna hrifnastur af Tucson-sportjeppanum úr núverandi fjölskyldu Hyundai og það er mér því til óblandinnar gleði að Kona dregur talsverðan dám af þessum stóra bróður sínum. Er það vel.

Eins og almennt gengur um bíla í þessum flokki er Kona fáanleg í nokkrum litum og auk þess með mismunandi litað þak. Tíu aðallitir og þrír þaklitir bjóða upp á 28 mismunandi samsetningar, svo markhópurinn ætti hikstalaust að finna eitthvað við sitt hæfi.

Fyrst er það framendi bílsins sem fangar augað og það fyrir góðar sakir. Framljósin eru verulega knöpp útlits, minna einn helst á villikött sem pírir augun, og þess utan er fullt að gerast í framendanum sem fær augun til að staldra við, og það sem meira er, kinka kolli í sátt við það sem fyrir augun ber. Sömu sögu er að segja um afturendann. Þar er að finna tvöfalt sett af afturljósum, getum við sagt, og neðra ljósaparið er fellt inn í umgjörð sem er tengd við afturhjólabrettin. Þetta er einmitt hæfilega djarft og „fönkí“ til að hópurinn sem bíllinn er ætlaður taki við sér. Sami stíll er á framendanum, þar sem brettahlífarnar og umgjörð neðri framljósa tengjast. Sjá meðfylgjandi myndir.

Rúmgóður og nútímalegur

Eins og tilfellið er með nokkra aðra bíla af þeim betur heppnuðu í þessum flokki þá er nokkur furða hversu rúmgóð Kona er, af ekki stærri og fyrirferðarmeiri bíl að vera. Höfuðrými er fínt fyrir þá sem sitja fram í og fótaplássið aftur í er að sama skapi vel skikkanlegt. Þá er farangursrýmið þokkalegt, og fyrirtak með aftursætin niðri.

Mælaborð og stjórntæki almennt eru eins og helst er að vænta af nýjum bíl, stór aðgerðaskjár blasir þar við með helstu upplýsingum og aðgerðum. Stýrið er þægilega svert og sportlegt og innréttingin flott. Sumum kann að þykja hún helst til dökk, því hún er bókstaflega öll svört, en saumar og líningar að andstæðum lit brjóta útlitið upp. Þó hefði líkast til ekki sakað að létta aðeins ásýndina með steingráum eða álíka í bland, í stað þess að veðja alfarið á svartan.

Þá er mikill kostur hve hátt ökumaður sér sem tryggir honum gott útsýni úr bílstjórasætinu.

Hljóðlátur og þægilegur

Þegar haldið er út á veg kemur í ljós að eins lítra þriggja strokka vélin er býsna reffileg og skilar Konu vel áfram. Þessi borgarjeppi er svosem engin raketta en 8 sekúndur upp í hundraðið er heldur ekkert til að skammast sín fyrir.

Þegar bíllinn var prófaður á götum Barcelona og nágrennis kom skemmtilega á óvart hve vel einangraður og hljóðlátur hann er. Það sleppur sáralítið veghljóð og enn minna vélarhljóð inn í farþegarýmið sem gerði aksturinn einkar ljúfan. Inni í borginni reyndist hann ennfremur lipur og snar í snúningum, með viðbragðsgóða og þétta stýringu. Í það heila var ánægjulegt að keyra Hyundai Kona og næsta víst að tryggir kaupendur þessa suðurkóreska framleiðanda munu taka Konu höndum tveim. Bíllinn er líka það fallegur ásýndar að hann mun án vafa smala inn nýjum kaupendum í bland. Hönnunin er þónokkuð djörf frá hendi Hyundai en ég hef fyrir mína parta trú á því að það verði þessum bíl til láns frekar en lasts.

Verðið er nokkurn veginn á pari við samkeppnisbílana, byrjar í um það bil 3,5 milljónum en hækkar fljótlega eftir því sem viðskiptavinurinn vill meiri búnað. Comfort-línan, sem að líkindum verður mesti sölubíllinn af Kona hérlendis, er til að mynda á 4,5 milljónir. Það mun sumum eflaust þykja svolítið bratt og ekki alveg út í bláinn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: