Benz fyrir byrjendur

Þegar ég var lítill polli leit ég á Mercedes-Benz sem bíl fyrir vel stæða gamla karla. Ég átti einmitt einn slíkan fyrir frænda, og man að hann ók um á agalega fallegum gylltum Benz-dreka.

Svo uppgötvaði ég SL-línuna og fór að líta á Mercedes-Benz sem bíl fyrir vel stæða töffara og pæjur sem vilja finna vindinn í hárinu.

Síðan kom SLR McLaren, þvínæst SLS AMG og nú síðast AMG GT og þá hugsaði ég loksins að Mercedes Benz gæti verið bíll fyrir mig. Ef ég bara gæti landað starfi í skilanefnd einhvers bankans, eða auðnast að kaupa bitcoin á réttum tímapunkti.

En svo fékk ég að prufukeyra CLA-týpuna á dögunum, og kynntist þar Benz sem ég gæti jafnvel haft efni á, þrátt fyrir að vera ekkert sérstaklega fjáður.

CLA er ódýrasti fjögurra dyra bíllinn í Benz-fjölskyldunni en er samt ekki beinlínis gefins. Bíllinn sem ég hafði að láni í nokkra daga á haustmánuðum var með AMG útlitspakka og 136 hestafla díselvél, og myndi í dag kosta um 8,1 milljónir króna.

Þrátt fyrir að vera frekar ódýr, af Benz að vera, þá virkaði CLA ósköp líkur öðrum fjölskyldumeðlimum sínum í akstri. Stýrið dúnmjúkt og yfir fáu að kvarta þegar setið er í ökumannssætinu. Að vísu virðist eins og það fari ekki alveg nógu vel um menn með mín líkamshlutföll í Benz – veit ekki hvað það er, en virðist sem leggjalangir slánar hafi ekki verið hafðir með í ráðum við hönnun sætis og pedala í CLA, né heldur í G-Class eða Maybach S-class, sem ég fékk líka að aka á þessu ári.

Töffari með litla krafta

Hlutföllin á CLA eru gæjaleg, og AMG útlitspakkinn skerpir skemmtilega á línunum. Mattsilfraður liturinn sem Askja hefur valið fer bílnum líka afskaplega vel, hvað þá með felgurnar kolsvartar og glansandi.

En töffaralegt ytra byrðið þýðir að það virðist hátt upp í glugganna þegar setið er í bílnum, og svolítið eins og að vera ofan í kari. Innréttingin virkar fyrirferðarmikil og mjög stórir fletir fyrir framan ökumann og farþega, enda þarf að fylla upp í hlutföllin sem ytra byrðið skapar.

CLA er líka, eins og hann var prófaður, ekki eins hraðskreiður og hann lítur út fyrir að vera. Sem er ágætt, því á Íslandi getur verið dýrt að spana of hratt og því alveg hæfilegt að vera ekki fljótari en 9 sekúndur í hundraðið.

Einnig lét ég bakkmyndavélina fara í taugarnar á mér – þegar lagt er í stæði samhliða akstursstefnu lætur hún gagnstéttarbrúnina virðast nær en hún er í raun, sem er óheppilegt því vandasamt er að fá tilfinningu fyrir umfangi bílsins með augunum einum saman. Hljómkerfið mætti líka vera betra, þó að það sé alls ekki slæmt.

Að öllu þessu sögðu er CLA prýðilegur bíll, en kaupandinn fær það sem hann borgar fyrir. CLA getur verið ágætis leið til að stíga fyrstu skrefin inn í heillandi heim Mercedes-Benz, en ég held að það sé gott að láta ekki staðar numið þar heldur fara upp um flokk þegar kemur að endurnýjun.